Morgunblaðið - 05.11.2016, Blaðsíða 28
Þegar menn vanda um við aðra og brýna fyrirþeim að gæta orða sinna kemur púkinn á fjós-bitanum iðulega við sögu. Samkvæmt því erfullyrt að illyrði og heiftarleg orðræða þjóni
einkum þeim tilgangi að gagnast þeim í neðra sem
elur og nærir púkana og annað illþýði sem ein-
ungis Sæmundur fróði hafði vald yfir, eins og
skemmtilegar þjóðsögur segja frá. Gallinn er bara sá
að fyrrgreindur púki var ekki á neinum fjósbita heldur á
kirkjubita þar sem tvær kerlingar jusu ókvæðisorðum
hvor yfir aðra. Presturinn í þeirri sögu var ekki Sæmundur
fróði heldur annar ónefndur sem hafði ekkert vald yfir púkum.
Hvergi hef ég séð skilgreiningu á fyrirbærinu púki sem kemur oft fyrir í þjóð-
sögum en það virðist snöggtum meinlausara en draugar og vofur og annars kon-
ar söfnuður sem tengist myrkrahöfðingjanum beint eða óbeint. Það er jafnvel
eitthvað hlýlegt við þetta orð, a.m.k. hafa vestfirskir drengir löngum verið kall-
aðir púkar. Einhverra hluta vegna er stundum haft á orði að klæðaburður fólks
sé púkalegur. Varla hefur það
nokkra skírskotun niður í
ystu myrkur. Og þá er prent-
villupúkinn oftast sakleys-
islegur þótt hvimleiður sé.
Þótt púkinn á kirkjubit-
anum hafi verið óskyldur Sæ-
mundi samkvæmt sögunum
um hann er minningin um Sæmund órofa tengd púkum sem hann kallaði fram
og lét vinna fyrir sig hvers kyns skítverk þegar mikið lá við. Þessa list notaði
hann líka til að bæta sálarheill hjúa sinna. Og vissulega var púki í fjósinu hjá hon-
um þótt hann ætti þar ekki náðuga daga uppi í rjáfri. Þennan púka hafði Sæ-
mundur sent fjósamanni sínum sem honum þótti of orðljótur. Fylgdi það sögunni
að púkinn hlypi í spik ef fjósamaður tvinnaði úr sér blótsyrðum en skryppi sam-
an ef hann gætti tungu sinnar. Þótt gesturinn gerði hvers kyns usla hafði fjósa-
maður taumhald á tungu sinni þannig að púkinn hríðhoraðist af kröm og vesöld.
En í eitt sinn missti fjósamaður stjórn á sér svo að púkinn tútnaði út og varð til
alls líklegur. Sá fjósamaður nú að Sæmundur hafði haft lög að mæla. Enda er sá
löngu úr sögunni, sem átti að lifa á ljótum munnsöfnuði hans.
Púkinn á kirkjubitanum, hafði mikinn áhuga á ljótum munnsöfnuði eins og fé-
lagi hans. Á meðan prestur var að messa sat sá armi á bitanum og skrifaði niður
illyrði sem tvær kerlingar hlóðu hvor á aðra undir ræðunni. Sjónvarvottur fylgd-
ist náið með atferli púkans sem hafði skóbót í annarri krumlunni en hrosslegg í
hinni. Í sögunni segir orðrétt um atferli púkans: „Hann lagði kollhúfur úr hverju
fúkyrðinu er úr kerlingunum fór og ritaði jafnóðum með hrossleggnum á skó-
bótina allt sem þær sögðu.“ Atgangurinn var svo mikill að púkinn missti jafn-
vægið en gat bjargað sér með því krækja kló í kirkjubitann. Að öðrum kosti hefði
hann hrunið niður á kirkjugólfið í miðri messugjörð. Ekki fór sögum af því hvort
munnsöfnuðurinn komst til skila niður í ystu myrkur.
