Fréttatíminn - 15.12.2016, Blaðsíða 16
Ögurhvarfi 2, 203 Kópavogur, sími 577 6000, garmin.is
Verð frá 39.900
Every Day Backpack frá Peak Design eru
byltingarkenndir ljósmyndabakpokar sem vekja
aðdáun hvar sem er. Frábær bakpoki sem nýtist
ekki eingöngu ljósmyndurum heldur líka hverjum
sem vill hentugan bakpoka fyrir fartölvuna,
spjaldtölvuna og annað sem fólk ferðast með.
Every Day Backpack
frá Peak Design
16 | FRÉTTATÍMINN | Fimmtudagur 15. desember 2016
Aleppo, sem í dag er nánast í rúst-
um eftir langvarandi átök, er ein
elsta og merkasta borg heims; vart
yngri en átta þúsund ára gömul eða
sjö sinnum eldri en byggð á Íslandi.
Aleppo var mikilvæg öllum þeim
stórveldum sem risu og féllu fyr-
ir botni Miðjarðarhafsins og hún
lifði þau öll af. Aleppo var ætíð
miðstöð verslunar og ekki síst síð-
asta árþúsundið. Þar var endastöð
silkileiðarinnar. Um Aleppo fóru
gæðavörur frá Indlandi og Kína um
Mið-Austurlönd og til Evrópu. Al-
eppo var þriðja stærsta borg Ott-
omanveldisins á eftir Miklagarði
og Kaíró. Verslun í borginni dróst
saman með tilkomu Suez-skurðar-
ins og auknum sjósiglingum. Al-
eppo mátti þola hæga en örugga
hrörnun alla tuttugustu öld.
En það var ekki síður pólitík-
in sem lék Aleppo illa en breyttar
samgöngur. Í borginni hafði verið
sterkt gyðingasamfélag frá því fyr-
ir daga Krists sem byggði á versl-
un og viðskiptum um allt Ottom-
anveldið og langt út fyrir það, upp
til Evrópu og austur til Kína. Þetta
samfélag dró til sín áhrif alls stað-
ar að og þess sáust merki í menn-
ingunni. Matarlist gyðinganna í Al-
eppo er enn rómuð og þeir gátu af
sér áhrifamikla rabbína, fræði- og
listamenn. Þessu samfélagi hnign-
aði með minnkandi verslun en
brotnaði síðan saman við stofnun
Ísraelsríkis og aukinni einangrun
gyðingasamfélaga í nálægum lönd-
um. Gyðingarnir í Aleppo, sem
öldum áður tóku á móti gyðingum
sem hröktust undan ofsóknum í
Evrópu, flúðu til Suður-Ameríku
og Kanada en mest þó til Banda-
ríkjanna. Þar er sterkt samfélag sýr-
lenskra gyðinga. Í Aleppo standa
enn auð hverfi gyðinga.
En sápugerðin í Aleppo lifði þetta
allt af; fall Ottomanveldsins, hrörn-
un verslunar, flótta gyðinga og vilja
Assad-stjórnarinnar að flytja völd
og áhrif frá Aleppo og nágrenni til
Damaskus þar sem þeir feðgar nutu
helst stuðnings. Sápugerðin var eitt
af því sem hvað best gekk í Aleppo
á liðnum áratugum. Með vaxandi
áhuga á hefðbundinni sápugerð á
Vesturlöndum í kjölfar vakningar
um spillingaráhrif iðnvæðingar
daglegra þarfa; jókst eftirspurn
eftir elstu og merkustu sápu heims.
Frá því löngu fyrir tíma kross-
ferðanna var búin til sápa í Aleppo
með því að umbreyta olíu af ólívum
og lárviði með lút. Sápan var látin
þroskast í heilt ár, var hörð og þétt,
gullin að utan en græn að innan.
Hún var eftirsótt öldum og árþús-
undum saman en með iðnvæðingu
sápugerðar dró hægt og bítandi úr
framleiðslunni, fjarlægari markað-
ir lokuðust, sápugerðir lögðu upp
laupana og vinnslan varð vart svip-
ur hjá sjón. En upp úr 1980 fór að
gæta aukins áhuga á Vesturlöndum
fyrir náttúrlegum sápum og sápu-
gerðin í Aleppo virtist vera að rísa
úr öskustónni.
Borgarastyrjöldin í Sýrlandi
slökkti þá drauma – eins og fleiri.
Nú er engin sápa framleidd í Al-
eppo. Fólkið sem kunni til verka
er annað hvort dáið eða hefur flúið
borgina. Olívutrén og lárviðurinn í
nágrenninu eru í niðurníðslu. Sumt
sápugerðarfólkið hefur byrjað upp
á nýtt með tvær hendur tómar
annars staðar, til dæmis í Líbanon.
