Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 01.04.2016, Page 28

Læknablaðið - 01.04.2016, Page 28
188 LÆKNAblaðið 2016/102 mynd 3. Strax eftir aðgerðina fann sjúklingurinn til mikils léttis og munaði mest um að sjálfheyrnin var ekki lengur til staðar. Það sem kom einnig í ljós eftir aðgerðina var að sjúklingurinn hafði líka einkenni frá sambærilegu rofi hægra megin. Einkennin frá vinstra eyra höfðu sennilega yfirgnæft þau einkenni og var þetta ekki vitað fyrir aðgerðina. Sjúklingurinn var mjög ánægður með árangur aðgerðarinnar. Sjálfheyrnin á vinstra eyra hvarf en hins vegar stóðu eftir svimaóþægindi og stafa þau af öllum líkindum af rofinu hægra megin. Umræða Rofi á efri bogagöngum var fyrst lýst árið 1998 af Dr. Lloyd Minor og félögum.1 Óvíst er með algengi sjúkdómsins en krufningarann- sóknir hafa bent til að algengi rofs á efri bogagöngum sé um 0,7%. Er þá álitið að um tilviljanagreiningu sé að ræða.3 Þannig er ekki vitað hversu margir þeirra sem hafa beineyðingu á þessu svæði hafa í raun klínísk einkenni. Oft eru sjúklingarnir með skerta loftheyrn á lægri tíðnum. Heyrnarmæling sýnir þá leiðniheyrnartap en ístaðaviðbragð er eðlilegt. Þetta leiðniheyrnartap stafar af truflun í innra eyra vegna aukagats eða „þriðja glugga“ á beinvölundarhúsinu (labyrinthus osseus) og er á ensku kallað inner ear conductive deafness.9 Undirliggjandi ástæður rofs á bogagöngum eru helst taldar vera að beinþekjan yfir efsta hluta efri bogapípunnar nái aldrei eðlilegri þykkt og þynnist smám saman og rofni jafnvel í sumum tilfellum með tímanum. Þá virðast höfuðhögg einnig geta stuðlað að því að rof verði. Trúlega er einhver blanda af þessu tvennu til staðar hjá mörgum sjúklingum.3 Í þessu tiltekna tilfelli var ekki vitað til að sjúklingurinn hefði fengið höfuðhögg sem gæti hafa orsakað þetta. Sjúklingurinn hafði nokkuð mikil einkenni sem hömluðu veru- lega í daglegu lífi. Rofið reyndist einnig nokkuð stórt, eða um 6 millimetra langt. Rannsökuð hafa verið tengslin milli stærðar rofs og einkenna sjúklinganna og hafa þær verið misvísandi.4-6 Hefur þannig ekki verið hægt að fullyrða neitt um tengslin þar á milli. Sjúklingurinn í þessu tilfelli reyndist vera með einkennagef- andi rof beggja vegna. Óvíst er með algengi þess en erlendar greinar gefa til kynna að svo geti verið í 25-50% af öllum greind- um tilfellum.7,8 Skal þó taka slíkum tölum með fyrirvara þar sem tilfellin eru fá. Heyrnardeyfa og svimi eru í sjálfu sér ekki sjaldgæf einkenni. Sjálfheyrn er þó ekki algeng og er mikilvægt að fá fram við sögu- töku ef sjúklingur finnur fyrir slíku.9 Það gæti tafið greiningu að sjúklingarnir fela ef til vill eitt mest afgerandi einkennið sem er einmitt sjálfheyrnin. Ástæður þess geta verið að þeir óttast að vera taldir með geðræna kvilla. Þetta endurspeglar enn og aftur mik- ilvægi góðrar sögutöku. Háskerputölvusneiðmyndir eru jafnan gerðar til að sýna fram á beineyðinguna.10 Önnur greiningarleið er svokallað VEMP-próf (Vestibular Evoked Myogenic Potential). Það er próf sem gengur út á að hljóðörvun er gefin í eyrað sem prófað er og síðan er vöðvavirknin í hliðvendivöðva (sternocleidomastoideus muscle) sömu hliðar mæld. Sjúklingar með rof á bogagöngum fá fram virkni í vöðvanum við lægri hljóðstyrk en heilbrigðir einstaklingar. Þeir hafa sem sagt lægri þröskuld fyrir líkamlegum viðbrögðum við hljóðáreiti.7,9 VEMP-próf var ekki framkvæmt í þessu tilfelli heldur þótti greiningin fást nægilega örugglega fram með sögutöku, skoðun og tölvusneiðmyndum. Rannsóknir hafa gefið til kynna að árangur af aðgerð sé góður og nokkrar tegundir aðgerða finnast sem hver og ein hafa gefið ágætan árangur.2,10 Sjaldgæft er að sjúklingar greinist með einkennagefandi rof á bogagöngum. Mögulega stafar það af einkennamyndinni sem er nokkuð sérstök og því að sjúklingar eru ef til vill ekki tilbúnir til að greina frá öllum sínum einkennum. Meðal helstu mismuna- greininga eru geðrænir kvillar. Þetta tilfelli sýnir nokkuð dæmi- gerða einkennamynd. Til að geta greint sjúklinga með þennan sjúkdóm þarf maður að þekkja til einkennanna og fá fram góða lýsingu hjá sjúklingnum. Þetta tilfelli undirstrikar mikilvægi góðrar sögutöku. Mynd 2. Tölvusneiðmyndin sýndi eyðingu á efri bogagöngum (superior canal dehiscence). Örvarnar benda á beineyðinguna. Mynd 3. Mynd úr aðgerðinni sem sýnir beineyðinguna. Örin bendir á gat inn í efri bogagöngin (superior canal). Gatið var um 6 mm að lengd. S J Ú K R A T I L F E L L I

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.