Skagfirðingabók - 01.01.2015, Blaðsíða 129
SKÍRNARFONTURINN Í HÓLADÓMKIRKJU
129
corporale [korpóralsdúk, til að breiða yfir
patínu (og kaleik)] skulu þeir [prestar]
‹h›rein láta vera. (DI II, 276)
Skipan Eilífs erkibiskups og Jóns Hall-
dórssonar Skálholtsbiskups, um 1323:
Prestar skulu halda og hafa fonta sína
hreina, þétta og vel lokaða. (DI II, 518)
Á miðöldum voru ákveðnar kirkjur
sem höfðu viðurkennda skírnarfonta. Á
laugardag fyrir páska var skírnarvatnið
vígt til ársins og geymt í fontinum
allt árið, og til þess að það frysi ekki
eða fúlnaði var það saltað rækilega
(Guðbrandur Jónsson 1919–1929,
351). Vígt vatn var frábrugðið öðru
vatni. Það hafði verið helgað með vígðri
olíu (skírnarolíu) og við það fylltist
vatnið krafti heilags anda; þurfti að fara
með það í samræmi við það. Þegar skipt
var um vatn var því hleypt um gat í
skálarbotninum ofan í vígða mold undir
kirkjugólfinu. Svokallaðar fonthúfur,
eða lok, komu í veg fyrir að óhreinindi
bærust í vatnið. Til eru í Noregi og
Svíþjóð fonthúfur frá 12 öld og síðar.4
Skírnarsárinn á Hólum
SKÍRNARFONTURINN eða skírnarsárinn5
í Hóladómkirkju er einhver mesta
prýði kirkjunnar og skipar sérstakan
sess vegna sögu sinnar. Hann hefur
jafnan verið talinn verk Guðmundar
Guðmundssonar í Bjarnastaðahlíð, frá
1674. Í bæklingi Kristjáns Eldjárns: Um
Hólakirkju (1963, 28–30) segir:
Á gólfinu fram undan krossinum er
skírnarsár, og er þetta hinn gamli staður
hans, þótt hann hafi síðan 1886 staðið
á kórgólfi framan við gráður. Fóturinn
er nýlegur (frá 1886), en sárinn gamall,
höggvinn í einu lagi úr gráu klébergi
(fitusteini). Steinn sá finnst ekki í
náttúrunnar ríki hér á landi, en er algengur
á Grænlandi og í Noregi. Er því oft talið,
að efnið í þennan sá hafi borizt hingað
með með ís frá Grænlandi, enda sögn um,
að það hafi fundizt við rætur Tindastóls,
en ekki er óhugsandi, að Guðmundur
Guðmundsson, skurðlistarmaður og
bóndi í Bjarnastaðahlíð, sá sem gerði
sáinn, hafi pantað efnið erlendis frá.
Sárinn er í barokk-stíl, eins og önnur
verk Guðmundar. Ofan á sábörmunum
stendur með upphleyptu gotnesku letri:
Leifid Børnunum til Mijn Ad Koma Og
Bannid þeim þad eige þui ad þuilijkra er
Guds Rijke Matt 19.
Að utan er á sánum mikið rósaverk og
myndir af umskurninni og skírninni og
enn fremur biblíuleg táknmynd með
svofelldri áletrun.
LABIUM ÆNEUM TYPUS BAPTISMI
EXOD. XXX.
4 Í Kristni á Íslandi 1 (2000, 321) er mynd af sænskum skírnarsá úr tré með útskorinni fonthúfu, frá 12. öld.
5 Sár er sjaldséð karlkynsorð, sem merkir kerald eða skírnarker, oftast úr tré. Orðið beygist eins og skjár:
sár(inn), um sá(inn), frá sá(num), til sás(ins); sáir(nir), um sái(na), frá sáu(nu)m, til sáa(nna). Einnig má
benda á þjóðsöguna: „Hvað þýðir sár?“ (Björn R. Stefánsson 1926, 7–28). Orðið fontur er komið úr latínu, af
fons = brunnur. Skírnarfontur var að fornu stundum kallaður skírnarketill (úr eiri eða pjátri), skírnarsteinn
(úr steini) og stöku sinnum skírnarmundlaug (mundlaug = handlaug, skál).