Sæmundur, kölski og fylgifé þeirra eru löngu komnir úr umferð en sögurnar
um þá eru ekki aðeins broslegar heldur má líka draga af þeim lærdóm. Hvers
kyns heiftarorð og hatursfull orðræða eru nefnilega engum til hagsbóta en geta
komið mönnum í koll og eru til marks um að þeir hafi ekki stjórn á skapsmunum
sínum eins og fjósamaðurinn hans Sæmundar, kerlingarnar í kirkjunni og orð-
hákurinn. Donald Trump. Og lýsingarorðið púkalegur gæti sem best passað við
Trump ef það væri ekki eins meinlaust og raun ber vitni.
Af púkum
og orðhákum
Tungutak
Guðrún Egilson
gudrun@verslo.is
28 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 5. NÓVEMBER 2016
Síðustu vikurnar fyrir þingkosningarnar á laug-ardag fyrir viku mátti finna aukinn áhuga meðalýmissa Sjálfstæðismanna á samstarfi viðVinstri græna í ríkisstjórn á nýju kjörtímabili.
Rök þeirra voru þá að í ljósi skoðanakannana væri slíkt
samstarf líklegast til að tryggja traust og stöðugt stjórn-
arfar. Í þeim umræðum sem fram fóru manna á meðal
lýsti ég þeirri skoðun að slíkar hugmyndir væru óraun-
hæfar vegna þess að í baklandi VG væri svo sterk andúð
á Sjálfstæðisflokknum að ólíklegt væri að forystusveit
flokksins treysti sér í slíkt ævintýri.
Eftir kosningar hefur þrýstingur á slíkt samstarf auk-
ist en að þessu sinni er hann ekki bara að finna innan
Sjálfstæðisflokksins heldur líka á vinstrikantinum. Rök
manna þeim megin eru efnislega þau sömu, að slíkt sam-
starf væri bezti kostur fyrir þjóðina.
VG varð til úr þeim hluta Alþýðubandalagsins, sem
var ekki reiðubúinn til að ganga til samstarfs við Alþýðu-
flokk, Kvennalista og Þjóðvaka innan Samfylkingar og
áhugafólki um umhverfismál á vinstrivæng. Á tímum
kalda stríðsins var samstarf í ríkisstjórn á milli Sjálf-
stæðisflokks og Alþýðubandalags talið
óhugsandi og það var í raun staðfest í
desember 1979 þegar kannað var hvort
hægt væri að koma slíku samstarfi á. Þá
var vilji til þess í forystusveit Sjálfstæð-
isflokksins en innan Alþýðubandalags-
ins var hann ekki til staðar.
Hver er málefnastaðan nú?
Hin opinbera stefna Sjálfstæðisflokks og VG varðandi
aðild Íslands að Evrópusambandinu er sú sama. Báðir
flokkar eru andvígir aðild. Hins vegar hefur mátt skilja á
talsmönnum VG undanfarna mánuði og misseri að þeir
tækju undir með Samfylkingu og öðrum aðildarsinnum
að efna ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu um þá spurningu,
hvort halda ætti áfram viðræðum við ESB. Á því varð
hins vegar breyting á föstudagskvöld fyrir viku í síðustu
umræðum leiðtoga stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar.
Þá tók Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, skýrt fram að
hennar fyrsti kostur væri þjóðaratkvæðagreiðsla um
hvort sækja ætti um aðild eins og hún orðaði það sem er
efnislega sama spurning og sú hvort Íslendingar vilji
vera innan eða utan ESB en hún taldi jafnframt að það
gæti komið til greina að spyrja fleiri spurninga.
Svör Katrínar verða ekki skilin á annan veg en þann
að hún hafi verið að herða á hinni opinberu stefnu VG um
andstöðu við aðild og þar með er ljóst að þrír flokkar á
þingi, Sjálfstæðisflokkur, VG og Framsóknarflokkur,
eru andvígir aðild og mundu standa að atkvæðagreiðslu
um spurninguna af eða á.