En sápan verður aldrei alveg sú
sama og sú sem gerð var í Aleppo
í þúsundir ára, hráefnin eru önnur
og aðstæður aðrar.
Þúsund ára iðnaður
Það var í raun bara ein sápa í Mið-
austurlöndum sem var lík að gæð-
um og sápan frá Aleppo. Það var
sápan frá sápugerðum í Nablus á
Vesturbakkanum í Palestínu. Þar
er enn búin til sápa úr olívuolíu og
lút sem gerður er úr ösku og kalk-
steini. Sápan frá Nablus er látin
þroskast í vöruhúsum í ár eins og
sápan frá Aleppo. Hún er hörð, hvít
og nánast lyktarlaus – hrein olívu-
sápa. Þessi sápa var búin til á heim-
ilum í Palestínu frá örófi alda en
talið er að af þeim heimilisiðnaði
hafi orðið til litlar sápugerðir á ell-
eftu öld. Á fjórtándu öld spruttu
upp stórar og öflugar sápugerðir
sem gátu sinnt fjarlægari mörkuð-
um en heimabyggð.
Sápan frá Nablus var eftirsótt og
sápugerðirnar mikilvægur þáttur
í borgarlífinu. Framleiðslan dróst
hins vegar saman á tuttugustu öld
vegna samkeppni við iðnaðarsápu
sem var ódýrari; kallaði til dæmis
ekki á stór vöruhús til að geyma og
þroska sápurnar. En vaxandi áhugi
á hefðbundinni sápu jók á ný eft-
irspurnina eftir sápum frá Nablus
upp úr 1980.
Sápugerðin lokuð inni og kæfð
En því miður hefur sú eftirspurn
ekki dugað til að lyfta undir aukna
framleiðslu. Margar sápugerðir
voru eyðilagðar í hermdaraðgerð-
um Ísraelshers í upphafi þessarar
aldar. Sífellt harðari stefna ísrael-
skra stjórnvalda gegn byggðum
Palestínumanna hefur síðan gert
framleiðslu og sölu erfiðari. Fjölg-
un eftirlitspósta og tilviljankennd
lokun þeirra gerir sápugerðunum
erfitt fyrir um aðföng og að koma
vörunni á markað. Starfsfólkið
kemst jafnvel ekki til vinnu dögum
saman. Frá aldamótum hefur sápu-
gerð í Nablus dregist saman um
meira en helming þrátt fyrir aukna
eftirspurn eftir þessari gæðasápu.
Sögurnar frá Aleppo og Nablus
draga ekki aðeins fram hvernig
stjórnvöld víða um heim hafa brot-
ið niður aldagamlar hefðir með því
að styðja og styrkja uppbyggingu
stórra iðnfyrirtækja sem hafa
brotið undir sig markaði smærri
framleiðenda og eyðilagt forn-
ar og traustar hefðir; heldur sýna
þær einnig hvernig gömul menn-
ingarsamfélög, atvinnuhættir og
viðskiptaleiðir eru brotin niður
af stjórnvöldum til að við styrkja
tímabundið stöðu sína. Með niður-
brotinu hverfur aldagömul þekking
og reynsla og með henni mikilsverð
lífsgæði sem við megum síst við að
missa.
Sápugerðirnar í Nablus höfðu starfað öldum saman og lifað af alskyns hrun og óáran. Myndir | Getty
Hernaðurinn gegn
sápunni í Aleppo og Nablus
Eyðilegging Aleppo strokar út þúsund ára menningarsögu um
leið og hún eyðileggur fjölskyldur og tortímir lífi. Nokkuð er síð-
an að síðasta sápugerðin hætti starfsemi en sápugerðin í Aleppo
er sú elsta í heiminum, hefur verið nafntoguð öldum saman og
lifað af ris og hrun heimsvelda. En hún lifði ekki af vora tíma.
Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is
Alepposápa úr olívuolíu og lárviðarolíu
er gullin að utan en græn að innan.
Hvít og lyktarlítil sápa látin eldast og batna í fornum vörugeymslum í Aleppo.
Sápugerðin var eitt
af því sem hvað best
gekk í Aleppo á liðnum
áratugum. Með vaxandi
áhuga á hefðbundinni
sápugerð á Vesturlöndum
í kjölfar vakningar um
spillingaráhrif iðnvæð-
ingar daglegra þarfa; jókst
eftirspurn eftir elstu og
merkustu sápu heims.