Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 7
7
Setningarræða forseta kirkjuþings, Péturs Kr. Hafstein
Samkvæmt heimild í 2. gr. starfsreglna um þingsköp kirkjuþings nr. 949/2009 lýsi ég
því yfir að aukakirkjuþing 2010, 43. kirkjuþing, er sett.
Virðulegi þingheimur.
Verið öll hjartanlega velkomin til þessa aukakirkjuþings á hallandi sumri. Megi
drenglyndi og réttsýni, friður og sanngirni einkenna störf okkar öll á þessu þingi og á
því fjögurra ára kjörtímabili kirkjuþings, sem nú fer í hönd. Megi Drottinn lýsa og
leiða og stýra öllum verkum kirkjuþings í heila höfn í trúfesti og kærleika. „Allt sé hjá
yður í kærleika gjört,” sagði Páll í fyrra bréfi sínu til Korintumanna. Látum þá
leiðsögn verða okkur veganesti í trúnaðarstörfum á kirkjuþingi.
Við minnumst á þessum morgni kirkjuleiðtogans herra Péturs Sigurgeirssonar
biskups, sem lést í hárri elli 4. júní síðastliðinn. Hans hefur að verðleikum verið
minnst af mikilli virðingu og þökk og svo skal enn gert á þessu fyrsta kirkjuþingi eftir
fráfall hans. Pétur biskup sat á kirkjuþingi í 17 ár og í kirkjuráði tveimur árum betur.
Þegar hann gegndi embætti biskups Íslands 1981-1989 var hann bæði forseti
kirkjuráðs og forseti kirkjuþings eins og þá tíðkaðist. Hann skynjaði hins vegar
nauðsyn þess að efla leikmenn til starfa í þjóðkirkjunni og stofnaði til fyrstu leik-
mannastefnu kirkjunnar árið 1987. Ég dreg ekki í efa að sú þróun, sem síðar hefur
orðið í þá átt að kalla leikmenn til raunverulegra áhrifa í kirkjunni að lúterskum hætti,
hafi verið honum að skapi. Í minningarorðum sínum í dagblöðum á útfarardegi Péturs
biskups gerði vígslubiskupinn á Hólum að sínum þau eftirminnilegu ummæli Jóns
Ögmundarsonar Hólabiskups um fóstra sinn, Ísleif Gissurarson biskup í Skálholti: „Þá
kemur mér hann í hug, er ég heyri góðs manns getið; hann reyndi ég svo að öllum
hlutum.“ Undir þetta hygg ég að allir geti tekið er kynntust mannkostum Péturs
biskups og þeirri heiðríkju, sem fylgdi honum og frú Sólveigu Ásgeirsdóttur,
eiginkonu hans. Ég vil biðja þingheim að votta minningu hins fallna biskups virðingu
sína með því að rísa úr sætum.
Kjör til kirkjuþings fór fram dagana 1. til 15. maí síðastliðinn. Samkvæmt 1. gr.
starfsreglna um þingsköp kirkjuþings kemur reglulegt kirkjuþing ekki saman fyrr en á
haustmánuðum, í reynd fimm til sex mánuðum eftir kirkjuþingskjör. Áður en til þess
getur komið þurfa öll þingmál að vera fullbúin, bæði mál frá kirkjuráði og einstökum
kirkjuþingsmönnum. Samkvæmt 13. og 14. gr. þingskapa skulu málin áður hafa hlotið
umfjöllun á þingmálafundum í héraði og jafnframt verið til kynningar á vef
kirkjunnar. Eðlilegt er að ætla þessu ferli allt að tvo mánuði áður en reglulegt
kirkjuþing kemur saman laugardaginn 13. nóvember næstkomandi.
Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. þingskapa hefur forseti kirkjuþings heimild til að boða til
aukakirkjuþings þegar brýna nauðsyn ber til með eigi skemmri fyrirvara en eins
mánaðar. Slíkt aukaþing verður kvatt saman þótt reglulegt kirkjuþing hafi ekki áður
verið háð á árinu eða að afloknum kosningum enda geta brýnar ástæður hvenær sem
er skapast til að kveðja saman aukaþing, jafnt á kosningaári sem öðrum árum. Tildrög
þessa aukakirkjuþings eru þau að séra Gunnlaugur Stefánsson í Heydölum beindi því
til mín hinn 9. júní síðastliðinn að kirkjuþing yrði kvatt saman til að ræða þá stöðu,
sem nú er uppi í fjármálum þjóðkirkjunnar, þegar óvenjulegar aðstæður í
efnahagsmálum þjóðarinnar kalla á aðhald og niðurskurð hvarvetna um samfélagið,