Náttúrufræðingurinn - 2015, Page 50
Náttúrufræðingurinn
142
Austur-Grænlandi18 og Svalbarða.19
Ekki er vitað hversu hátt hlutfall
fugla af erlendum uppruna er í
íslenska vetrarstofninum. Sé tekið
mið af upplýsingum um aðra
æðarstofna20 má skjóta á að íslenski
æðarstofninn sé á milli 8% og 17% af
heimsstofninum.21
Æðarfugl er staðfugl við Íslands-
strendur en þó er dreifing varpfugla
af mismunandi land svæðum á
vetrarstöðvum umhverfis landið lítt
þekkt. Að vetri til virðist æðarfugl
nokkuð jafndreifður (100–150 fuglar
á km2) vestan, norðan og austan
við land en minna (40 fuglar á
km2) við suðurströndina.17 Á Íslandi
verpur æðarfugl í misjafnlega
þéttum vörpum, bæði í eyjum og
á meginlandinu, flestir á landinu
vestanverðu.11,22 Æðarkollur snúa
gjarnan aftur til uppeldisstöðva
sinna og dæmi eru um að 98% þeirra
snúi heim ár hvert.23,24,25,26 Eggin
eru oftast 3–5 í hreiðri hérlendis og
víðast hvar annars staðar.11,27,28,29
Undirbúningur þessa verkefnis
hófst árið 2006 og hefur vinnan
einkum beinst að tengslum æðar-
stofnsins við veðurfar og loftslags-
breytingar.5,29 Að undanskildum
einstaklega hörðum árum (s.s.
frostavetrinum mikla 1918) virð-
ist veðurfar á 20. öld hafa haft lítil
áhrif á fjölda æðarhreiðra. Þó virðast
sumarveður hafa haft misjöfn áhrif
á nýliðun varpkollna þremur árum
seinna. Í ljós komu jákvæð áhrif af
þurrum sumrum fyrir eitt varp en
neikvæð áhrif af hlýjum sumrum í
tveimur æðarvörpum.5 Vetrarveður
sýnir þó marktæka fylgni við komu-
tíma æðarkollna í vörpin og fjölda
eggja í hreiðri. Kollur koma seinna í
varp eftir stormasöm vetrarveður.29
Gögnum var safnað í góðri
samvinnu við æðarbændur
frá upphafi. Verkefnið hófst við
Breiðafjörð en árið 2012 höfðu safnast
gögn úr 40 vörpum víðs vegar af
landinu. Þrjú þessara æðarvarpa eru
ekki nýtt til dúntekju og hafa þar
talið fuglafræðingar frá Reykjavík
og Eyjafirði.30,31 Þessum einstæðu
upplýsingum var safnað saman til
að rannsaka þróun æðarvarpa um
allt land yfir langan tíma. Hér verða
skoðaðar breytingar á fjölda hreiðra
á 20. öld og fyrsta áratug 21. aldar.
Ekki verður fjallað ýtarlega um
smærri, staðbundnar breytingar né
heldur gerð tilraun til að meta
stofnstærð fyrir Ísland upp á nýtt.
Fjöldi hreiðra er notaður sem vísitala
til að meta þróun stofnstærðar fyrir
æðarfugl á Íslandi 1900–2007.
Aðferðir
Gagnasöfnun
Einingin æðarvarp var skil greind
eftir eignarhaldi og/eða umráðarétti,
sem oftar en ekki er byggt á
landfræðilegum aðstæðum, s.s.
aðliggjandi eyjum eða eyjaklösum,
eða þá að varp er greinilega aðskilið
landfræðilega frá nágrannavarpi.
Umráðaréttur felur í sér að sömu
aðferðum er beitt við nýtingu
varpsins, verndun þess og umgengni
um það. Þessar aðferðir geta verið
mismunandi hjá æðarbændum eða
milli tímabila. Æðarvarp nær aðeins
að vera með í þessari rannsókn ef
menn hafa: 1) talið hreiðrin á annað
borð, en það gera ekki allir, og 2)
síðan samþykkt að gögnin nýttust
til rannsókna. Dreifing varpanna
í þessari rannsókn gefur því ekki
endilega rétta mynd af dreifingu
æðarvarpa á landsvísu, t.d. voru
hlutfallslega flestar talningarnar frá
Breiðafirði (1. mynd).
1. mynd. Staðsetning þeirra 40 æðarvarpa sem rannsóknin byggist á. Hvert varp er merkt með
númeri, sbr. 1. töflu. Breiðafjörður (kassi á efri mynd) er sýndur á stækkuðu korti. – Locations
of 40 common eider colonies included in this study. Each colony is labeled by a number which
corresponds to the numbers given in Table 1. Breiðafjörður (box in upper panel) is shown
enlarged on the lower panel.
NFr_3-4 2015_final.indd 142 30.11.2015 16:34