Morgunblaðið - 19.01.2018, Qupperneq 27
MINNINGAR 27
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. JANÚAR 2018
kennari og var eftir því tekið hvað
hún var áfram um að nemendur
hennar gætu náð sem hæstum
einkunnum. Við sem höfum unnið
með Margréti minnumst hennar
m.a. sem eldhuga og ósérhlífins
dugnaðarforks. Hún vílaði ekki
fyrir sér að ganga í hvaða starf
sem var á rannsóknastofunni ef á
þurfti að halda. Hún hafði jafn-
framt mikinn áhuga á grunnrann-
sóknum í veirufræði og er þekkt
fyrir rannsóknir sínar á árangri
bólusetninga gegn rauðum hund-
um svo og rannsóknir sínar á
hæggengum veirusýkingum.
Segja má að allan sinn starfsferil
hafi hún stundað rannsóknir á
visna-mæðiveirunni, og á bólu-
setningum gegn þeirri veiru eftir
að alnæmisveiran, önnur hæg-
geng veirusýking, kom til sög-
unnar. Löngu eftir að hún hætti
störfum hjá Háskóla Íslands fyrir
aldurs sakir, stundaði hún rann-
sóknir sínar á bólusetningum
gegn visna-mæðiveirunni, bæði
hér á Íslandi og á eynni Kýpur.
Segja má að grunnurinn að
rannsóknastofu í veirufræði hafi
verið lagður sumarið 1974, þegar
Margrét flytur starfsemi sína frá
Keldum á Landspítalalóðina í hús
gamla þvottahúss Landspítalans.
Margrét réð nokkra nýja starfs-
menn þarna um vorið til viðbótar
við þá sem fyrir voru á Keldum.
Flestir þeirra voru nýútskrifaðir
BS líffræðingar, sem setið höfðu
veirufræðinámskeið sem Mar-
grét kenndi.
Margrét var hrifnæm og átti
auðvelt með að hrífa fólk með sér
í áhuga á faginu. Okkur fannst við
vera þátttakendur í uppbyggingu
rannsóknastofunnar. Margrét
studdi starfsfólk sitt með ráðum
og dáð t.d. til að fara á námskeið
og ráðstefnur. Þarna komu líka
við margir fyrrverandi sam-
starfsmenn og vinir Margrétar
og fengu kaffi – allt skemmtilegt
og áhugavert fólk. Fyrstu árin í
gamla þvottahúsinu hafa alltaf
verið sveipuð ljóma í minning-
unni. Mikið þurfti auðvitað að
hugsa um „fjármálin og kerfið“
og þegar prófessor Margrét fór í
slíka leiðangra brá hún sér í sér-
stakt köflótt pils, sem hún nefndi
stríðspilsið og setti á sig varalit.
Rannsóknastofan flutti síðan árið
1988 í Ármúla 1A í rúmgott hús-
næði og vel tækjum búið. Mar-
grét barðist fyrir því að þetta yrði
eins vel úr garði gert og kostur
var og við búum enn að því á
veirufræðinni.
Við minnumst Margrétar með
hlýhug og virðingu og vottum að-
standendum hennar innilega
samúð okkar.
Fyrir hönd starfsfólks Sýkla-
og veirufræðideildar Landspítal-
ans,
Karl Gústaf Kristinsson og
Þorgerður Árnadóttir.
Margrét Guðnadóttir læknir
frá Landakoti á Vatnsleysu-
strönd féll frá 2. janúar 2018 tæp-
lega 89 ára að aldri. Hún hóf störf
við Tilraunastöð Háskólans að
Keldum nokkru eftir 1948, í
fyrstu undir leiðsögn Björns Sig-
urðssonar frá Veðramóti, en síð-
an í samvinnu við hóp annarra
sérfræðinga, sem vann við skil-
greiningu á smitandi búfjársjúk-
dómum og baráttu við þá. Það
voru þeir Páll Agnar Pálsson síð-
ar yfirdýralæknir og Halldór
Grímsson efnafræðingur auk
Björns Sigurðssonar, Guðmund-
ur Gíslason læknir frá Húsavík og
Halldór Þormar frá Laufási. Hér
má einnig nefna Halldór Vigfús-
son frá Engey, aðstoðarmann
Guðmundar. Hann naut sérstakr-
ar virðingar fyrir víðtæka þekk-
ingu og nákvæmni í starfi m.a. við
krufningar og sýklarækt þótt
ekki hefði hann lokapróf í lækn-
isfræði og loks nefni ég „Steina
gamla“, Þorstein Þorsteinsson
frá Háholti, sem var alhliða hjálp-
arhella, viðgerðamaður og smiður
á tré og járn. Þetta voru frum-
herjar, sem eg kynntist á Keld-
um, er eg kom þangað fyrst til
sumarstarfa árið 1963, harðsnú-
inn hópur og samstilltur. Smám
saman fjölgaði rannsóknarmönn-
um.