Það er því ljóst að það er ekki efnislegur ágreiningur á
milli núverandi stjórnarflokka og VG um þetta grund-
vallarmál.
Miklar umræður undanfarna mánuði um heilbrigð-
ismál og velferðarmál hafa leitt í ljós að það er ekki efnis-
legur ágreiningur á milli íslenzkra stjórnmálaflokka um
þessa málaflokka. Það getur verið til staðar ágreiningur
um hversu langt eigi að ganga í að auka framlög til þess-
ara málaflokka, en þegar ekki er ágreiningur um grund-
vallarþætti mála er erfitt að sjá að Sjálfstæðisflokkur og
VG gætu ekki náð saman um þau mál.
Kvótamálin gætu orðið erfiðari – og þó. Samkvæmt
þeim upplýsingum sem berast úr herbúðum útgerð-
armanna er nokkuð ljóst að þar á bæ er nú meiri vilji en
áður til þess að ná samkomulagi við „þjóðina“ ef svo má
að orði komast um upphæð veiðigjalda sem þorri al-
mennings gæti sætt sig við sem viðunandi. Eftir sem áð-
ur getur verið ágreiningur um aðferðina en þó hljóta alla
vega flestir landsmenn, hvar í flokki sem þeir standa, að
vera sammála um mikilvægi þess að veiðiheimildir safn-
ist ekki allar á hendur örfárra útgerðarfyrirtækja og að-
ferðin verði ekki til þess að lítil útgerð-
arfyrirtæki og meðalstór gefist upp.
Með sama hætti hlýtur að vera víðtæk
samstaða í landinu um að tryggja tilvist
minni sjávarþorpa víðs vegar um land-
ið.
Umhverfismálin ættu ekki að þvæl-
ast fyrir samstarfi þessara flokka vegna þess að Bjarni
Benediktsson hefur bæði lýst yfir stuðningi við þjóðgarð
á miðhálendi Íslands og þeirri skoðun að ný álver séu
ekki á næsta leiti.
Gera má ráð fyrir að endurskipulagning bankakerf-
isins verði á dagskrá á næstu árum en í ljósi þess að for-
maður Sjálfstæðisflokksins hefur farið mun hægar í að
boða nýja einkavæðingu bankanna að undanförnu en
hann gerði fyrir nokkrum misserum er ekki ástæða til að
ætla fyrirfram að sá málaflokkur þurfi að vera fyr-
irstaða.
Eftir stendur þá rótgróin andúð manna á vinstrikant-
inum í garð Sjálfstæðisflokksins og að einhverju leyti
áþekkt viðhorf innan þess flokks til VG.
Í mannlegum samskiptum er reynslan oftar en ekki sú
að frekari kynni og skoðanaskipti leiði til þess að fólk
nálgist meir en áður og ekki ósennilegt að í báðum flokk-
um mundi fólk sjá nýja samstarfsaðila í öðru ljósi ef á
annað borð tækist að koma á samstarfi.
Staðan í miðju íslenzkra stjórnmála er ekki traust-
vekjandi. Raunar má telja víst að einhverjar tilraunir
verði gerðar á næstu misserum til að skapa þar stærri
einingar.
Þegar horft er til þessarar málefnastöðu allrar verður
að telja að það sé tilraunarinnar virði að reyna að koma á
slíku samstarfi. Takist það yrði það verulegur áfangi á
þeirri leið að draga úr sundrungu og skapa meiri sam-
stöðu í okkar samfélagi.
Og það væri heilsusamlegt fyrir sálarlíf þjóðarinnar.
Kemur samstarf Sjálfstæð-
isflokks og VG til greina?
Málefnin eru ekki
Þrándur í Götu held-
ur tilfinningarnar.
