Morgunblaðið - 02.06.2016, Blaðsíða 30
30 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. JÚNÍ 2016
Þórunn Kristjánsdóttir
thorunn@mbl.is
Sjálfsvíg, örvænting og rökvísi fjar-
stæðunnar. Sjálfsvíg í ljósi heimspeki
Kierkegaards um sjálfið og örvænt-
ingu nefnist meistararitgerð Kristi-
ans Guttesen í heimspeki við Háskóla
Íslands sem hann skilaði nýverið.
Markmið ritgerðarinnar er að
greina ástandið sem er fyrir hendi
þegar ákvörðun er tekin um sjálfsvíg
í ljósi tilvistarspeki. Hugarástand
manneskjunnar á því augnabliki þeg-
ar hún sökum þunglyndis tekur
ákvörðun um sjálfsvíg er skoðað út
frá örvæntingarkenningu danska
heimspekingsins Kierkegaards. Til
að greina þetta ástand í fyrirbæra-
fræðilegu ljósi voru notuð tvö bók-
menntaverk, annars vegar 4.48 Geð-
truflun eftir írska leikskáldið Söruh
Kane og Útlendingurinn eftir nób-
elsverðlaunahöfundinn Albert
Camus.
Velt efninu lengi fyrir sér
„Nokkru áður en ég byrjaði í
meistaranámi í heimspeki framdi ná-
inn félagi minn sjálfsvíg. Þegar ég var
kominn vel áleiðis í náminu og var
beðinn um að huga að rannsóknarefni
áttaði ég mig á því að frá því að hann
fyrirfór sér hafði ég ómeðvitað velt
þessu fyrirbæri fyrir mér stanslaust,“
segir Kristian spurður hvers vegna
þetta efni hafi orðið fyrir valinu.
Hann bendir á að þegar einhver ná-
kominn styttir sér aldur fari ákveðið
ferli af stað og óhjákvæmilega reyni
fólk oft að leita að einhverri merkingu
í þessum óskiljanlega atburði.
Kristian mátaði ýmsar heimspeki-
kenningar við efnið. „Ég datt niður á
tilvistarstefnuna, en þar er unnið með
tilgang og tilgangsleysi. Ég sá að hún
gæti gefið manni innsýn í fyrstu per-
sónu sjónarhorn. Sá sem tekur
ákvörðun um sjálfsvíg er kannski að
leita að tilgangi. Hann nær einhvern
veginn að slíta sig frá einhverju
óbærilegu ástandi með þessari
gjörð,“ segir Kristian.
Til þess að ná almennilega utan um
efnið gerði hann fyrirbærifræðilega
greiningu á augnablikinu þegar ein-
staklingur sem þjáist af þunglyndi
tekur ákvörðun um sjálfsvíg – hvaða
hugarástand hann eða hún er í þá og
þegar.
„Ég kalla þetta tilvistarfyrirbæra-
fræðilega greiningu. Þetta hugtak í
heimspekinni gengur, eins og áður
segir, út á að lýsa reynslu af fyrir-
bærum í heiminum út frá fyrstu per-
sónu sjónarhorni en reynslan birtist í
vitundinni. Gallinn er samt sá að það
er ekki hægt að gera það út frá þess-
ari ákvörðun, því að ef ákvörðunin
gengur eftir er reynslan ekki til stað-
ar, eins og gefur að skilja. Í raun og
veru er sjálfsvíg ekkert svar og
ákvörðunin er handan við siðferðilega
umræðu. Handan við venjulega
heimspekilega umræðu,“ segir
Kristian.
Bókmenntir lýsandi
fyrir hugarástand
Þegar þarna er komið við sögu til
að dýpka skilninginn þurfti að nota
bókmenntatexta til að greina ástand-
ið. Verkið 4.48 Geðtruflun eftir Söruh
Kane fjallar nákvæmlega um ákvörð-
unina um sjálfsvíg, en það var sett ný-
lega á fjalir Þjóðleikhússins. Verkið
er túlkað sem sjálfsmorðsbréf höf-
undar, en hún framdi sjálfsvíg áður
en það var sett á fjalirnar. Leikverkið
er í raun og veru lýsing á örvænting-
arástandi. Hitt verkið, Útlending-
urinn eftir Camus, fjallar ekki á neinn
hátt um sjálfsvíg heldur notar Kristi-
an þann texta til að lýsa tilteknu hug-
arástandinu, hvernig einstaklingur
fyllist af vonleysi. Hann bendir á að
þegar vonleysið er algjört, eins og í
Útlendingnum, fæst betri skilningur
á söguröddinni í 4.48 Geðtruflun, sér-
staklega þegar hún er komin á þann
stað að hana langar ekki að lifa en
hana langar heldur ekki að deyja.