Erfiðir sjúkdómar, allir skað-
legir og sumir bráðdrepandi
höfðu verið fluttir til landsins með
erlendu búfé og afurðum dýra,
sem verslunarmenn blindir af
gróðafíkn, kelkja enn við að fá
innflutt eins og hrátt ket o.fl. þótt
hættan sé augljós (miltisbrandur,
salmonella, kamfylobakter, fjár-
bóla, fjárkláði o.fl. sníkjudýr,
hringskyrfi, karakúlsjúkdómarn-
ir: votamæði , þurramæði og
visna, seinna: mæði/visna, garna-
veiki o.fl.). Þessa dýrasjúkdóma
þekkti Margrét vel og vissi, hve
sérstaða okkar vegna heilbrigðis
og hreinleika er dýrmæt. Mar-
grét var föðurlandsvinur og öfl-
ugur landvarnarmaður, sem
barðist fyrir heilsuvernd fólks og
húsdýra. Iðulega var til hennar
leitað varðandi dýrasjúkdóma,
einnig eftir að hún var hætt að
vinna. Skoðanir hennar vógu
þungt. Nú er skarð fyrir skildi,
þegar Margrét er horfin úr varn-
arliðinu. Hún bjó á Keldum og
börnin hennar tvö: Guðni og Ey-
dís léku sér í túninu við stöðina og
urðu vinir okkar. Hún var gam-
ansöm, hagorð, hnyttin og hittin.
Hún var eftirminnileg og
skemmtilegur samstarfsmaður
en ekki allra. Hún þagði ekki yfir
því sem sem hún taldi óhæft.
Kollegar hennar o.fl. fengu að
kenna á beittum athugasemdum
hennar. Hún varð fyrst kvenna
prófessor við Háskóla Íslands
1969, brautryðjandi þar og víðar.
Störfum Margrétar lauk þó ekki
á Keldum.
Flesta daga fram á síðustu ár
vann hún fullan vinnudag á rann-
sóknarstofunni í Ármúla, löngu
eftir að hún var hætt launuðum
störfum. Ég sótti þangað ráð og
við bárum saman bækur um varn-
ir gegn smithættu af innflutningi.
Eftir að mæði og visna höfðu
verið skilgreind og í ljós kom að
um lenti-veiru var að ræða, sama
flokk og veldur eyðni hjá fólki, hóf
hún þróun bóluefnis með vísinda-
mönnum á Kýpur, Þar er mæði-
veiki útbreidd og skaðleg. Rann-
sóknir hennar og frekari
rannsóknir á Keldum eru allrar
athygli verðar vegna eyðni. Mar-
grét var hófsöm, hlóð ekki undir
sig og vildi ekki láta aðra hafa fyr-
ir sér.
Sigurður Sigurðarson
dýralæknir.
Margrét Guðnadóttir hefur
verið, með tilveru sinni, sérlega
áberandi leiðarvísir fyrir menn-
ingarlegar persónur eins og mig:
Faðir minn, Baldur Líndal,
efnaverkfræðingur, kynnti hana
fyrir mér sem unglingi, á rann-
sóknarstofunni að Keldum. En
líkt og hann hafði hún lært í
Bandaríkjunum, og orðið svo
frægur vísindamaður hér. Og líkt
og móðir mín, þaðan, Amalía Lín-
dal, varð hún ein af áberandi
menntakonunum hér.
Seinna starfaði svo mín kæra
frænka, Áslaug E. Bergsdóttir,
líffræðingur, heitin, hjá henni, og
gerðumst við þá málkunnug. Mér
þótti menningarlegt hvað hún átti
listrænt metnaðarfull tónlistar-
börn.
Svo hitti ég hana á fundi hjá
MÍR, og loks gaf ég henni nýlega
áritaða ljóðabók mína á kaffi-
húsahópasamkomu, í tilefni alls
þessa!
