Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 151
151
II. Barnastarf 0-12 ára barna og foreldrafræðsla
Tilgangur námskrárinnar er:
• að marka stefnu – setja fram markmið og velja inntak með barnastarfi kirkjunnar
og um leið að skapa rými fyrir einstaka söfnuði að velja leiðir að settu marki
með hliðsjón af ólíkum aðstæðum,
• að vera hjálp og leiðbeining fyrir þá sem semja fræðsluefni fyrir barnastarfið,
• að hjálpa barnafræðurum að velja leiðir í starfinu, að ná settum markmiðum,
með hliðsjón af þörfum safnaðanna, þroska og bakgrunni barnanna,
• að vera umræðugrundvöllur fyrir starfsmenn kirkjunnar, leikmenn og foreldra,
um uppbyggingu og þróun barnastarfsins.
1. Barnastarf
Söfnuðurinn ber ábyrgð á því að þau börn sem skírð eru fái fræðslu við sitt hæfi.
Hann þarf einnig að hjálpa kristnum foreldrum að rækja uppeldishlutverkið á
heimilunum. Fræðsla í kristindómi er einn þáttur í uppeldi barna sem skírð eru. Öll
börn eru velkomin til þátttöku í barnastarfinu, bæði skírð og óskírð.
Markmið
Skírnarfræðslan stefnir að ákveðnu marki. Meginmarkmið fræðslunnar er:
að barnið læri að leita til Guðs og upplifi samfélag við hann eins og til var stofnað
þegar það var skírt.
Þetta felur í sér að:
• barnið læri að þekkja Guð sem föður/móður, son og heilagan anda,
• barnið fái hjálp til að lifa í trú, tilbeiðslu og þjónustu,
• barnið fái tilfinningu fyrir því að það sé guðsbarn og tilheyri kirkjunni, söfnuði
Guðs.
Til að skapa heildarskilning í trúar- og siðferðilegu uppeldi þarf að höfða til
þekkingar, færni og viðhorfa barnsins. Það er samhengi milli þekkingar, viðhorfa og
athafna barnsins.
Markmið starfsins skulu ná til eftirfarandi þátta:
• Til móts við Guð.
Leiða þarf barnið til móts við Guð í bæn og tilbeiðslu, og sjá einnig til þess að það
kynnist frásögum Biblíunnar af Guði og því hvernig hann mætir fólki í
hversdagslegu lífi þess.
• Að tilheyra Kristi.
Við trúum því að í skírninni hafi barnið verið falið Kristi. Tilgangurinn með
skírnarfræðslunni er að varðveita barnið í trúnni á hann og hjálpa því til að vaxa
og þroskast sem lærisveinn í fylgdinni við hann.
• Að lifa í trú.
Ekki er nægilegt að hafa einvörðungu þekkingu heldur þarf þessi þekking að
tengjast daglegu lífi barnsins. Hægt er að leiðbeina börnum á margan hátt. Uppeldi
og mótun byggjast á samskiptum barna og fullorðinna. Breytni og athafnir hinna
fullorðnu hafa oft meira að segja en vel valin orð. Hugmyndir barnsins um Guð
mótast mikið af fyrirmyndum hinna fullorðnu. Viðhorf og breytni fræðara og
annars starfsfólks hafa ekki síður áhrif en þau orð sem sögð eru. Benda skal
börnunum á Jesú sem fyrirmynd í samskiptum við aðra.