Skagfirðingabók - 01.01.2015, Blaðsíða 134
SKAGFIRÐINGABÓK
134
Guðbrandur telur að það sem kallað er
umbúningur hafi verið lok eða húfa. E.t.v.
hugsar hann sér að þegar lokið var sett á
hafi menn verið að búa um fontinn.10
Þetta er þó vafamál og er mun líklegra
að átt sé við fontklæði, sem sveipað
var umhverfis fontinn til skrauts. Í því
sambandi er athyglisvert að 1374 og 1396
er getið um fontsumbúning, 1525 um tvö
fontklæði og lítinn kross upp úr fontinum,
og 1550 um nýjan fontsumbúning. Þetta
bendir frekar til að fontsumbúningur sé
fontklæði. Eflaust hefur einnig verið lok
eða húfa á fontinum á Hólum, því að
það var lagaskylda fyrir siðaskipti. Getið
er um fonthúfu í úttekt 1628, og hefur
krossinn litli verið efst á fonthúfunni.
Varðveist hefur eitt fontklæði, sem er
í Þjóðminjasafni Íslands. Það barst frá
Höfðabrekku í Mýrdal, þar sem fyrrum
var kirkja, en það gæti þó verið úr ann-
arri kirkju. Óvíst er um aldur þess, en
Kristján Eldjárn telur það líklega yngra en
siðaskiptin.11 Á því er útsaumuð vísa:
Síst er næsta saumurinn fríður.
Sannliga bið eg þó ei at síður,
hvar sem þetta er fonti á.
Fontklæðið frá Höfðabrekku er tæplega
170 cm langt, og hefur því verið utan
um font sem hefur verið allt að 54 cm
í þvermál. Breidd klæðisins, og þar með
hæð fontsins, er 82 cm. Hólafonturinn
er 72 cm í þvermál, og þarf 226 cm langt
fontklæði til að ná utan um hann.
Í úttekt Hóladómkirkju 1692 segir
frá eins konar skírnarkapellu, sem Jón
biskup Vigfússon lét gera og Guðríður
Þórðardóttir ekkja hans gaf kirkjunni.
Skírnarstúkan var frammi við dyr í
Halldórukirkju, á vinstri hönd þegar
10 Fredrik Wallem (1910, 89–91) segir hugsanlegt að »umbúningur« hafi verið lítil skírnarkapella úr tré eða
tjöldum, en telur líklegra að átt sé við [klæði] sem sveipað var um fontinn.
11 Kristján Eldjárn 1969: Hundrað ár í Þjóðminjasafni, 16. þáttur.
Sænskur steinfontur frá 12. öld með fonthúfu
sem er líklega frá miðöldum, úr kirkju á
Vermalandi (Västra Fågelvik). Fonthúfan í
Hóladómkirkju gæti hafa verið svipuð þessari
(frekar en tréhlemmur), e.t.v. útskorin, með
koparkrossi upp úr miðju.
Mynd af netinu: Statens Historiska Museum