Morgunblaðið - 16.03.2018, Síða 25
UMRÆÐAN 25
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. MARS 2018
Greiðsluáskorun
Innheimtumenn ríkissjóðs skora hér með á gjaldendur eftirtalinna
gjalda að gera skil nú þegar eða í síðasta lagi innan 15 daga
frá dagsetningu áskorunar þessarar:
Gjöldin eru: Staðgreiðsla tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds sem fallið hefur í eindaga til
og með 15. mars 2018, virðisaukaskattur sem fallið hefur í eindaga til og með 5. mars 2018 og
önnur gjaldfallin álögð gjöld og ógreiddar hækkanir er fallið hafa í eindaga til og með 15. mars
2018, á staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds, virðisaukaskatti, virðisaukaskatti
í tolli, vanskilum launagreiðenda á gjöldum í og utan staðgreiðslu, fjármagnstekjuskatti á
skilaskylda aðila, áfengisgjaldi, bifreiðagjaldi, úrvinnslugjaldi, olíugjaldi, kílómetragjaldi, gisti-
náttaskatti, fjársýsluskatti, vinnueftirlitsgjaldi, vörugjaldi af innlendri framleiðslu, vörugjaldi af
ökutækjum, eftirlitsgjöldum, árgjöldum, aðflutningsgjöldum, skilagjaldi á umbúðir, fasteigna-
gjöldum, skipulagsgjaldi, skipagjöldum, jarðarafgjaldi, sektum skattrannsóknarstjóra,
ofgreiddri uppbót á eftirlaun, eftirlitsgjaldi Fjármálaeftirlitsins, árgjaldi handhafa markaðsleyfis,
veiðigjaldi og álögðum þing- og sveitarsjóðsgjöldum, sem eru:
Tekjuskattur og útsvar ásamt álagi á ógreiddan tekjuskatt og útsvar, útvarpsgjald,
gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, slysatryggingagjald vegna heimilisstarfa,
auðlegðarskattur og viðbótar auðlegðarskattur, fjármagnstekjuskattur ásamt álagi á
ógreiddan fjármagnstekjuskatt, ógreiddur tekjuskattur af reiknuðu endurgjaldi ásamt
álagi, búnaðargjald, sérstakur fjársýsluskattur, sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki,
jöfnunargjald alþjónustu, ofgreiddar barnabætur og ofgreiddar vaxtabætur.
Fjárnáms verður krafist án frekari fyrirvara að þeim tíma liðnum fyrir vangoldnum eftirstöðvum
gjaldanna ásamt dráttarvöxtum og öllum kostnaði, sem af innheimtu skuldarinnar kann að
leiða, á kostnað gjaldenda.
Athygli skal vakin á því að auk óþæginda hefur fjárnám í för með sér verulegan kostnað fyrir
gjaldanda. Fjárnámsgjald í ríkissjóð er allt að 19.100 kr. fyrir hvert fjárnám. Þinglýsingargjald
er 2.000 kr. auk útlagðs kostnaðar eftir atvikum. Eru gjaldendur hvattir til að gera full skil sem
fyrst til að forðast óþægindi og kostnað.
Þá mega þeir gjaldendur, sem skulda staðgreiðslu, staðgreiðslu tryggingagjalds, vörugjald,
afdreginn fjármagnstekjuskatt, áfengisgjald, fjársýsluskatt, gistináttaskatt og virðisaukaskatt,
búast við því að starfsemi þeirra verði stöðvuð án frekari fyrirvara, þeir gjaldendur er skulda
bifreiðagjöld og kílómetragjald mega eiga von á að skráningarnúmer verði tekin af ökutækjum
þeirra án frekari fyrirvara og þeir gjaldendur sem skulda gjöld þar sem lögveð fylgir mega
búast við að send verði út sérstök greiðsluáskorun fyrir gjaldföllnum kröfum. Greiðsluáskorunin
hefur ekki áhrif á þessi innheimtuúrræði þannig að fyrrgreindur 15 daga frestur frá dagsetningu
áskorunar þessarar gildir ekki í þessum tilvikum.
