Fréttatíminn - 30.09.2016, Blaðsíða 12
12 | FRÉTTATÍMINN | Föstudagur 30. september 2016
Hlynur segir að dyravörður-
inn hafi séð hvað var að gerast út
um gluggann og hlaupið út til þess
að aðstoða konuna. Hann hjálpaði
henni á fætur og skipaði mann-
inum að halda sig fjarri. Það var
þó ekki nóg. Ofbeldið virðist hafa
haldið áfram.
Hlynur áttar sig ekki á því hvort
það hafi verið hægt að gera meira.
Hvort þarna hafi verið augnablik-
ið til þess að stöðva þessa hægu
atlögu mannsins að konunni, sem
virðist hafa endað með martraðar-
kenndum hætti. Spurður hvort þeir
hefðu gert meira ef um aðra konu
hefði verið að ræða, svarar Hlyn-
ur af hreinskilni: „Það er ómögu-
legt að segja, en við gerum öll upp
á milli fólks að vissu marki. Það er
bara ljót staðreynd.“
Er þetta akút?
Hlynur og félagar lokuðu Lundan-
um um klukkan fjögur um nóttina.
Þeir voru að þrífa staðinn, sópa gólf-
ið og gera upp viðskipti kvöldsins
þegar Hlynur varð var við konuna
og manninn fyrir utan staðinn.
Hann segir oft háreisti hjá fólki
sem bíður eftir leigubílum eða er
á leiðinni heim eftir lokun. Það sé
ekkert óvanalegt. En þarna hafi þau
tvö verið ein eftir, þau hafi verið að
takast á og rífast harkalega, auk
þess sem leigubílarnir voru hætti
að ganga.
Hlynur hringir því á lögregluna.
Þegar hann er beðinn um að lýsa
samtalinu lýsir hann því svona: „Ég
hringdi um 04:39 minnir mig, og
óska eftir aðstoð lögreglu vegna
ágreinings á milli þeirra.“
Spurður hvort hann hafi nafn-
greint þau í símtalinu svarar hann
játandi. „Lögreglan spyr mig þá
hvort þetta sé eitthvað akút, þar
sem þeir séu að sinna öðru útkalli,“
segir Hlynur og bætir við: „Á þeim
tíma sýndist mér það ekki.“
Sjálfur sér hann eftir svarinu,
sérstaklega í ljósi þess hvernig fór.
En sökin er ekki hans; heldur lög-
reglunnar sem krefst þess af hon-
um að forgangsraða verkefnum
fyrir lögreglu.
„Svo líður smá tími, einn starfs-
maður hjá mér verður var við að
þarna eru einhver áflog, við för-
um þá út og segjum þeim að það sé
búið að hringja á lögregluna,“ segir
Hlynur sem vonaðist til þess að þau
færu einfaldlega heim og svæfu úr
sér. Hann segist ekki hafa séð neina
áverka á konunni, og grunaði ekki
hvað myndi gerast næst.
Spurður hvort hann hafi fundið
merkjanlega breytingu í samtalinu
við lögreglu eftir að hann upplýsti
um hvaða konu var að ræða, svar-
ar Hlynur neitandi. „Ekki þannig,“
segir hann og bætir við: „Þetta var
samt í fyrsta skiptið sem þeir komu
ekki strax þegar ég hringdi.“
Til útskýringar virðist þokkalegt
samstarf á milli Lundans og lög-
reglunnar. Þannig hringir starfs-
fólkið beint í lögreglu í stað þess að
hringja í Neyðarlínuna. Það spari
tíma og oft sé tíminn mikilvæg-
ur þegar kemur að vandamálum í
kringum ölvað fólk sem sækir stað-
inn heim. Svarið kom því Hlyni á
óvart, sem leggur þó sjálfur ekki
meiri merkingu í það aðra en þá
að lögregluembætti á landsbyggð-
inni séu hugsanlega fjársvelt. „Þeir
þurfa bara fleiri lögregluþjóna,“
segir Hlynur.
Síðasta vonin
Næst verður atburðarásin ógreini-
legri. Maður, sem er kallaður vitni C
í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands,
segist hafa verið á leið í vinnuna í
bifreið sinni klukkan fimm um
morguninn þegar maður vatt sér að
honum. Sá spurði hann hvort hann
hefði séð stelpu á ferð, en vitni svar-
aði neitandi. Vitnið sá þá konuna
þar sem hún stóð örskammt frá og
lýsir því þannig að maðurinn hafi
farið til konunnar og rætt við hana.
