Feykir


Feykir - 26.11.2015, Blaðsíða 4

Feykir - 26.11.2015, Blaðsíða 4
2 01 54 Páll Þórðarson á Blönduósi var 15 ára þegar hann greindist með krabbamein í beinvef „Sýndi ótrúlegan karakter allan tímann“ Í byrjun síðasta árs greindist Páll Þórðarson, sem þá var nemandi í 10. bekk í Blönduskóla á Blönduósi, með krabbamein í beinvef sem einnig hafði dreift sér í lungu. Palli, eins og hann er oftast kallaður, er sonur Ásdísar Arinbjarnardóttur og Þórðar Pálssonar. Hann á tvær systur, Hrafnhildi Unu 18 ára og Kristínu Helgu 8 ára. Fljótlega var sett af stað söfnun fyrir fjölskylduna, sem samstarfsfólk Ásdísar og Þórðar við Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi stóð fyrir, en þau þurftu að dvelja langdvölum í Reykjavík vegna meðferðar sem Palli gekkst undir. Tókst meðferðin vel og hann er nú á góðum batavegi. Feykir spjallaði við fjölskylduna skömmu fyrir aðventuna og fékk að heyra af ferlinu frá því að Palli greindist og líðan hans í dag. Fyrstu einkennin sem Palli fann fyrir voru að hann var orðinn haltur og með verki í mjöðm. Farið var með hann til heimilislæknis í byrjun desember 2013. „Tekin var röntgenmynd sem ekki sýndi neitt. Niðurstaðan var að Palli væri með mislanga fætur og talað um að hann þyrfti að fá innlegg,“ rifja foreldrarnir upp. Í framhaldinu var gerð beiðni til bæklunarlæknis sem Palli hitti svo 17. janúar 2014. Aftur var tekin röntgenmynd sem sýndi ekkert frekar en sú fyrri, en læknirinn vildi senda hann í segulómun sem allra fyrst. Hann hringdi því á Akureyri og fékk tíma 20. janúar. „Í segulómuninni sést síðan þessi fyrirferð á lærleggshálsinum. Í framhaldinu fórum við til Reykjavíkur og hittum Ólaf Gísla krabbameinslækni, sem staðfesti þennan hræðilega grun um að um krabbamein væri að ræða,“ segja Ásdís og Þórður. Krabbameinið sem Palli greindist með kallast osteosar- coma og er krabbamein í beinvef. Síðar kom í ljós að það hafði dreift sér og var einnig komið í lungu. Aðspurð um hver hefðu verið þeirra fyrstu viðbrögð segja þau Ásdís og Þórður: „Sjokk og dofi, maður trúði ekki að þetta væri að gerast. Palli sýndi ótrúlegan karakter og greip strax setninguna sem læknirinn sagði - „Það er hægt að meðhöndla þetta“ - og þannig var hann alla meðferðina. Sýni var tekið úr æxlinu til greiningar, sem tók viku. Líklega var þessi bið erfiðasti tíminn í ferlinu.“ Þegar búið var að staðfesta hvaða tegund krabbameins væri um að ræða hófst meðferð eftir alþjóðlegum leiðbeiningum. Ljóst var að þetta væri margra mánaða ferli, að lágmarki 30 vikur, lyfjameðferðir og skurðaðgerðir. „Það var ákveðinn léttir þegar meðferðin byrjaði. Þá var verið að gera eitthvað í málunum,“ segir Ásdís. Fjölskyldan fékk íbúð í Reykjavík hjá Styrktarfélagi krabbameinsveikra barna. „Þar gátum við verið eins og við þurftum. Við vorum síðan meira og minna fyrir sunnan þennan tíma, þó við kæmumst norður af og til milli meðferða. Stelpurnar voru fyrir norðan; Hrafnhildur Una í MA en Kristín Helga flutti til afa og ömmu í Sauðanesi og hélt áfram í Blönduskóla,“ bæta þau við. „Það var voða lítið eftir af daglegu lífi þennan tíma. Við vorum lítið eða ekkert í vinnu og mættum góðum skilningi vinnuveitenda. Palli reyndi eftir mætti að nýta sér kennslu á Barnaspítala Hringsins og með frábærri aðstoð kláraði