Í þeirri ljóðabók kemur fyrir
vísa sem hefur höfðað til áhuga
hennar á Rússlandi en það er í
bálkinum Pútíns ríma II, og þar
segir svo:
Vestur Úkraínar vilja líta,
viðurkenna ekki Rússlands eign.
Landamærahéruð þess lands sýta;
láta Rauða herinn dufla feikn.
Tryggvi V. Líndal.
Margrét Guðnadóttir var
sögupersóna á bernskuheimili
mínu. Sagan var um ungu stúlk-
una sem kom af Vatnsleysu-
strönd fyrir miðja síðustu öld og
settist á skólabekk í Menntaskól-
anum í Reykjavík. Á Vatnsleysu-
strönd réri hún til fiskjar með
pabba sínum. Duglega stúlkan
Margrét lauk stúdentsprófi frá
stærðfræðideild, barðist til há-
skólanáms í læknisfræði og til
framhaldsnáms, og varð mikill
vísindamaður. Þessi góða saga
var sögð af foreldrum mínum sem
voru bekkjarsystkini Margrétar.
Svipuð saga var sögð á heimilum
annarra bekkjarsystkina sem
luku stúdentsprófi 1949 og hafa
með sér einstakan félagsskap og
vináttu. Okkur í næstu kynslóð
var sagan bæði holl og góð. Það
var einnig lærdómsríkt að sjá að
virðing og gömul vinátta úr skóla
á að vera sterk, sterkari en
flokkspólitískar skoðanir. Það
heyrði ég bæði hjá foreldrum
mínum, sem voru sjálfstæðisfólk,
og Margréti sjálfri, vinstri kon-
unni. Margs kyns skilningur get-
ur líka verið sameiginlegur, eins
og mikilvægi almennilegs há-
skólanáms á Íslandi var í huga
þessa fólks.
Margrét Guðnadóttir var skip-
uð prófessor við Háskóla Íslands
fyrst kvenna. Það var árið 1969.
Prófessorsstaðan var í sýklafræði
við Læknadeild háskólans. Mar-
grét kenndi við fleiri deildir Há-
skóla Íslands, alls staðar við mjög
góðan orðstír. Margrét rannsak-
aði sýkingar og bólusetningar á
Tilraunastöðinni að Keldum strax
meðan á læknanáminu stóð og
áfram eftir námið. Hún fékk síðan
styrk til tveggja ára framhalds-
náms við Yale-háskóla í Banda-
ríkjunum. Eftir að heim kom var
Margrét ráðin sérfræðingur í
veirufræði við Tilraunastöðina á
Keldum. Margrét setti upp Rann-
sóknastofu háskólans í veirufræði
við Landspítalann árið 1974. Al-
þjóðlega varð Margrét þekktust
fyrir rannsóknir á visnuveirunni
og bóluefni gegn sýkingu af völd-
um hennar. Þær rannsóknir urðu
mjög mikilvægar í baráttunni við
aðra veirusjúkdóma. Margrét var
sæmd heiðursdoktorsnafnbót við
Læknadeild 2011 fyrir framlag
sitt til veirufræðinnar.
Margrét Guðnadóttir prófess-
or var fyrsta konan sem hlaut
verðlaun fyrir vísindastörf úr
verðlaunasjóði Ásu Guðmunds-
dóttur Wright. Það var árið 1993,
en sjóðurinn var stofnaður 1968
og á því fimmtíu ára afmæli í ár.
Ása Guðmundsdóttir Wright sá
til þess í samvinnu við Vísinda-
félag Íslendinga að sjóðurinn yrði
stofnaður. Tíu ár liðu áður en
kona hlaut öðru sinni Ásuverð-
launin. Tilgangur sjóðsins er að
veita árlega viðurkenningu Ís-
lendingi sem unnið hefur veiga-
mikið vísindalegt afrek á Íslandi
eða fyrir Ísland. Síðastliðin ár
hefur Margrét Guðnadóttir hitt
félaga sína þegar Ásuverðlaun
eru afhent.
Margrét var ákaflega stolt af
afkomendum sínum. Ömmubarn
hennar leggur nú stund á dokt-
orsnám við Hjúkrunarfræðideild.
Ekki þótti Margréti slæmt að
rannsóknarefni alnöfnu hennar
væri heimahjúkrun enda færni
ömmubarnsins á því sviði staðfest
af bekkjarfélögunum í stúdents-
árgangi M.R. 1949.
