Skagfirðingabók - 01.01.2015, Blaðsíða 92
SKAGFIRÐINGABÓK
92
á bæinn er hann reisti sér síðar við
Höfðavatn.
Jón í Móhúsi hafði viðurnefnið ,bis‘,
sem hann mun hafa hlotið af því, að þegar
hann var að vinna, sagðist hann vera að
bisa við hitt eða þetta. Málfar hans sem
Sunnlendings þótti sérstakt hér nyrðra,
t.d. talaði hann alltaf um spöndu í stað
fötu og sauðatað hét skán í hans munni.
Konu sína kallaði hann alltaf Gvonýju.
Jón var frekar hár maður vexti og svaraði
sér vel, skarpleitur og harðeygður. Hann
var fátalaður en hvassyrtur, leitaði lítið
samfélags annarra og lét fáa eiga hjá sér
ef á hann var ráðist. Hann stundaði sjó
og fór jafnvel á vertíðir til Ísafjarðar; kom
hann þá stundum með tros, þ.e. saltaðan
úrgangsfisk, í tunnum og skipti gjarna á
því við sveitunga fyrir búvöru. Jón átti
sjóbúð niðri á Bæjarklettum og fjögurra
manna far með feðgunum í Mýrakoti.
Reru þeir oft á haustin frá Klettunum.
Báturinn hét Björgin, búinn seglum
og árum, 20 stokka línu og fjórum
tilfærum.4
Kona Jóns, Guðný Björnsdóttir, var úr
Hörgárdal. Sumarið 1928, þann 30. júní,
var Guðný á leið niður á Bæjarkletta og
fór utan við túnið í Bæ. Var það venjuleg
gönguleið úr Kotunum til sjávar. Þar
fékk hún heilablóðfall og hneig niður,
var flutt heim í Móhús og andaðist þar
um nóttina. Þegar Jón var búinn að
kaupa kistuna og annað, sem þurfti til
Kort Bryndísar Zoëga yfir Kotabyggðina þar sem merkt eru inn öll býlin og ábúðartími þeirra.
Byggðasaga Skagafjarðar VII, bls. 424
4 Byggðasaga Skagafjarðar VII, bls. 430.