hann 10. bekk með láði þrátt fyrir veikindi. Til stóð að meta hann til einkunna en það tók hann ekki í mál. Prófin vildi hann taka þó að á þeim tíma væri hann rúmfastur og algjörlega þróttlaus. Hann stóð sig frábærlega allan tímann. Markmiðið var alltaf skýrt í kollinum á honum, að láta sér batna,“ segja foreldrarnir. „Honum var náttúrulega kippt út úr félagslífinu en var duglegur að spjalla við vini á Facebook og Skype. Krakkarnir voru líka duglegir að hafa samband ef þau voru í bænum og heimsækja hann ef hann var heima.“ Eins og nærri má geta var þetta ferli líka mikið álag á systurnar Hrafnhildi Unu og Kristínu Helgu. Í upphafi voru þær boðaðar í viðtal með foreldrunum og hittu teymi sem sá um mál fjölskyldunnar. „Málin voru rædd opinskátt og ýmsum spurningum svarað. Talið var rétt að þær héldu áfram í sínu umhverfi en þær komu náttúrulega oft suður,“ útskýra Ásdís og Þórður. Fór í helgarfrí eftir krabbameinsmeðferðina og skellti sér svo í MA Palli þurfti að fara í tvær stórar skurðaðgerðir, eina á brjóstholi til að fjarlægja meinvörpin úr lungunum, og aðra þar sem æxlið í lærleggnum var fjarlægt og settur gerviliður í mjöðmina. Auk þess fór hann í fleiri smærri aðgerðir og 18 lyfjameðferðir. Meðferð lauk í lok september 2014 og að loknu helgarfríi skellti Palli sér beint í MA, þar sem hann er á öðru ári í framhaldsskóla í dag. Ásdís er hjúkrunarfræðingur við Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi en Þórður er naut- griparæktarráðunautur hjá RML og sjúkraflutningamaður. Að- spurð segja þau að það hafi bæði haft kosti og galla í þessu ferli að vera heilbrigðisstarfsmenn. „Stundum er gott að vita hlutina og stundum ekki. Líklega hefur það samt oftar hjálpað. Við gátum til dæmis oftar verið heima, því við treystum okkur til að gera ýmsa hluti sem aðrir foreldrar hefðu kannski ekki gert.“ Eins og lesendur Feykis ef- laust muna fór af stað söfnun fyrir Palla og fjölskyldu hans, undir slagorðinu „Áfram Palli nagli!“ Það var samstarfsfólk Ásdísar og Þórðar við Heil- brigðisstofnunina sem átti frumkvæðið að henni. „Það er ómetanlegt að finna allan þennan stuðning og þurfa ekki að hafa peningaáhyggjur ofaná allt annað, því mikill kostnaður fylgir svona ferli. Við fundum fyrir góðum stuðningi alls staðar og ekki síst frá starfsfólki Barnaspítala Hringsins. Símtöl frá vinum og komment á fésinu björguðu líka oft deginum. Við viljum koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem studdu okkur á einn eða annan hátt.“ „Nú er rúmt ár frá því Palli lauk meðferð og hann fer í eftirlit á þriggja mánaða fresti, sem alltaf hefur komið vel út. Hann er enn í endurhæfingu og hefur ekki náð fullum þrótti en það kemur í rólegheitum. Hann er í öðrum bekk í MA og gengur það ágætlega. Svona lífsreynsla hefur auðvitað áhrif, hlutirnir eru ekki sjálfgefnir og mikilvægt að lifa í núinu. Við vitum aldrei hvað verður á morgun,“ sögðu þau Ásdís og Þórður, foreldrar Palla, að lokum. VIÐTAL Kristín Sigurrós Einarsdóttir Palli á góðri stundu sumarið 2015. MYNDIR: ÚR EINKASAFNI Palli t.v. ásamt vini sínum Arnari Frey Ómarssyni. F.v.: Palli, Hrafnhildur Una, Ásdís og neðst Kristín Helga og Þórður. Styrktarhópur Palla nagla í Reykjavikurmaraþoni 2014.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.