Gerðir kirkjuþings - 2010, Side 21
21
Sá sanni fjársjóður sé okkur ætíð í huga og minni, og á hjarta og fyrir sjónum: Hið
allra helgasta fagnaðarerindi um dýrð Guðs og náð. Og án þess, og án þess samfélags
sem það iðkar, ræktar og ber fram, verður engin siðbót í íslensku samfélagi!
Gleymum því ekki að sá vandi sem við er að etja er „bara peningar“ aðeins fjármála-
legs eðlis, og það er nóg til af peningum. Þeir eru bara ekki alltaf þar sem við vildum
hafa þá! Og lausn vandans sem við er að etja á Íslandi er ekki fólgin í efnahagslegum
og fjármálalegum þáttum einum heldur umfram allt andlegum og siðgæðislegum. Þeir
peningar, þau fjármál sem við munum ræða hér og lögð eru kirkjunni til, eru verkfæri
þjónustu fagnaðarerindisins, ekkert annað. Og vandi okkar sem gert er að klífa
þrítugan hamarinn við endurskipulagningu og uppstokkun starfsins út frá forsendum
minni fjárráða er sá hvernig við getum haldið uppi þjónustu við fólkið í landinu,
söfnuðina, sem biðjandi, boðandi og þjónandi þjóðkirkja, aflvaki siðbótar í íslensku
þjóðlífi. Af því að siðbót verður ekki ofanfrá, með auglýsingaherferðum, ekki einu
sinni með nýrri stjórnarskrá, heldur með rækt og uppbyggingu samfélagsins,
nærsamfélagsins á heimilum og í samfélagi í önnum og hvíld, leik og starfi, og þar
gegnir trúin lykilhlutverki.
Verkefni kirkjuþings í dag snertir líka samskipti kirkju og ríkisvalds á Íslandi. Þar
gildir það sem vitur maður sagði eitt sinn að ef samband ríkis og kirkju er slæmt þá sé
eitthvað að ríkinu, en sé það áberandi gott þá sé eitthvað að kirkjunni! Við erum held
ég flest sammála hér inni að það sé eitthvað að ríkinu, alla vega ríkisbúskapnum. En
mér finnst að við berum ríka skyldu til að standa með ríkisvaldinu í að vinna að lausn
þeirra aðsteðjandi vandamála sem við er að etja í fjármálum þjóðarinnar. En viljum
líka gera þá kröfu til ríkisins að það virði þær grundvallarforsendur sem ráðið hafa
samskiptum ríkis og kirkju á Íslandi um langa hríð, og hér sé ekki verið að nota
tækifærið til að veikla þjóðkirkjuna og fjárhagslegan grundvöll hennar, eins og við
höfum á tilfinningunni að ýmsir vilji nú gjarna sjá gerast.
Ég legg til að málinu verði vísað til þingnefndar kirkjuþings um fjármál, sem fari yfir
tillögurnar, forgangsraði, komi með ábendingar og eftir atvikum nýjar tillögur til að
mæta þessum niðurskurði. Kirkjuráð þiggur með þökkum holl ráð og góðan atbeina
kirkjuþings að lausn þessara mála.
Við göngum með gleði til góðra verka í þágu hins sanna fjársjóðs kirkjunnar – hins
allra helgasta fagnaðarerindis um dýrð Guðs og náð.