Reykjavík, 16. mars 2018
Tollstjóri
Sýslumaðurinn á Vesturlandi
Sýslumaðurinn á Vestfjörðum
Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra
Sýslumaðurinn á Austurlandi
Sýslumaðurinn á Suðurlandi
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum
Sýslumaðurinn á Suðurnesjum
Best hannaða
sjúkrahús í
Evrópu í Osló?
2005 fór ég í Norður-
landaferð þar sem leið-
in lá meðal annars til
Oslóar og Þrándheims.
Þar skoðaði ég tvö ólík
sjúkrahús og tók
myndir og viðtöl sem
gætu átt erindi heima á
Fróni vegna spurninga
og álitamála varðandi nýtt þjóðar-
sjúkrahús. Í Osló höfðu menn fundið
auða lóð eins miðsvæðis og unnt var
á norska höfuðborgarsvæðinu með
greiðum samgöngum í allar áttir.
Hannað var og reist sjúkrahús frá
grunni í stað þess að reyna að endur-
bæta eða reyna „bútasaum“ á
sjúkrahúsinu sem þá var í Osló.
Horft var eins langt fram og unnt
var, til hálfrar aldar hið minnsta, og
hafður í huga heildarávinningur af
framtíðarlausn, þótt hún kynni að
kosta eitthvert fé á því tímabili, sem
hið nýja hús væri að rísa á meðan hið
gamla væri í notkun. Í samtölum við
íslenska og norska lækna kom fram
að sjúkrahúsið þætti svo vel heppn-
að, að jafnvel væri talað um að það
væri best hannaða sjúkrahús Evr-
ópu.
„Víti til varnaðar“ í
Þrándheimi?
Þegar ég spurði um
sjúkrahús, sem hefði
verið stækkað og
endurbætt líkt og til
stæði á Íslandi bentu
þeir á sjúkrahúsið í
Þrándheimi. Upplagt
mál – ekkert erlent bú-
svæði líkist meira suð-
vesturhorni Íslands
hvað snertir stærð,
mannfjölda, veðurfar,
kjör og menningu en
Þrændalög og Þrándheimur. Sjúkra-
húsið þar hlítti vel kröfum fjölmiðl-
unar um jafnræði í upplýsingagjöf
með því að fjalla um tvær ólíkar
lausnir varðandi framtíðarsjúkrahús.
Tveir viðmælendur mínir nefndu
„víti til varnaðar“ varðandi „búta-
sauminn“ í Þrándheimi. Þegar þang-
að kom sást að lausnir voru svipaðar
og ætlunin er að nota við Hring-
braut, eldri byggingar notaðar, nýjar
reistar og byggingaklasi myndaður,
sem tengdur var saman með við-
byggingum og lokuðum brúm yfir
götur á milli húsa í bland við undir-
göng. Sjúkrahúsin í Osló og Þránd-
heimi vöktu spurningar sem gott
væri að hafa til hliðsjónar heima á
Fróni.
Endurbyggingarumræðan
nær einráð á Íslandi
Það frestaðist, þegar heim kom, að
búa til sjónvarpsfrétt um þetta, og
þegar til stóð að halda læknaþing
með fyrirlestri erlends sérfræðings
um málið var ákveðið að geyma um-
fjöllun í sjónvarpi þar til þá. Og hver
skyldi svo hafa haldið þennan fyrir-
lestur um þá aðferð sem hann var
sérfræðingur í? Jú, efni fyrirlesturs-
ins var hvernig best væri að stækka
og endurbæta eldri sjúkrahús!
Enginn annar sérfræðingur kom
þar fram sem hafði aðra sýn á málið.
Það sem ég hafði komið með heim
úr Noregsferðinni drukknaði í þeirri
athygli sem hinn alþjóðlegi sérfræð-
ingur fékk. Leið nú og beið í flóði
frétta af spilaborg bankanna og við-
skiptalífsins og ég fór á eftirlaun.
