Morgunblaðið - 12.09.2016, Blaðsíða 10
10 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 12. SEPTEMBER 2016
Smiðjuvegi 66 • Kópavogi • 580 5800 • www.landvelar.isFuruvöllum 3 • Akureyri • 461 2288
Alhliða þjónusta fyrir vökvadælur
og vökvamótora
Sala - varahlutir - viðgerðir
SVIÐSLJÓS
Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
„Mér skilst að hver sem er geti flutt
inn hvaða húðfyllingarefni sem er, sé
það án deyfilyfs, og sprautað í fólk
án þess að hafa nokkra þekkingu á
einu eða öðru tengdu þeim.“ Þetta
segir dr. Bolli Bjarnason, húð- og
kynsjúkdómalæknir hjá Útlitslækn-
ingu, en lýta- og húðlæknar hafa um
nokkurt skeið farið fram á það við
Embætti landlæknis að settar verði
skýrari reglur um hver megi veita
meðferð með fylliefnum sem m.a. er
sprautað í andlit fólks til að draga úr
hrukkum og línum.
Fjölmargir húð- og lýtalæknar
bjóða upp á meðferð með fylliefnum,
einnig er meðferðin í boði hjá nokkr-
um tannlæknum, snyrtistofur bjóða
upp á þessa meðferð og viðmæl-
endur Morgunblaðsins segjast
þekkja dæmi um að verið sé að veita
hana í heimahúsum. Tölur um fjölda
þeirra sem fara í meðferðir sem
þessa liggja ekki fyrir, en efnin sem
eru notuð eru ekki skilgreind sem
lyf heldur snyrtivörur og þau er m.a.
hægt að panta í netverslunum.
Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri
hjá Embætti landlæknis, segir eng-
ar reglur í gildi um hver megi veita
hvaða meðferð á þessu sviði. Hún
segir að ekkert eftirlit sé af hálfu
embættisins með þeim aðilum utan
læknastéttarinnar sem bjóði upp á
hana.
Ábyrgðin yfir á almenning
Bolli segir að með því að hafa ekk-
ert eftirlit sé verið að velta ábyrgð-
inni yfir á almenning. „Fólk þarf
þannig að fara varlega og tryggja að
það sé í reynd að fá meðferð frá
öruggum meðferðaraðila. Ég furða
mig stundum á því að fólk skuli, eftir
auglýsingu, hafna bara einhvers
staðar utan læknastofa til með-
ferðar. Það væntir þess eflaust að
þetta sé allt undir góðu eftirliti.“
Að sögn Bolla sendu félög húð- og
lýtalækna á Íslandi Embætti land-
læknis greinargerð fyrir nokkrum
árum þar sem vakin var athygli á
notkun húðfyllingarefna hjá hjúkr-
unarfræðingi. Hann segir að það
hafi engin áhrif haft og sífellt fleiri
aðilar án læknismenntunar bjóði
upp á þessar meðferðir.
Spurð hvort embættið taki undir
málflutning húð- og lýtalækna segir
Anna Björg að það sé sammála því
að vel menntað og vel þjálfað fólk
eigi að veita slíkar meðferðir. „En
það eru í raun engar reglur um hver
má gera hvað á þessu sviði.“ Hún
segir að embættinu hafi borist
nokkrar tilkynningar um aukaverk-
anir vegna fegrunarmeðferða sem
gerðar hafa verið af einstaklingum
án læknismenntunar. „En það eru
afar fá tilvik,“ segir hún.
