Skólavarðan - 01.04.2006, Blaðsíða 30
30
SMIÐSHÖGGIÐ
SKÓLAVARÐAN 3.TBL. 6. ÁRG. 2006
var frá samræmdur tími í stundaskrá allra
skólanna svo að allir nemendur þeirra
ættu kost á að stunda nám í þessum
greinum. Þá var tekið upp það nýmæli
að nemendur gátu fengið metið sem
val þátttöku í íþróttum, félagsstarfi og
nám við aðra skóla, s.s. tónlistarskóla,
myndlistarskóla og framhaldsskóla, enda
væri að baki tilskilinn tímafjöldi og gerð
væru skil til grunnskólanna um ástundun
og viðunandi árangur. Var þar haft sem
viðmið að 50 klst. ástundun a.m.k. lægi
að baki til að iðkunin fengist metin sem
tveggja vikustunda valgrein.
Verkefnið hefur í meginatriðum þótt
takast vel og hefur þessu fyrirkomulagi
verið haldið áfram. Á síðustu tveimur
árum hafa bæst við fjölmargar greinar
sem nemendum allra grunnskólanna á
Akureyri standa til boða. Einnig má nefna
að við sameiningu Akureyrarbæjar og
Hríseyjarhrepps bættust nemendur frá
Hrísey í hópinn.
Á yfirstandandi skólaári eru 17 valgrein-
ar kenndar sameiginlega nemendum í 9.-
10. bekk á Akureyri. Kennir þar ýmissa grasa
en þær greinar sem um ræðir eru atvinnu-
lífskynning, byrjendanámskeið í forritun,
danskennsla, djass- og dægurlagasöngur,
fjöllist, framtíðarleiðtogar, handboltaskóli
KA, heimspeki, knattspyrnuskóli Þórs, kvik-
myndagerð og hagnýt miðlun, leiklist,
líkamsrækt, nudd, nytjalist, táknmál og
útivistarfræði auk valgreinar sem sam-
sett er úr ýmsum námskeiðum á vegum
Íþrótta- og tómstundaráðs Akureyrar.
Meðal þeirra aðila sem koma að kennslu
greinanna má nefna Skátafélagið Klakk,
Menntasmiðju kvenna, Tónlistarskóla
Akureyrar, íþróttafélögin KA og Þór,
Leikfélag Akureyrar, Listaskóla Arnars
Inga, Stefnu ehf., Átak, líkamsræktarstöð
og fleiri aðila innan bæjarfélagsins. Að
sjálfsögðu bjóða einstakir skólar að auki
upp á sínar eigin valgreinar sem fyrr og
hafa í nokkrum tilvikum með sér samstarf
um einstakar greinar. Nemendur sem
taka þátt í sameiginlegu valgreinunum í
vetur eru rúmlega 360. Með þessu móti
er hægt að bjóða upp á mun fjölbreyttara
val en áður tíðkaðist enda meiri líkur á
að nægilegur nemendafjöldi náist í hinar
ýmsu greinar þegar nemendur margra
skóla eiga kost á að velja þær. Þannig eiga
nemendur í 9.-10. bekk á Akureyri nú kost
á að velja um allt að 60 valgreinar árlega.
Verkefnið er enn í þróun og er nú unnið
að undirbúningi fyrir næsta skólaár, mati
á þeim greinum sem kenndar eru nú og
hugmyndum að nýjum valgreinum.
Fyrir liggja skýrslur um verkefnið og má
nálgast þær hjá grunnskólum Akureyrar-
bæjar.
Vinnuhópurinn sem tók til starfa
haustið 2002 er enn að störfum. Nafnið
breyttist í valgreinanefnd grunnskóla
Akureyrar og hefur hún nú fengið
starfslýsingu þar sem hlutverk hennar
er skilgreint. Í nefndinni nú eru Sigríður
Jóhannsdóttir deildarstjóri, Síðuskóla,
Halldór Gunnarsson aðstoðarskólastjóri,
Glerárskóla, Fjóla Helgadóttir deildar-
stjóri, Oddeyrarskóla, Ágúst Jakobsson
aðstoðarskólastjóri, Brekkuskóla, Eyrún
Skúladóttir, deildarstjóri, Lundarskóla
og Vala Stefánsdóttir deildarstjóri, Gilja-
skóla.
Skóladeild Akureyrar hefur með ýmsum
hætti stutt þetta þróunarstarf. Þá kom
skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri
að mótun verkefnisins eins og áður segir
og lagði m.a. tímabundið til starfsmann
sem vann með vinnuhópnum. Samstaða
skólanna og afar góð samvinna um
þróun valgreina hér á Akureyri hefur
orðið til þess að skapa hér fjölbreyttara,
skemmtilegra og áhugaverðara námsval
en áður var.
Fyrir hönd valgreinanefndar
grunnskólanna á Akureyri,
Ágúst Jakobsson og Halldór Gunnarsson
Framtíðarleiðtogar, leiðbeinandi Pétur Björgvin Þorsteinsson
djákni í Glerárkirkju
Elín Inga Bragadóttir nemandi í 10. bekk Síðuskóla:
Þetta er bara alveg ótrúlega skemmtilegt! Við erum mikið í leikjum sem hafa
einhverja merkingu og síðan ræðum við um það eftir á. Við erum búin að vera
í mikilli sjálfsstyrkingu. Sem dæmi má nefna að við erum búin að læra að taka
gagnrýni og viðhorf mín til ýmissa hluta hafa breyst verulega. Síðan fórum
við einhvern tímann út og stóðum uppi á skafli og góluðum en það var eitt
það erfiðasta fyrir mig. Við höfum einnig verið að kynnast réttindum okkar
og þeirra sem búa með okkur á jörðinni og einnig lærum við um menningu
annarra þjóða og mikilvægi þess að vera víðsýn og taka tillit til fólks með aðra
menningu en við. Núna eru til dæmis þýskir krakkar í heimsókn hjá okkur og
eru að kenna okkur ýmislegt sniðugt. Sjálfstraust mitt hefur vaxið gríðarlega
í vetur og ég mæli pottþétt með framtíðarleiðtogum fyrir hvern sem er.
Stutt greinargerð um reynslu mína af þátttöku í valgreinum
við grunnskóla Akureyrar.
Í þrjú ár hef ég boðið upp á kennslu í kvikmyndagerð og hagnýtri fjölmiðlun,
ég tel að það hafi verið afar skemmtilegt og fróðlegt fyrir langflesta
þátttakendur og ekki síst mig sjálfan. Þróunarferlið er líka vel merkjanlegt
en glíman er yfirleitt sú að ætla sér ekki um of. Nemendur eru yfirleitt mjög
duglegir og frumlegir í hugsun en ég hef haft það að markmiði að beina
þeim á önnur svið en þeir eru vanir og hvet til frekara úthalds og þolinmæði
við allar útfærslur og tæknilegar forsendur. Í þessa námsgrein sækja fleiri
drengir en stelpur.
Fyrir ári vildi ég bjóða upp á nýja valgrein sem var fjöllist, en þar er mörgum
listgreinum blandað saman, s.s. myndlist, leiklist, ritlist og kvikmyndagerð.
Það er hægt að segja að námsgreinin hafi sannað sig í botn því nemendur fóru
á kostum og glöddu bæði mig og aðra. Stelpurnar lögðu næstum greinina
undir sig og ég get alveg fullyrt að ég var mjög undrandi á því hversu ólíkir
hóparnir voru.
Takmark mitt er …. Að hver finni sig í viðfangsefninu og alvöru þess.
Þá er gaman.
ÖRN INGI