Gerðir kirkjuþings - 2010, Qupperneq 9
9
þjóðkirkja á Íslandi. Það hefur ríkisvaldið einkum gert í seinni tíð með rammalöggjöf
um þjóðkirkjuna, sem kirkjan með kirkjuþing í broddi fylkingar hefur svo unnið úr og
mótað kirkjulegt starf og sjálfstæði á þeim grunni, sem þar er lagður.
Þjóðkirkjan á Íslandi er sprottin úr sögulegum jarðvegi langt aftur í aldir fyrir samspil
trúar og menningar. Af sjálfu leiðir að til kirkjunnar söfnuðust á þessu aldaskeiði
veraldlegar eignir í ríkum mæli. Um kirkjueignir og aðkomu ríkisvaldsins að þeim
vegna sögulegra og lögskipaðra tengsla ríkis og kirkju og stuðning ríkisins við
þjóðkirkjuna vegna stjórnarskrárákvæðisins hefur mikið verið ritað og rætt og deilt
árum og áratugum saman. Óhætt er að segja að með nýlegum samningum
þjóðkirkjunnar og ríkisins hafi þessi deilumál verið leidd til bærilegra lykta og þeir
hafi markað eignarréttarstöðu kirkjunnar og tilkall hennar til launagreiðslna úr
ríkissjóði í framtíðinni. Fyrst var kirkjujarðasamkomulagið gert 10. janúar 1997 og
laut það að afhendingu kirkjujarða og meðfylgjandi kirkjueigna til ríkisins, að
frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir. Á móti þessum gífurlegu verðmætum
frá þjóðkirkjunni skuldbatt ríkið sig til að greiða tilteknum fjölda starfsmanna
kirkjunnar laun um ókomna tíð, prestum, próföstum, biskupum og starfsmönnum
biskupsstofu. Skýrlega var tekið fram að þetta samkomulag fæli í sér fullnaðaruppgjör
vegna þeirra verðmæta, sem ríkissjóður tók við 90 árum áður eða árið 1907. Í kjölfar
þessa samkomulags var svo gerður samningur 1998 um rekstrarkostnað vegna
prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og
sérframlög til þjóðkirkjunnar. Lokahnykkurinn náðist svo 20. október 2006 í samningi
um fjárhagsuppgjör milli þjóðkirkjunnar og íslenska ríkisins. Með honum voru
prestssetur, þ.e.a.s. prestsetursjarðir og prestsbústaðir, lýst eign þjóðkirkjunnar auk
þess sem ríkissjóður hækkaði árlegt framlag sitt til kirkjumálasjóðs. Þessir samningar
hafa verið staðfestir af Alþingi með sérstökum ákvæðum í núgildandi
þjóðkirkjulögum. Viðaukasamningurinn um tímabundinn niðurskurð á síðasta ári var
einmitt reistur á þessum réttargrundvelli, sem bæði núverandi ríkisstjórn og Alþingi
hafa skýrlega viðurkennt með þeirri samningsgerð og samsvarandi breytingu á
þjóðkirkjulögunum. Það er þjóðkirkjunni mikils virði að hafa þannig fengið
endurnýjaða staðfestingu á því að við fjárhagslegum grundvelli hennar verði ekki
hróflað af hálfu ríkisvaldsins nema með gagnkvæmum samningum, sem kirkjuþing og
Alþingi verði að fallast á. Það er ekki í anda slíkra gagnkvæmra samninga tveggja
jafnsettra samningsaðila að annar þeirra, í þessu tilviki ríkisvaldið, gefi hinum
fyrirmæli og hviki í engu frá þeim. Það er rétt að í samningnum á síðasta hausti gerði
þjóðkirkjan sitt ítrasta og kom að fullu til móts við tilmæli ríkisins um niðurskurð á
árinu 2010. Hitt er svo annað mál að þanþol kirkjunnar er ekki ótakmarkað og hún má
ekki láta innviði kærleiks- og velferðarþjónustu bresta, allra síst í því árferði sem nú
ríkir í samfélaginu. Þess vegna og vegna forgangsröðunar í þjóðfélaginu um þessar
mundir hlýtur að vera svigrúm til samninga um fram komna niðurskurðarkröfu
ríkisins og áframhaldandi lækkun sóknargjalda.
Ýmsir virðast telja, í gálausu tali um aðskilnað ríkis og kirkju, að verði 62. gr.
stjórnarskrárinnar um þjóðkirkjuna og stuðning ríkisvaldsins við hana felld brott muni
kirkjan sjálfkrafa hætta að njóta þeirra framlaga úr ríkissjóði, sem samið hefur verið
um á grundvelli eignaskila ríkis og kirkju – ríkinu sparist við fullan aðskilnað stórfé,
milljarða verðmæti. Þetta er þó hrein bábylja og kemur vitaskuld ekki til greina vegna
þess fyrst og fremst að fjárstuðningur ríkisins við þjóðkirkjuna byggist ekki nema að
hluta á sjónarmiðum um sérstöðu kirkjunnar sem þjóðkirkju heldur skýrum rökum um
sögulegt eignarréttartilkall hennar til þeirra kirkjujarða og kirkjueigna, sem ríkinu