En er nauðsynlegt að hafa læknis-
menntun til að veita meðferð sem
þessa? „Þetta snýst um öryggi
fólks,“ segir Bolli og vísar þar m.a. í
Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkj-
anna, FDA, sem álítur að líta beri á
meðferðir með húðfyllingarefnum
sem læknisfræðilegt inngrip. Hann
segir að FDA mæli með að með-
ferðir með húðfyllingarefnum séu
framkvæmdar af húðlæknum eða
lýtalæknum sem hafi hlotið þjálfun í
notkun þeirra. „Það þarf að taka af-
stöðu til margs, t.d. hvort
húðfyllingarefni komi til greina og
sé betra val en laser-meðferð, hvort
læknisfræðilegar ástæður aftri með-
ferð og hvaða efni komi til greina að
nota. Það þarf að fræða viðkomandi
um kosti og galla mismunandi með-
ferða, velja viðeigandi aðferðafræði
fyrir inngripið sem byggir m.a. á
þekkingu um líffærafræði
meðferðarsvæðisins og möguleg frá-
vik, t.d. legu æða í andlitinu svo að
fyllingarefnið hafni ekki í þeim.“
Bolli segir að aukaverkanir séu
mjög sjaldgæfar í „réttum höndum“
en sá sem meðferðina veiti þurfi að
hafa þekkingu til að geta tekið
læknisfræðilega á bæði mögulegum
bráðaaukaverkunum og seinni auka-
verkunum.
Telst ekki vera lyf
Samkvæmt upplýsingum frá
Lyfjastofnun eru engar takmarkanir
á innflutningi á húðfyllingarefnum.
„Skilgreining á lyfi er að það feli í
sér lækningu en það á ekki við um
þessi efni. Því myndi þetta sennilega
flokkast undir snyrtivörur,“ segir
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, for-
stjóri Lyfjastofnunar. Undantekn-
ing væri þó ef deyfilyfi væri blandað
saman við húðfyllingarefnið.
Guðrún Þorláksdóttir hjúkrunar-
fræðingur er vottaður Restylane-
-meðferðaraðili, en Restylane er eitt
þeirra efna sem notuð eru til húðfyll-
ingar hér á landi. Til þess að hljóta
réttindin stundaði hún nám hjá
fyrirtækinu sem framleiðir efnið.
Hún hefur starfað við þetta í þrjú ár
á vegum fyrirtækisins IceDerma og
áður en hún byrjaði á því leitaði hún
upplýsinga hjá Embætti landlæknis
um hvort henni væri heimilt að veita
þessar meðferðir hér á landi. „Ég
fékk þau svör að engin ákvæði væru
um þetta í lögum,“ segir Guðrún.
Hún segist algerlega sammála
þeirri gagnrýni sem hún hefur heyrt
frá húð- og lýtalæknum sem beinist
að réttindalausu fólki án heilbrigðis-
menntunar sem veiti þessar með-
ferðir. „Ég hef líka heyrt að ein-
hverjir séu ósáttir við að hjúkrunar-
fræðingur sé að veita þessa meðferð
en ég sé ekki ástæðuna fyrir því.“
Hefur heyrt ýmsar sögur
Guðrún segir að í Noregi, Dan-
mörku og Svíþjóð séu hjúkrunar-
fræðingar oft sjálfstætt starfandi
Restylane-meðferðaraðilar og oft
starfi þeir líka á stofum hjá lýta- og
húðlæknum. „Læknarnir eru þá inn-
an handar ef upp koma einhverjar
aukaverkanir. Ég er með lækni á
mínum vegum sem ég get vísað á ef
svo ber við,“ segir hún.
Guðrún segist hafa heyrt ýmsar
sögur af því að verið sé að veita með-
ferðirnar án þess að tilskilin kunn-
átta sé fyrir hendi, einnig að verið sé
að sprauta fylliefnum í andlit fólks
„heima í stofu“. „Til dæmis hefur
komið til mín fólk sem er ósátt eftir
meðferð sem það hefur fengið ann-
ars staðar. Ég treysti mér ekki til að
laga það, því ég veit ekki hvaða efn-
um er verið að sprauta í fólk. Reynd-
ar finnst mér stundum alveg ótrú-
legt hvað fólk þorir að láta aðra gera
við sig og ég ráðlegg öllum sem eru
að hugsa um að fara í svona með-
ferðir að biðja þann sem veitir með-
ferðina um að sýna einhverja stað-
festingu á að hann sé með réttindi til
að gera þetta.“
Þarf að laga mistök annarra
Bolli hefur svipaða sögu að segja:
„Ég fæ til mín talsvert af ein-
staklingum þar sem gera þarf breyt-
ingar á húðfyllingarefni sem komið
hefur verið fyrir í húð viðkomandi af
einstaklingi án læknismenntunar.
