Gerðir kirkjuþings - 2010, Side 8
8
ekki síður hjá þjóðkirkjunni en öðrum. Eðlilegt væri að nýkjörið kirkjuþing hefði
aðkomu að stefnumörkun þjóðkirkjunnar í þessum málum en stæði ekki aðeins
frammi fyrir gerðum samningi milli þjóðkirkjunnar og ríkisvaldsins á kirkjuþinginu í
nóvember.
Eftir stutta umhugsun og samráð við þá, sem helst koma að kirkjustjórninni, féllst ég á
þessi sjónarmið 11. júní, féllst á að brýna nauðsyn bæri til þess að nýkjörið
kirkjuþing, sem enn hefur ekki kosið sér framkvæmdaráð, nýtt kirkjuráð, kæmi saman
nú í sumar til að ræða og horfast í augu við þann vanda, sem við blasir, og veita
fráfarandi kirkjuráði veganesti í samskiptum við ríkisvaldið um fjármál
þjóðkirkjunnar. Með því móti taldi ég hugmyndum um lýðræði innan þjóðkirkjunnar,
vandaðri vinnubrögð, aukið samráð, valddreifingu og ábyrgð best þjónað.
Á haustdögum 2008 reið holskefla efnahagshamfara yfir íslenskt samfélag og átti hún
sér raunar systur víða um lönd. Ekki varð undan því vikist að skera niður útgjöld hér á
landi með óvægnum hætti á árinu 2009. Þjóðkirkjan fór ekki varhluta af því og lýsti
sig reiðubúna til að axla að sínu leyti þær byrðar, sem almannaheill krefðist. Um leið
jukust umsvif kirkjunnar verulega við hvers kyns hjálparstarf, samræðu og sálgæslu,
bænir og helgihald og beinan stuðning í rúmhelgri önn hversdagsins þar sem ótti og
reiði og vonleysi höfðu gripið um sig og nauðþurftir víða á þrotum. Kirkjuþing 2009
staðfesti í nóvember viðaukasamning um tímabundna breytingu á fjárframlögum frá
ríkinu samkvæmt samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og
launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997, sem
geirnegldur hafði verið í 60. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti
þjóðkirkjunnar. Með þessum tímabundna viðaukasamningi vegna ársins 2010 og
samsvarandi breytingu á þjóðkirkjulögunum voru framlög ríkisins til þjóðkirkjunnar
lækkuð um 160 milljónir króna og framlag til kristnisjóðs um 9 milljónir króna. Nú
hefur komið fram af hálfu ríkisvaldsins sú krafa að fjárframlög til þjóðkirkjunnar
verði enn skorin niður um 9% á árinu 2011 auk þess sem sóknargjöld lækki áfram
umtalsvert. Það er verkefni aukakirkjuþings í dag að bregðast við þessum kröfum og
sjónarmiðum ríkisins af einurð og þó sanngirni, af réttsýni og ekki síður raunsæi.
Um leið og við göngum til þessa verkefnis skulum við gera okkur skýra grein fyrir því
og láta það vera öllum ljóst á hvaða réttargrunni þjóðkirkjan og fjármál hennar standa.
Í stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands frá 1874 sagði í fyrsta skipti í lögum
að hin evangeliska lúterska kirkja skyldi vera þjóðkirkja á Íslandi. Rómversk-
kaþólska kirkjan hafði verið landskirkja hér til siðaskipta á 16. öld en þá kom lúterska
kirkjan í hennar stað. Orðið þjóðkirkja var ekki haft um kaþólsku eða lútersku
kirkjuna fyrr en 1874 enda var ekki þörf á því heiti til aðgreiningar frá öðrum
trúfélögum þar sem þessi trúfélög ein máttu þá vera hér á landi. Stjórnarskráin 1874
löghelgar hugtakið þjóðkirkja um leið og hún mælir fyrir um almennt trúfrelsi, sem
ekki þekktist áður. Landsmenn fengu nú rétt til að stofna félög til að þjóna Guði eftir
sannfæringu hvers og eins en ríkisvaldið átti hins vegar að styðja og vernda
þjóðkirkjuna. Þessi skipan stendur enn eins og skýrlega kemur fram í 62. gr.
núgildandi stjórnarskrár þótt straumhvörf hafi orðið í innri málefnum þjóðkirkjunnar í
átt til aukins sjálfræðis og sjálfstjórnar, einkum á síðustu árum 15 árum eða svo. Sú
þróun og stjórnarskrárákvæðið sjálft undirstrika það rækilega að þjóðkirkjan er ekki
ríkiskirkja heldur sjálfstæð stofnun, sjálfstæður réttaraðili sem ber réttindi og skyldur
að lögum. Öðrum aðila, íslenska ríkinu, er falið að styðja og vernda kirkjuna eða með
öðrum orðum gera henni kleift að gegna stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu sem