Ég þakka Margréti Guðna-
dóttur prófessor einstaklega
góða viðkynningu, kennslu og
störf í heilbrigðisvísindum við
Háskóla Íslands. Hugurinn er hjá
aðstandendum hennar.
Inga Þórsdóttir, prófessor,
forseti Heilbrigðisvís-
indasviðs HÍ.
Ég ætlaði að verða lífeðlis-
fræðingur og tók öll námskeið í
lífeðlisfræði, sem mér stóðu til
boða. Í lokin vantaði mig tvær
einingar til að klára B.Sc. gráðu í
líffræði. Þá rakst ég á kynningu á
tveggja eininga námskeiði í veiru-
fræði. Kennari: Margrét Guðna-
dóttir, prófessor. Skráði mig í
hvelli, trúlega auðveldustu tvær
einingar sem ég gæti nælt mér í.
Í minningunni var þetta nám-
skeið hálfgerð óreiða, en á þess-
um stutta tíma kviknaði neisti,
sem varð að báli. Margréti tókst
sem sagt það, sem margan kenn-
arann sjálfsagt dreymir um en
upplifir sjaldan, að vekja slíkan
áhuga á námsefninu að maður tók
nánast u-beygju, áður ákveðnum
framtíðaráformum kastað fyrir
róða og ný markmið sett.
Kannski eins gott við vorum ekki
nemendur hennar í stjórnmála-
fræði. Þá værum við öll stalínist-
ar.
Skömmu síðar var ég byrjaður
í s.k. fjórða árs verkefni undir
handleiðslu Margrétar. Hún
kenndi mér upphafsstefin í vís-
indalegri nálgun á viðfangsefnið,
var ólöt við að leiðbeina og ræða
niðurstöður og túlkun þeirra og
síðast en ekki síst að gæta þess að
ungur ofurhugi oftúlkaði ekki nið-
urstöður rannsókna sinna. Hún
hvatti mig til dáða og þegar ég
ákvað að fara í framhaldsnám í
veirufræði, kvaddi Margrét mig
með þeim orðum að ef ég kæmi til
baka, ætti ég vísa vinnu hjá henni.
Og hún stóð við það.
Margrét gat verið hvassyrt og
þver, en þess á milli ræðin og
glaðsinna og hreinlega bráðfynd-
in, þegar hún var í stuði. Hún var
einstaklega vinnufús, samvisku-
söm og orðheldin, stóð með sínu
fólki. Hvernig hún fór að því að
ráða okkur öll í vinnu, sem snér-
um aftur úr langskólanámi, er
mér hulin ráðgáta. Hún hefur
sennilega klæðst skotapilsinu,
stríðspilsinu eins og það var kall-
að á rannsóknastofunni og tuskað
til einhverja kerfiskarla? Mar-
grét var alltaf að berjast. En hún
var líka glöggur vísindamaður
með víðtæka þekkingu og skiln-
ing á sínu fagi. Mér er minnis-
stætt þegar alnæmi skall á heims-
byggðinni eins og hvirfilbylur.
Við vorum að ræða þessa nýju vá,
en flestir þá þegar sammála um
að þetta væri smitsjúkdómur og
margar vel þekktar veirur nefnd-
ar sem mögulegir orsakavaldar.
„Þetta er retróveira“, sagði Mar-
grét íbyggin og það kom á daginn.
Þegar Margrét lét af störfum
fyrir aldurs sakir, hóf hún að nýju
rannsóknir sínar á visnu. Hana
langaði til að þróa bóluefni gegn
visnuveirunni og taldi að ef vel
tækist til gæti það orðið módel
fyrir bóluefni gegn HIV. Ég hafði
þá skipt um starfsvettvang fyrir
allmörgum árum og var í aðstöðu
til að útvega henni ýmislegt smá-
legt fyrir rannsóknir hennar. Við
sátum stundum og ræddum til-
raunir hennar og niðurstöður,
hún fyrir löngu búin að fyrirgefa
mér að hafa gengið kapítalisman-
um á hönd. Þegar hún varð átt-
ræð færði ég henni konfektkassa
og blóm. Margréti fannst þetta
óþarfa bruðl en ég held hún hafi
samt verið ánægð og spurði hana
hvort hún ætlaði ekki að fara að
hætta þessu brölti, setjast í helg-
an stein. „Og gera hvað?“, svaraði
hún hvasst. „Drepast úr leiðind-
um“.
Merk kona er fallin frá, en
minning þín lifir, Margrét Guðna-
dóttir.
