Gerðir kirkjuþings - 2010, Síða 29
29
Setningarræða forseta kirkjuþings, Péturs Kr. Hafstein
Kirkjuþing 2010 er sett.
Verið öll hjartanlega velkomin hingað í dag, til 44. kirkjuþings. Megi störf þessa
þings einkennast af heilindum, auðmýkt í garð þess trúnaðar sem okkur er falinn á
hendur og einlægum vilja til að styrkja þjóðkirkjuna í þeirri forystu sem henni ber að
veita í siðvæðingu samtímans. Við bjóðum nýjan ráðherra kirkjumála, Ögmund
Jónasson, velkominn á vettvang til samstarfs við þjóðkirkjuna og þökkum fráfarandi
ráðherra, frú Rögnu Árnadóttur, góðan hug í garð kirkjunnar þá skömmu hríð er vegir
lágu saman.
I.
Frá því kirkjuþing kom saman í nóvember 2009 hafa nokkrir fyrrum kirkjuþingsmenn
látist. Herra Péturs Sigurgeirssonar biskups var sérstaklega minnst á aukakirkjuþingi
7. ágúst sl. en nú verður annarra minnst:
Séra Sigurður Guðmundsson vígslubiskup Hólastiftis hins forna lést 9. janúar 2010,
tæplega níræður að aldri. Hann var fæddur á Naustum við Akureyri 16. apríl 1920.
Hann var sóknarprestur á Grenjaðarstað í Aðaldal 1944 til 1986 og rak þar jafnan
búskap og einnig unglingaskóla flest árin 1944 til 1969. Séra Sigurður var prófastur
Suður-Þingeyinga 1957 til 1958 og 1962 til 1986, þar af í sameinuðu Þingeyjar-
prófastsdæmi frá 1971. Hann var vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal 1981 til 1991,
skipaður sóknarprestur í Hólaprestakalli 1986 og fluttist að Hólum sama ár, fyrstur
biskupa til að sitja staðinn síðan 1798. Séra Sigurður var settur biskup Íslands um átta
mánaða skeið á árunum 1987 til 1988. Eftir að hann lét af embætti var hann m.a.
settur vígslubiskup í Skálholti í þrjá mánuði 1993 og aftur í Hólabiskupsdæmi samtals
í eitt ár og þrjá mánuði á árunum 1999 og 2002. Séra Sigurður sat því öll biskups-
embætti þjóðkirkjunnar á embættisferli sínum. Hann var varamaður frá upphafi
kirkjuþings 1958 til 1964 og kirkjuþingsmaður í 22 ár, frá 1964 til 1986, og sat jafn-
framt í kirkjuráði 1981 til 1986. Eiginkona séra Sigurðar, Aðalbjörg Halldórsdóttir,
lést árið 2005.
Gunnlaugur Finnsson lést 13. janúar 2010. Hann var fæddur á Hvilft í Önundarfirði
11. maí 1928. Hann var bóndi á Hvilft frá 1950 til 2007 og jafnframt kaupfélagsstjóri
á Flateyri 1980 til 1988. Hann var alþingismaður Vestfirðinga 1974 til 1978. Gunn-
laugur Finnsson gegndi trúnaðarstörfum fyrir þjóðkirkjuna um áratuga skeið, sat á
kirkjuþingi í 28 ár, frá 1970 til 1998, og í kirkjuráði í 22 ár, frá 1976 til 1998.
Eiginkona hans var Sigríður Jóhanna Bjarnadóttir en þau skildu 1984.
Séra Bragi Friðriksson lést 27. maí 2010. Hann var fæddur á Ísafirði 15. mars 1927.
Eftir prestsþjónustu í Manitoba í Kanada og störf fyrir Æskulýðsráð Reykjavíkur varð
séra Bragi sóknarprestur í Garðaprestakalli á Álftanesi árið 1966 og prófastur í
Kjalarnessprófastsdæmi 1977 og gegndi þeim störfum til 1997. Hann sat í stjórn
Hjálparstofnunar kirkjunnar 1970 til 1983, á kirkjuþingi 1982 til 1986 og í kjörstjórn
til kirkjuþings 1998 til 2010. Eftirlifandi eiginkona séra Braga er Katrín Eyjólfsdóttir.
Séra Magnús Guðjónsson fyrrum biskupsritari lést 2. október sl. Hann var fæddur í
Reykjavík 26. júní 1926. Hann gegndi prestsþjónustu á Eyrarbakka 1953 til 1972 og
við Fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði 1975 til 1979. Séra Magnús var biskupsritari í