Orð og tunga - 01.06.2007, Page 63
Eiríkur Rögnvaldsson: Textasöfn og setningagerð: greining og leit 53
dómum málnotenda. Áhrif Chomskys voru mjög mikil og næstu ára-
tugina þótti fæstum setningafræðingum ástæða til að leggjast í dæma-
söfnun úr textum til að rökstyðja kenningar sínar, heldur bjuggu sjálfir
til dæmi sín og dæmdu þau tæk eða ótæk. Þessi aðferð þykir vissulega
enn góð og gild, en á seinni árum hafa menn aftur horfið til dæma-
söfnunar úr textum og láta aðferðirnar vinna saman og bæta hvora
aðra upp. í þessum kafla er drepið á nokkrar forsendur þess ágrein-
ings sem hefur verið um gildi textadæma og rætt sérstaklega um það
hvernig mismunandi fræðilegar forsendur geta leitt til mismunandi
túlkunar þess vitnisburðar sem textarnir gefa.
2.1 Heimild um málhæfni eða málbeitingu?
Ein meginröksemd Chomskys fyrir því að textasöfn væru gagnslaus í
setningafræðilegri greiningu og röksemdafærslu var sú að þau væru
ævinlega og óhjákvæmilega takmörkuð, endanleg, og tilviljanakennd
(sjá t.d. Chomsky 1957:13-17). Auðvelt er t.d. að tilfæra ýmis dæmi
um setningar og setningagerðir sem sjaldan eða aldrei finnast í texta-
söfnum, jafnvel mjög stórum, en málhöfum ber þó saman um að séu
tækar. Þetta hefur oft verið notað sem rök fyrir því að málhæfnin sé
að verulegu leyti meðfædd; menn geti ekki hafa lært slíkar setningar
af öðrum, heldur hljóti að hafa einhverja meðfædda þekkingu á þeim
reglum sem um þær gilda.
Skiptar skoðanir um þessi mál leiddu til hálfgerðs stríðs milli mál-
kunnáttufræðinga (generatífista) og þeirra sem fengust við gagnamál-
fræði (corpus linguistics). Chomsky talaði víða óvirðulega um gagna-
málfræði, og í ritum gagnamálfræðinga er að finna mörg og beitt skot
á Chomsky og fylgismenn hans (sjá um þetta t.d. McEnery og Wilson
1996:4-17,61-66 o.v.). Hér er þó rétt að halda því til haga að þarna er að
verulegu leyti um sýndarágreining að ræða - meðvitað eða ómeðvit-
að. Menn voru nefnilega ekki að tala um sama hlutinn. Chomsky var
að tala um málhæfni (competence) en gagnamálfræðingar skoða mál-
beitingu (performance) (sjá t.d. Chomsky 1965:4). Chomsky var sem
sé að tala um málfræðina, málkerfið, en gagnamálfræðingar skoða af-
urð kerfisins - málið sjálft. Þarna á milli er flókin víxlverkun sem ekki
hefur verið kortlögð til fulls, en meginatriðið er að báðar aðferðirnar
eiga fullan rétt á sér og eru nauðsynlegar - en þær svara mismunandi
spurningum.