Um síðir dúkkaði þó upp að talað
yrði við erlendan sérfræðing um
hönnun sjúkrahúsa í Kastljósi. Ég
beið eftirvæntingarfullur, – nú
myndi loks fást æskilegt jafnvægi í
umræðuna. Svo kom viðtalið og geti
nú lesendur þessarar greinar upp á
hver átti lokaorð erlendra sérfræð-
inga í málinu – við hvern var talað.
Jú, auðvitað snillinginn sem hannaði
bútasauminn og „vítið til varnarðar“
í Þrándheimi! Málið útrætt, „game
over“. Þarna saknaði ég hönnuðar
sjúkrahússins í Osló.
Þegar umræðu er stýrt í krafti
aðstöðu og handvalinna
sérfræðinga
Allt frá 2005 hef ég haft efasemdir
um stefnuna í Landspítalamálinu,
stefnu, sem var tekin upp fyrir svo
löngu að erfitt er að rekja feril þess
aftur til raunverulegs upphafs. Ofan-
greint dæmi er umhugsunarefni
varðandi það hvernig hægt er að
beina umræðu í fjölmiðlum í ákveð-
inn farveg á þeim tíma þegar mest er
þörf á að kryfja til mergjar mismun-
andi sjónarmið og kynna helstu for-
sendur og álitaefni. Almennt má
segja að í flóknu alþjóðlegu tækni-
samfélagi geti valdamiklir menn
stýrt umræðu í krafti aðstöðu sinnar
og þekkingar þeirra sérfræðinga
sem þeir velja. Efasemdir mínar
hafa ekki minnkað frá 2005 heldur
jafnvel aukist. Margt hefur breyst
síðan 2005, þegar víðtækar húsa-
skemmdir vegna myglu og vanhugs-
aðs sparnaðar í viðhaldi voru nær
óþekktar hér á landi í þeim mikla
mæli sem nú er. Enn er stórum
spurningum ósvarað svo viðunandi
sé.
Þetta ber að gera en hitt
eigi ógert að láta
Mikið liggur við og mikið liggur á,
satt er það. En þannig hefur það ver-
ið allan tímann og það á ekki að koma
í veg fyrir það að tveir ólíkir kostir fá
jafn vandaða meðferð varðandi for-
sendur, upplýsingar og aðfengna er-
lenda sérfræðinga til að meta til
fulls, hver heildarkostaðurinn vegna
mismunandi kosta verði til langs
tíma, því að meirihluti þeirra sem
málið varðar, er ófæddur. Ef í ljós
kemur að endurbyggingastefnan sé
betri, þá það, en ef í ljós kemur að við
höfum gert mistök þegar til langs
tíma er litið, er skylda okkar að hika
ekki við að breyta um stefnu; – við
skuldum komandi kynslóðum það.
Sem vissa hliðstæðu má nefna að
unnið var að brýnum endurbótum á
vegi fyrir Hvalfjörð á sama tíma og
verið var að vinna að gerð Hvalfjarð-
arganga. Um mál af þessu tagi kann
nefnilega að gilda það sem Emil
Björnsson, fyrsti fréttastjóri Sjón-
varpsins, sagði stundum um svipuð
álitamál: „Þetta ber að gera en hitt
eigi ógert að láta.“
Besti spítalinn í Osló?
Víti til varnaðar í Þrándheimi?
Eftir Ómar
Ragnarsson
Ómar
Ragnarsson
Höfundur er áhugamaður um
kjör og jafnrétti borinna og
óborinna kynslóða.
omarr@ruv.is
» Báðir kostir fái jafn
vandaða meðferð
varðandi forsendur,
upplýsingar og að-
fengna erlenda sérfræð-
inga. Meirihluti þeirra
sem málið varðar er
ófæddur.
Ég er einn þeirra
óteljandi mörgu sem
hafa notið þeirrar
náðar að hafa fengið
að velja það að ylja
mér við hin guð-
dómlegu orð og fyrir-
heit sem frelsarinn
okkar Jesús Kristur
flutti okkur og gaf
með veru sinni og lífi.