Ari Kr. Sæmundsen.
Ég kveð með söknuði Margréti
Guðnadóttur, veirufræðing og
prófessor. Margrét var afkasta-
mikill vísindamaður, frumkvöðull
á sviði veirurannsókna og bólu-
setninga, baráttumaður fyrir
jafnrétti og betra samfélagi og
mikill umhverfissinni.
Ég kynntist Margréti á Keld-
um þegar ég vann á rannsókna-
stofu Guðmundar Eggertssonar
erfðafræðings. Þetta var
skemmtilegur tími. Ég var þá í
grunnnámi í Háskóla Íslands og
fór eftir skólatíma með strætó
upp að Keldum. Þar fékk ég að
taka þátt í að setja upp nýja rann-
sóknastofu Guðmundar í sam-
eindaerfðafræði og kynntist því
góða fólki sem þar starfaði að
rannsóknum. Margrét var ein-
stök. Hún hafði sterkar skoðanir
á flestum hlutum og var ekkert að
liggja á þeim. Það var oft mjög líf-
legt á kaffistofunni þó að kaffið
væri nær ódrekkandi.
Þegar ég kom heim eftir dokt-
orsnám réð Margrét mig tíma-
bundið til starfa. Henni fannst
ótækt að ég hefði ekki rannsókna-
aðstöðu. Ég fékk frjálsar hendur
um hvað ég vildi rannsaka. Þetta
voru spennandi tímar bæði í
veirufræði og erfðafræði krabba-
meina. Æxlisgen voru þá upp-
götvuð og skilgreind, fyrst í
veirum en síðar í dýrum og mönn-
um. Margrét fékk mig til að
kenna læknanemum það nýjasta í
sameindaveirufræði. Hún sýndi
þessu mikinn áhuga og sat í öllum
tímum. Rannsóknir á æxlisgen-
um og síðar æxlisbæligenum áttu
eftir að gegna lykilhlutverki í
mínu ævistarfi.
Margrét var vísindamaður af
lífi og sál. Hún hóf rannsókna-
störf á Keldum meðan hún var
enn í læknanámi. Hún starfaði
þar með Birni Sigurðssyni, for-
stöðumanni Keldna, sem „kenndi
henni vel“ eins og hún orðaði það.
Hér gekk alvarlegur mænusótt-
arfaraldur 1955 og fyrstu verk-
efni Margrétar tengdust honum.
Björn sendi þennan frábæra
nemanda út til að læra hvernig
mænusóttarbóluefni væri búið til.
Margrét fór til Englands og svo
til Bandaríkjanna í þessum til-
gangi og fékk svo styrk úr Vís-
indasjóði til framhaldsnáms við
Yale-háskóla. Rannsóknir á hæg-
gengum veirusýkingum sem hóf-
ust undir stjórn Björns Sigurðs-
sonar eru án efa merkasta
framlag Íslendinga í lífvísindum.
Björn lést langt um aldur fram
árið 1959, en rannsóknum á
visnuveiru var haldið áfram af
Margréti og öðru samstarfsfólki.
Síðustu áratugi vann Margrét að
því að búa til bóluefni gegn visnu.
Þegar hún varð að „hætta störf-
um“ vegna aldurs, fékk hún að-
stöðu á Kýpur. Margrét er höf-
undur fjölda merkra
vísindagreina, en varð hvað
ánægðust að birta, ásamt grísk-
um samstarfsmönnum, niður-
stöður bólusetninga kinda á Kýp-
ur 2013. Síðasta greinin kom svo
út 2017 með vísindafólki frá Keld-
um, Landspítala og Háskóla Ís-
lands um sameinda- og ónæmis-
fræðirannsóknir á þessari merku
veiru.
Við ræddum margt þegar ég
heimsótti Margréti á Landspítal-
ann, stuttu fyrir jól. Þar á meðal
hennar hjartans mál, bólusetn-
ingar. Hún hresstist mjög við
það, þó að við vissum báðar að nú
yrðu aðrir að taka við keflinu.
Margrét var stór í sniðum, en líka
lítillát, hrein og bein og skemmti-
leg. Það eru forréttindi að hafa
notið vináttu hennar.
Ég sendi Guðna, Eydísi,
barnabörnum og fjölskyldu inni-
legar samúðarkveðjur.
Jórunn Erla Eyfjörð.
