Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 34
34
stjórnleysið, sem var í þessu þinglagi og vestri Skaptafellssýslu, var meira en nokkru
hófi gegndi, ásamt blygðunarlausu framferði manna. Hér lifðu menn í mesta sællífi.
Sumir voru svo matvandir, nær því einkanlega þjónustufólk, húsgangslýður og
letingjar, að varla vildu sjá nema kryddfæðu; drykkjusvall, tóbaksbrúkun og allt óhóf
var svo mikið, að á einu ári gekk hér á Síðunni upp í heimboð og drykkjur um 400
fiskar. Prestar gátu varla fram flutt guðsþjónustu nema með brennivínsstyrk og þó
margir vissu varla sitt fénaðartal var sú argasta tíund til allra stétta, og tjáði eigi að
finna. Það var eitt ólukkuefnið í landinu, að allir þjófar voru frómir kallaðir, og
almenningur gekk lögum á móti með svoddan flokkadrætti, að engu varð til leiðar
komið ... Þessi undur gengu hér á áður en eldurinn kom upp, en sá alvaldi lægði allt
þetta og sýndi hvað hann vildi vera láta.
Vera má að einhverjir kannist við þessa lýsingu eldklerksins og geti heimfært hana
upp á góðærið sem á undan gekk hruninu. Víst er um það að öll él styttir upp um síðir
og séra Jón var ekki í vafa um að sá alvaldi hefði lægt ósköpin og lagað að sínum
vilja. Margir hafa haft á orði að sú blessun myndi þó hljótast af þessum stórmælum í
samfélaginu undangengin ár að menn lærðu að þekkja og meta að nýju hin
raunverulegu verðmæti sem felast í virðingu fyrir manngildi og kærleika, fyrir
náunganum og því öfgalausa samneyti lands og þjóðar sem eitt getur fært varanlega
velsæld. Til þess að svo megi verða þarf þó að kveða niður draug sem hefur magnast
við ósköpin og fitnað eins og púkinn á fjósbitanum – en það er sundurlyndið. Ekkert
er nú jafnáberandi í samfélaginu og linnulaust sundurlyndi, hvers konar deilur og
atyrði og ósæmilegur munnsöfnuður, oft í skjóli nafnleyndar og hugleysis.
Hér verður kirkjan að ganga einörð fram og veita skýlausa forystu í þeirri siðvæðingu
samtímans sem er forsenda þess að íslenskt þjóðfélag nái áttum og geti endurheimt
sjálfsvirðingu sína. Við ætlum þessu efni nokkurt rúm á þinginu, bæði hér á
setningarfundinum og einnig í almennri umræðu síðar á þingtímanum. Um leið og við
gerum þetta verðum við að kosta kapps um að kirkjan styrki innra starf sitt og
stjórnarhætti og leiti allra leiða til að efla samheldni og einingu. Sá sem er veikur fyrir
getur enga forystu veitt. Í mínum huga er ekki vafi á því að skortur á samstöðu og
skilningi, á hollustu, drengskap og umburðarlyndi innan kirkjunnar á drjúga sök á því
að traust á þjóðkirkjunni virðist fara þverrandi. „Verið þolinmóð, langlynd, umberið
og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins,“
sagði Páll postuli í bréfi til Efesusmanna. Á þetta hefur skort í kirkjunni að
undanförnu. Þess vegna bíður okkar nú það erfiða verkefni sem þolir enga bið: Að sjá
bjálkann í eigin auga og draga hann út, verða við áskorun séra Matthíasar
Jochumssonar og senda „út á sextugt djúp sundurlyndisfjandann!“
Góðir kirkjuþingsmenn.
Við göngum nú til góðra og brýnna verka á kirkjuþingi. Það verðum við að gera með
samtakamætti og samstöðu um leið og við minnumst þess að okkur er hér trúað fyrir
æðsta valdi þjóðkirkjunnar. Á kirkjuþingi er ekki vettvangur til að skipa sér í
fylkingar á grunni einhverra guðfræðilegra hugmynda, hvort heldur þær eru kenndar
við íhaldssemi eða frjálslyndi. Hér á kirkjuþingi mega menn ekki víkja sér undan
þeirri ábyrgð að sjá heill og hag kirkjunnar í rökréttu samhengi við andlega farsæld
þjóðarinnar. Til íslensku þjóðarinnar sækir kirkjan allan sinn styrk og hún verður um
leið að veita henni siðferðilega forystu ef hún vill lifa af sem raunveruleg þjóðkirkja.