Fengið að njóta feg-
urðar þeirra og leyft
þeim að leika um mig og setjast að í
hjarta mínu. Þau hafa einstaka him-
neska nærveru og dásamlega jarð-
tengingu.
Að eiga nafn sitt
ritað í lífsins bók
Það er svo óendanlega þakkar-
vert að fá að ausa með fögnuði og
teyga að sér í senn svalandi en einn-
ig vermandi orð lífsins lindar sem er
óskiljanlegur leyndardómur sem all-
ir mega þiggja og dýrmætari en allt
heimsins gull eða demantar, metorð
eða viðurkenningar. Því ævinnar
gleði getur verið eitthvað svo skelf-
ing skammvinn og velgengnin völt.
Sigrarnir sætir en kransarnir svo
ótrúlega fljótir að fölna. Hin varan-
lega gleði er fólgin í því að eiga nafn
sitt ritað í lífsins bók.
Orð lífsins bókar eru nefnilega
svo fádæma friðgefandi og veita
varanlega svölun við okkar eilífa
þorsta. Um leið og þau skerpa á nú-
vitund, því að lifa í núinu og njóta
stundarinnar og dagsins veita þau
okkur eilífa lífssýn.
Því að ég er þess fullviss að æv-
innar ljúfustu og bestu stundir séu
aðeins sem forrétturinn að þeirri
dýrð sem koma skal og lífið raun-
verulega er.
Það er því ómetanlegt að hafa
verið leiddur að þeim lindum og
hafa fengið að dreypa af í lífsins
stormi sér til endurnæringar og
uppörvunar. „Drottinn fer sjálfur
fyrir þér, hann verður með þér.
Hann mun hvorki sleppa af þér
hendinni né yfirgefa þig. Óttastu
ekki og láttu ekki hugfallast.“
Höfum annars ekki áhyggjur af
því hvað fólki finnst um Guð. Veit-
um því hins vegar at-
hygli hvað Guði finnst
um okkur. Málið snýst
nefnilega ekki um
hvaða hugmyndir við
höfum um Guð og ekki
um það hvernig Guð
við búum til í höfðinu á
okkur. Heldur um það
hvað Guði finnst um
mig og um þig. Hvers
virði þú ert í hans aug-
um. Og um það hvernig
þú velur að bregðast
við þeim tíðindum.
Í hans augum ert þú nefnilega
óendanlega dýrmæt manneskja sem
mun vara og ekkert fær eytt. Því að
þú ert elskuð eða elskaður af hon-
um út af lífinu. Eilífri ást. Af honum
sem er lífið sjálft!
Hann þrengir sér ekki inn í líf
eða hjarta nokkurs manns frekar en
þegar hann kom inn í þennan heim í
syni sínum, Jesú Kristi. Hann kom
ekki með mætti og mikilli dýrð
heldur fæddist sem ósjálfbjarga
barn af móður af holdi og blóði og
með tilfinningar. Hann kom ekki til
að verjast árásum heldur til að
finna kærleika Guðs farveg.
Bæn
Góði Guð, þú sem ert höfundur
og fullkomnari lífsins! Gefðu að ég
fái að vera farvegur kærleika þíns
og friðar, fyrirgefningar og fagn-
aðarerindis í öllu mínu lífi, dag
hvern, já, hverja stund. Vera sam-
ferðafólki mínu til uppörvunar og
blessunar og þannig þér til dýrðar
og sjálfum mér til heilla. Þess bið
ég, í Jesú nafni. Amen.
Með kærleiks- og friðarkveðju.
Lifi lífið!
Orð lífsins lindar
Eftir Sigurbjörn
Þorkelsson
Sigurbjörn
Þorkelsson
» Orð lífsins bókar
veita svölun við eilíf-
um þorsta. Skerpa á nú-
vitund, því að lifa í núinu
og njóta stundarinnar.
En þau veita einnig ei-
lífa lífssýn.
Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur
og aðdáandi lífsins.