Sjálfur lýsir hann því þannig að
konan hafi ekki virst vilja tala við
manninn og gengið í burtu, yfir
götuna, í áttina að sjúkrahúsinu.
Vitni C var síðasti maðurinn sem
sá þau saman áður en hún fannst
illa leikin skammt frá. Hann var
jafnframt síðasta von konunnar
um að komið væri í veg fyrir yfir-
vofandi ofbeldi.
Óþekkjanleg
Það var svo skömmu síðar, eða um
klukkan fimm, sem vitnið B heyrir
læti úti á götu. Í framburði hennar
kemur fram að hún hafði farið sjálf
að sofa klukkan fimm um nóttina,
en þá heyrt lætin úti og litið út um
gluggann. Þar sá hún nakta mann-
eskju liggja á götunni. Þá sá hún
mann ganga frá konunni og lýsir hún
honum sem pollrólegum og reykj-
andi. Konunni fannst hann ungleg-
ur, en sjálf er hún ekki orðin þrítug.
Konan lýsti manninum þokkalega
auk þess sem hún sagði göngulag
mannsins sjálfsöruggt.
Konan hringdi í Neyðarlínuna og
hljóp út til konunnar. Sjálf segir hún
svo í skýrslutöku að aðkoman hafi
verið skelfileg; konan var óþekkjan-
leg eftir ofbeldið.
Lögreglan kom loksins á staðinn,
eftir að konan hafði hringt í Neyðar-
línuna, hálftíma eftir að Hlynur var
beðinn um að forgangsraða verkefn-
um lögreglunnar í Vestmannaeyjum.
Konan var svo illa farin að ástæða
þótti til þess að kalla til sjúkraþyrlu
til þess að flytja hana samstundis
undir læknishendur í Reykjavík.
Konan var mjög illa farin en ekki
var þörf á uppskurði, að sögn móður
konunnar, sem Fréttatíminn ræddi
við. Hún sagði dóttur sína muna illa
eftir atvikinu, aðeins að hún hefði
barist um hæl og hnakka á meðan á
árásinni stóð.
Konan útskrifaði sig sjálf út af spít-
alanum, en móðir hennar segir að
það hafi meðal annars verið vegna
þess að hún vildi ekki þurfa að rifja
atvikið aftur upp. Það hafi verið
henni erfitt.
Hún er á batavegi og bíður eftir
að bólgan minnki, en þó er að ljóst
að áverkarnir eru ekki eingöngu
líkamlegir.
Konan hefur neitað að þiggja alla
aðstoð frá lögreglu vegna málsins
og vantreystir starfsfólki þar. Að-
spurð hversvegna það sé, útskýr-
ir móðir hennar, að lögreglan hafi
lógað hundi konunnar gegn hennar
vilja, og það eigi hún erfitt með að
fyrirgefa.
„Takið bara stöðu með henni,“
sagði móðir hennar þegar blaðamað-
ur upplýsti hana um að Fréttatíminn
hygðist birta grein um málið.
Hann valdi mig
Það er ljóst að margir velta vöng-
um yfir því hvernig konunni var
misþyrmt svo hrottalega þegar
svo margir voru annaðhvort vitni
að hluta árásarinnar, eða fundu að
eitthvað meira var að. Móðir kon-
unnar segist undrandi á skeytingar-
leysinu. „Það var fullt af fólki þarna
sem hefði getað hjálpað henni.“
Hlynur Jónsson, vert á Lundan-
um, hugsar líka til baka og veltir
því fyrir sér hvað hafi verið hægt
að gera betur.
„Ég er búinn að fara í gegnum
þetta í huganum, fram og til baka,
og er með nógu mikið samvisku-
bit eftir á. Maður veltir því fyrir
sér hvort maður hefði átt að grípa
frekar í taumana, en þetta virt-
ist einhvernveginn smávægilegt á
þessum tíma,“ segir Hlynur.
Hann segir að sér hafi fundist
eins og það hafi ekki verið í hans
verkahring að fara út og stía þeim
almennilega í sundur, inni í þá
ákvörðun spilaði ýmislegt, allt frá
tryggingum starfsfólks yfir í að
ágreiningurinn virtist ekki alvar-
legur þá. Hann segir að líklega hefði
hann brugðist öðruvísi við ef um
aðra konu hefði verið að ræða.
„Og ég efast líka um að
árásarmaðurinn hefði misþyrmt
annarri konu svona hrottalega,“
segir Hlynur um atvikið.