„Þegar maður skoðar þetta út frá
þessu fyrirbærafræðilega sjónar-
horni skilur maður einstaklinginn,
sem er fangi þessa vonleysis, betur.
Eins og þetta gerist í Útlendingnum
er hann í lok skáldsögunnar í þeim
aðstæðum að hann getur ekki sótt
styrk úr minningunum í fortíðinni og
getur ekki búið til von inn í framtíð-
ina, út frá stöðu sinni. Hann er tekinn
til fanga vegna morðs af gáleysi.
Hann býr hvorki yfir eftirsjá né þess-
um sammannlega þætti um viljann til
að uppfylla eigin þarfir og blómstra.
Hann stendur utan við sjálfan sig og
upplifir sig eins og útlending í eigin
lífi. Þannig er hann uppfullur af von-
leysi. Þegar hann bíður eftir aftöku
langar hann að böðullinn komi inn og
sæki sig. Í ritgerðinni segi ég að þetta
hugarástand upplifi sjálfsvegandinn á
þessu augnabliki. Þarna gæti ég sagt
að þessi ákvörðun persónunnar væri
rökvís. Hann er fastur í fjarstæðu
eigin tilveru og þá verður svona
ákvörðun útgönguleið. Hún er hvorki
góð né slæm í siðferðilegum skilningi.
Á þessari ögurstundu þegar þessi
ákvörðun liggur fyrir, í krafti þessa
vonleysis, getur manneskja sem þjá-
ist af þunglyndi séð að þetta er rök-
rétt í nokkurs konar tilvistarlegum
skilning,“ segir Kristian, sem tekur
þó skýrt fram að sjálfsvíg sé engin
lausn.
Mikilvæg reynsla
„Mér fannst þetta dýpka skilning
minn á þessu fyrirbæri og vandamáli
sem slík ákvörðun snýr að út frá ein-
staklingi sem glímir við þunglyndi.
Ég hef sjálfur tekist á við þunglyndi
og sjálfsvígshugsanir. Og við þessi
ritgerðarskrif hef ég fengið dýpri
skilning og annað sjónarhorn á fyrir-
bærið en ég myndi ekki segja að það
hafi fyrirbyggt eitthvað hjá mér að
fjalla um efnið. Engu að síður lít ég á
þetta sem mikilvæga reynslu. Ef
maður er þunglyndur er maður þung-
lyndur og þarf fyrst og fremst að
horfast í augu við hvað maður er að
fást við. Þegar svona svartnætti
hellist yfir mann kemst ekkert annað
að,“ segir Kristian um eigin reynslu.
Sambandsslit og
sjálfsvíghugsanir
Englablóð, væntanleg ljóðabók
Kristians, fjallar um þunglyndi og
sjálfsvígshugsanir, sama þema og rit-
gerðin. Hann safnar fyrir útgáfu á
henni og einnig annarri ljóðabók,
Hendur morðingjans, á Karolina
fund. Englablóð inniheldur ljóð og
prósa, bæði stutta og langa, og er
nokkuð persónuleg að eigin sögn.
Hin, Hendur morðingjans, er stakur
ljóðabálkur en þema hennar fjallar
um samband, sambandsslit.
Söfnunarsíðuna er að finna á eftir-
farandi slóð: www.karolinafund.-
com/project/view/1386
Sjálfsvíg í heimspekilegu ljósi
Kristian Guttesen greindi ástandið sem er fyrir hendi þegar ákvörðun er tekin um sjálfsvíg í meist-
araritgerð í heimspeki Mikilvæg reynsla og öðlaðist dýpri skilning á eigin ástandi, segir hann
Morgunblaðið/Golli
Svartnætti „Þegar svona
svartnætti hellist yfir mann
kemst ekkert annað að,“
segir Kristian Guttesen um
reynslu sína af þunglyndi.