Fólk virðist yfirleitt skammast sín
fyrir það sem gerst hefur og hefur
ekki bein í nefinu til að snúa aftur til
þess sem veitti meðferðina til að
sýna honum ástandið. Í sumum til-
fellum þarf að beita sérstökum
ensímum til að leysa upp efni sem
hefur verið komið fyrir á röngum
stöðum eða í of miklu magni en yfir-
leitt felst meðferðin í að reyna að
bjarga andlitinu með því að leiðrétta
skekkjur með því að bæta við húð-
fyllingarefnum. Þetta gengur mis-
munandi vel.“
Bolli segir að fólk geti eflaust lært
tiltekin handtök, t.d. af mynd-
skeiðum á netinu, hvernig koma eigi
húðfyllingarefnum fyrir. „En það er
slæmt þegar þekkingin takmarkast
við það eingöngu.“
Ekkert eftirlit með fylliefnum
Húð- og lýtalæknar vilja reglur um hverjir megi sprauta fylliefnum í fólk Boðið upp á meðferðir
„heima í stofu“ Ótrúlegt hvað fólk þorir að láta aðra gera við sig, segir hjúkrunarfræðingur
„Húðfyllingarefni er efni sem komið er fyrir í húð manna til að auka fyr-
irferð húðarinnar þar sem vefur er rýr,“ útskýrir Bolli. „Algengustu með-
ferðirnar eru við fellingum, hrukkum, slakleika, örum og flötum vörum í
andliti, fellingum á hálsi eða yfir bringubeini og rýrri húð á hand-
arbökum. Sífellt yngra fólk kemur í meðferð en það vill aftra því að
hrukkur og djúpar fellingar myndist sem haldast svo fyrir lífstíð.“
Bolli segir að konur séu í talsverðum meirihluta þeirra sem fara í þess-
ar meðferðir, en karlmönnum hafi þó fjölgað mjög. „Í reynd eru lítil tak-
mörk fyrir því hvar hægt er að koma slíku efni fyrir, sé það rétt valið og
framkvæmt,“ segir Bolli.
Hann segist nokkuð verða var við að fólk telji Botox vera húðfylling-
arefni. Svo sé ekki, því virkni þess byggist á að lama vöðva. „Botox á það
eitt sameiginlegt með fylliefnunum að vinna gegn hrukkum og fell-
ingum,“ segir Bolli.
Sífellt yngra fólk fær húðfyll-
ingarefni og konur í meirihluta
FYLLIEFNI ER EKKI ÞAÐ SAMA OG BOTOX
Hægt er að kaupa fylliefni,
sem notuð eru til að sprauta í
andlit fólks, á ýmsum vefsíð-
um. Á sumum þeirra er tekið
fram að varast ætti að láta
aðra en heilbrigðismenntað
fólk sprauta slíkum efnum í
andlit sitt, en engar kvaðir
virðast vera á því hver getur
keypt efnin.
Ein þessara vefsíðna er kín-
verska síðan AliExpress. Ásamt
innihaldslýsingu á vörunni og
því hvaða áhrif hún hefur er
nokkurs konar kort á síðunni
þar sem sýnt er hvar í andlitið
eigi að sprauta efninu inn og í
hversu miklu magni.
Fylliefni fæst
á AliExpress
ENGAR KVAÐIR Á KAUPUM
Bolli
Bjarnason
Rúna H.
Hvannberg
Anna Björg
Aradóttir
Guðrún
Þorláksdóttir
Getty Images/iStockphoto
Húðfyllingarefni Lýta- og húðlæknar hafa um nokkurt skeið farið fram á það
við Embætti landlæknis að skýrari reglur verði settar um notkun þeirra.