Kveðja frá læknadeild
Margrét Guðnadóttir flutti
hátíðarerindi um rannsóknir sín-
ar á hægfara veirusýkingum á
140 ára afmælishátíð læknanáms
á Íslandi í lok árs 2016, þá 87 ára
að aldri. Erindið var leiftrandi vel
flutt og ljóst að lífsneistinn og
áhugi hennar á veirum og bólu-
setningum var jafn brennandi og
30 árum áður þegar ég naut
kennslu hennar í læknadeild.
Margrét var eftirminnilegur
kennari, hreinskiptin, jarðbundin
og fylgdi óhrædd sannfæringu
sinni. Áhugi hennar á veirum
vaknaði í líffræðitímum í mennta-
skóla og réði nokkru um að hún
valdi að nema læknisfræði í Há-
skóla Íslands. Að loknu lækna-
námi vorið 1956 réði hún sig til
starfa hjá dr. Birni Sigurðssyni á
Tilraunastöð Háskóla Íslands í
meinafræði að Keldum. Þar fékk
hún að eigin sögn ómetanlegan
grunn í aðferðafræði vísinda og
öguðum vinnubrögðum, grunn
sem átti eftir að nýtast henni vel í
sérnámi og síðar á langri starfs-
ævi. Margrét hélt 1957 til náms í
Bretlandi um hríð og nam síðan í
tvö ár við Yale-háskóla í Banda-
ríkjunum. Árið 1960 sneri hún
heim og var ráðin sérfræðingur
við Tilraunastöðina á Keldum.
Margrét varð fyrsta konan til
að gegna embætti prófessors við
Háskóla Íslands þegar hún var
skipuð prófessor í sýklafræði við
læknadeild árið 1969. Um nýja
stöðu var að ræða og það kom í
hennar hlut að byggja upp og
þróa kennslu í sýklafræði við
deildina. Hún var vel metinn
kennari enda vart annað hægt en
hrífast af eldmóði hennar og
áhuga á viðfangsefninu. Árið 1974
var hún fengin til að setja á lagg-
irnar rannsóknarstofu Landspít-
alans í veirufræði og veitti hún
henni forstöðu til ársins 1994.
Hún gegndi embætti prófessors í
sýklafræði og síðar veirufræði við
læknadeild til 1999 en hélt áfram
störfum við rannsóknir á veirum
og bóluefnum fram á síðasta ár á
rannsóknarstofu í veirufræði.
Margrét var sæmd heiðursdokt-
orsnafnbót frá læknadeild árið
2011 og árið 2014 var hún gerð að
heiðursfélaga í Læknafélagi Ís-
lands. Margrét sóttist þó ekki eft-
ir vegtyllum. Veirurnar voru
hennar ær og kýr og yfir rann-
sóknum á þeim var hún vakin og
sofin á sínum langa starfsferli.
Hún var einnig ötul baráttukona
fyrir náttúrvernd. Hennar dag-
lega líf virtist mér einkennast af
vissum minimalisma í þeim skiln-
ingi að hún hleypti ekki tækni nú-
tímans nema að hluta til inn í líf
sitt á seinni árum. Þannig eru
undirrituðum minnisstæð sam-
skipti við hana fyrir nokkrum ár-
um þegar hún skrifaði umbeðin
afmælisgrein í Læknablaðið. Sem
ritstjóri blaðsins á þeim tíma
reyndi ég fyrst að ná í hana í far-
síma og síðan með tölvupósti en
hún reyndist þá nota hvorugt.
Mér tókst loks að ná í Margréti í
heimasíma að kvöldlagi. Hún tók
bón minni vel. Nokkrum dögum
síðar færði hún mér handritið
uppi á Landspítala, vélritað á
pappír með ritvél upp á gamla
mátann. Þar var allt upp á punkt
og prik eins og hennar var von og
vísa.
Margir læknar og aðrir sam-
starfsmenn hafa minnst Mar-
grétar með hlýhug á samskipta-
vefjum nútímans eftir að hún féll
frá. Minning hennar lifir og hvet-
ur þá sem henni kynntust til
góðra verka.
Engilbert Sigurðsson,
forseti læknadeildar
Háskóla Íslands.
Fleiri minningargreinar
um Margréti Guðnadótt-
ur bíða birtingar og munu
birtast í blaðinu næstu daga.
Útfararþjónusta
Vönduð og persónuleg þjónusta
athofn@athofn.is - www.athofn.is
ATHÖFN ÚTFARAÞJÓNUSTA - s: 551 7080 & 691 0919
Inger Steinsson