Það er því ljóst að bæði vegfar-
endur, starfsfólk, lögreglan og að
lokum Héraðsdómur Suðurlands,
sem hafnaði gæsluvarðhaldi yfir
manninum, nú síðasta á miðviku-
dag, brugðust konunni og mistókst
þannig að koma henni til aðstoðar.
Móðir konunnar segir að hugsan-
lega hafi ekki verið hægt að koma
í veg fyrir ofbeldið og að ásetning-
ur mannsins hafi verið mjög ein-
beittur. Hún segir að dóttir sín hafi
ekki sagt „hann vildi mig“, eins og
fram kom í greinargerð lögreglunn-
ar. Að sögn móður hennar sagði
hún: „Hann valdi mig“.
Ég er búinn að fara í
gegnum þetta í hugan-
um, fram og til baka,
og er með nógu mikið
samviskubit eftir á.
Hlynur Már Jónsson
Hlynur Már Jónsson var að vinna á Lundanum sama kvöld og konu var misþyrmt skammt frá staðnum. Hlynur hringdi
í lögregluna og óskaði eftir aðstoð, en var settur í þá stöðu að þurfa að forgangsraða verkefnum lögreglunnar.
Maðurinn sem um ræðir er Vestmannaeyingur og starfar við ferðamannaiðnað-
inn. Hann er um tuttugu árum yngri en konan og á barn og unnustu.
Framboðsfrestur til Alþingiskosninga rennur út
föstudaginn 14. október nk. kl. 12 á hádegi.
Yfirkjörstjórnir Reykjavíkurkjördæma norður og suður taka á móti framboðslistum
miðvikudaginn 12. október kl. 10-12 og aftur föstudaginn 14. október kl. 10-12 í fundarher-
bergi borgarráðs, Ráðhúsi Reykjavíkur við Tjarnargötu.
Á framboðslista skulu vera 22 nöfn frambjóðenda. Hverjum framboðslista skal fylgja skrif-
leg yfirlýsing allra þeirra sem á listanum eru um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann.
Framboðslista skal og fylgja skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í
hlutaðeigandi kjördæmi. Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili. Fjöldi
meðmælenda skal vera 330 að lágmarki og 440 að hámarki.
Enginn kjósandi getur mælt með fleiri en einum framboðslista. Komi það fyrir strikast nafn
kjósandans út í báðum/öllum tilvikum. Loks skal fylgja framboðslista skrifleg tilkynning frá
frambjóðendum listans um hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans. Allar framangreind-
ar yfirlýsingar skulu ritaðar eigin hendi.
Gæta skal þess um öll framboð að tilgreina skýrlega nafn frambjóðanda, kennitölu hans,
stöðu eða starfsheiti og heimili til þess að enginn vafi geti leikið á því hverjir eru í kjöri.
Mælst er til að framboðslistum og listum yfir meðmælendur verði einnig skilað á rafrænu
formi. Bent er á að meðmælendalista má slá inn á þar til gert vefsvæði á www.island.is.
Að öðru leyti er vísað til ákvæða laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000, með síðari
breytingum.
Meðan kosning fer fram, laugardaginn 29. október nk., verður aðsetur yfirkjörstjórnar
Reykjavíkurkjördæmis norður í Ráðhúsi Reykjavíkur, þar sem talning atkvæða mun fara
fram að kjörfundi loknum. Aðsetur yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður verður í
Hagaskóla og að kjörfundi loknum fer talning atkvæða fram í íþróttahúsinu við Hagaskóla.
Nánari upplýsingar má nálgast á www.kosning.is eða með því að hafa samband við
skrifstofu borgarstjórnar í s. 411-4700 eða með tölvupósti á kosningar@reykjavik.is.
ALÞINGISKOSNINGAR 29. OKTÓBER 2016
Auglýsing frá yfirkjörstjórnum Reykjavíkurkjördæma norður og
suður um móttöku framboðslista og aðsetur yfirkjörstjórna á kjördag
Reykjavík, 1. október 2016
Yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður
Erla S. Árnadóttir
Páll Halldórsson
Fanný Gunnarsdóttir
Katrín Helga Hallgrímsdóttir
Tómas Hrafn Sveinsson
Yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis suður
Sveinn Sveinsson
Sjöfn Ingólfsdóttir
Þuríður Jónsdóttir
Heimir Örn Herbertsson
Þóra Hallgrímsdóttir