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Hæpið er að tala um „fjórflokkinn“eins og sumir stjórnmálaskýr-
endur gera. Hér starfaði aldrei neinn
fjórflokkur, heldur ólíkir flokkar, frá
hægri til vinstri. Saman mynduðu Al-
þýðuflokkurinn og vinstri sósíalistar
(kommúnistaflokkur 1930-1938, Sósíal-
istaflokkur 1938-1956, Alþýðubandalag
1956-1998) íslenska vinstrið, og það
naut löngum fylgis þriðjungs kjósenda.
Skýra þarf tvennt: að íslenska
vinstrið var löngum minna en á öðrum
löndum á Norðurlöndum og að styrk-
leikahlutföll innan þess voru önnur, því
að frá 1942 voru vinstri sósíalistar hér
stærri en jafnaðarmenn öfugt við önn-
ur lönd á Norðurlöndum.
Skýringin á tiltölulega veiku vinstri
var, að hér var þéttbýlisþróun síðar á
ferð en annars staðar á Norðurlöndum,
stóriðja lengst af óveruleg og jafn-
aðarmenn í samstarfi við Framsókn-
arflokkinn á mótunarárum flokkaskipt-
ingarinnar (1927-1931 og 1934-1938),
en það spillti fyrir myndun fjölda-
flokks.
Skýringin á styrkleikahlutföllunum
var, að Ísland var eins og Finnland
(þar sem kommúnistar voru líka öfl-
ugir) nýtt land og borgaralegar venjur
ekki rótgrónar, auk þess sem þessi tvö
lönd voru á öndverðri tuttugustu öld
talsvert fátækari en Svíþjóð, Danmörk
og Noregur. Eflaust hefur einnig skipt
máli að kommúnistar þáðu verulega
fjárhagsaðstoð frá Moskvu og gátu til
dæmis eignast fjögur stórhýsi í
Reykjavík.
Íslenska vinstrið tók stakkaskipt-
um í lok tuttugustu aldar, þegar Al-
þýðuflokkurinn endurfæddist í Sam-
fylkingunni og Alþýðubandalagið í
Vinstri grænum. Eftir bankahrunið
fékk þetta vinstri sitt stóra tækifæri
vorið 2009, hlaut samtals 51,5% at-
kvæða og myndaði ríkisstjórn. En
tækifærið gekk vinstrinu úr greipum.
Stjórnarflokkarnir tveir biðu herfileg-
an ósigur vorið 2013, þegar þeir fengu
samtals 23,8% atkvæða. Nú, haustið
2016, hlutu þessir flokkar samtals
21,6% atkvæða.
Skýringarnar á gengisleysi vinstri-
sins síðustu árin eru margar: barátta
fyrir málum, sem kjósendur eru
áhugalitlir um, eins og Evrópusam-
bandsaðild og stjórnarskrárbreyt-
ingum, tilraun til að koma fram
hefndum í stað þess að leita sátta
(eins og brottrekstur Davíðs Odds-
sonar og ákæran á hendur Geir
Haarde sýndu) og lök frammistaða í
skiptum við erlenda aðila, jafnt í Ice-
save-deilunni og samningum við
kröfuhafa. Þar við bætist innan Sam-
fylkingarinnar sundrung og furðuleg
heift (til dæmis skyndiframboð gegn
sitjandi formanni, sem hékk í stöðu
sinni á einu atkvæði) og veik forystu-
sveit, svo að flokkurinn hlaut nú að-
eins 5,7% atkvæða, sem er ótrúleg út-
reið.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Gengisleysi íslenska
vinstrisins
BARNAFATNAÐUR
fyrir veturinn
Retro Pom barnahúfa
Verð: 4.495,-
Edge
barnavetrarbuxur
Verð: 19.995,-
Marmot Freerider
barnaúlpa
Verð: 24.995,-
Minnum á vefverslun Fjallakofans www.fjallakofinn.is