Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 65
65
25. mál. Viðaukasamningur við samkomulag íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar
um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10.
janúar 1997
Kirkjuþing 2009 samþykkti viðaukasamning við kirkjujarðasamkomulagið vegna
niðurskurðarkröfu ríkisins á hendur þjóðkirkjunni. Um er að ræða tímabundna
breytingu á fjárframlögum frá ríkinu samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu vegna
kröfu ríkisins á hendur kirkjunni um hagræðingu í fjármálum. Í viðaukanum fellst
þjóðkirkjan á að leggja sitt af mörkum og hreyfir ekki andmælum við að samnings-
bundin framlög ríkisins verði lækkuð tímabundið til samræmis við almennan niður-
skurð á flestum sviðum ríkisins. Nú liggur fyrir kirkjuþingi 2010 nýr viðauka-
samningur, en sá sem samþykktur var á kirkjuþingi 2009 fellur úr gildi um næstu
áramót.
26. mál. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og
starfshætti þjóðkirkjunnar
Kirkjuþing 2009 samþykkti frumvarp dómsmála- og mannréttindaráðherra til laga um
breytingu á lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, sem
lögfestir viðaukasamninginn.
27. mál. Starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar
Þessar starfsreglur leystu af hólmi eldri reglur frá árinu 1999. Í starfsreglunum er skýrt
enn frekar hlutverk fagráðs til að festa í sessi það mikilvæga hlutverk þess að sjá til
þess að mál sem berast til kirkjunnar af þesum toga hljóti faglega afgreiðslu.
Önnur verkefni kirkjuráðs
Hér verður gerð grein fyrir verkefnum sem kirkjuráð hefur unnið að á starfsárinu:
Aukakirkjuþing 2010
Aukakirkjuþing var haldið laugardaginn 7. ágúst 2010. Boðað var til þess til að fjalla
um boðaðan niðurskurð ríkisins á fjárlagalið þjóðkirkjunnar. Kirkjuráð lagði fyrir
þingið tvær þingsályktunartillögur; tillögu til þingsályktunar um viðbrögð kirkjuþings
við niðurskurðarkröfu ríkisins fyrir árið 2011 og tillögu til þingsályktunar um að fela
kirkjuráði að bregðast við niðurskurðarkröfu ríkisins á fjárlagalið biskups Íslands
2011.
Aukakirkjuþing 2010 samþykkti eftirfarandi þingsályktunartillögur:
1. Þingsályktun um viðbrögð kirkjuþings við niðurskurðarkröfu ríkisins fyrir árið
2011
Aukakirkjuþing 2010 ályktar að fela kirkjuráði ásamt þriggja manna nefnd sem kjörin
er af kirkjuþingi að ganga til samninga við ríkisvaldið um niðurskurðarkröfu ríkisins
fyrir árið 2011 með eftirfarandi samningsmarkmið:
Þjóðkirkjan er sjálfstæður lögaðili og grundvelli fjárhagslegra samskipta ríkis og
kirkju verður ekki raskað nema með gagnkvæmum samningum sem bæði kirkjuþing
og alþingi samþykkja. Samningsbundið og lögfest endurgjald ríkisins til þjóð-
kirkjunnar samkvæmt samkomulagi um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfs-
manna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 og samningi um rekstrarkostnað vegna
prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og
sérframlög til þjóðkirkjunnar, dags. 4. september 1998, skerðist ekki meira en um 5%
árið 2011 miðað við greiðslur úr ríkissjóði árið 2010.