FLE blaðið - 01.01.2010, Page 23
Frá aðalfundi félagsins
Hefðbundin aðalfundarstörf.
Fundurinn var haldinn í Ketilshúsinu á Akureyri í beinu
framhaldi af haustráðstefnu félagsins. Á fundinn mættu
um 90 endurskoðendur. Fundurinn hófst á því að Kristrún
H. Ingólfsdóttir fulltrúi NRF í menntunarnefnd IFAC, fór yfir
kröfur alþjóðlegra staðla um faglega þróun endurskoðenda að
lokinni löggildingu. Þá fjallaði hún um breytingu á lögum um
endurmenntun endurskoðenda og túlkun á kröfum þeirra.
Að loknu erindi Kristrúnar hófust venjubundin aðalfundarstörf
með því að Margret G. Flóvenz, formaður félagsins, setti
fundinn. Auður Ósk Þórisdóttir, endurskoðandi hjá KPMG
var kosin fundarstjóri og Sveinbjörn Sveinbjörnsson ritaði
fundargerð. Fyrstur kom í ræðustól Sigurður B. Arnþórsson,
sem flutti skýrslu framkvæmdastjóra um starfsemi félagsins
en útdrátt úr skýrslunni má sjá hér að framan. Síðan flutti
Margret G. Flóvenz skýrslu stjórnar sem nálgast má á innri vef
FLE. Þá var ársreikningur félagsins lagður fram og samþykktur.
Að því loknu var farið yfir skýrslur fastanefnda sem allar eru
birtar í ársreikningi félagsins. Tvær tillögur um breytingar á
samþykktum félagsins voru bornar upp. Þær voru minni háttar
orðalagsbreytingar og voru samþykktar.
Þá var gengið til kosninga og var Þórir Ólafsson kosinn
formaður og Sigurður Páll Hauksson varaformaður. Anna
Þórðardóttir var kosin meðstjórnandi til tveggja ára og
Jóhann Unnsteinsson til eins árs. Uppstillingarnefnd hafði
lagt fram tillögur um nýtt fólk í nefndir og var það samþykkt
mótatkvæðalaust.
Árstillag félaga kr. 90.000 var borið upp og samþykkt án
umræðu. Aðalfundi lauk svo með því að undir liðnum önnur
mál voru nýjar siðareglur endurskoðenda bornar upp og
samþykktar.
Þórir nýkjörinn formaður ræðir við Sigurð framkvæmdastjóra.
Margret G. Fióvenz fráfarandi formaður FLE.
FLE blaðið janúar 2010 *23