Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.06.2018, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.06.2018, Blaðsíða 14
VIÐTAL 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24.6. 2018 Þ að er erfitt að setja sig í spor ung- lingsstúlku sem þarf að búa við stríð, yfirgefa heimalandið, missa heimili sitt, týna vinunum, flytja á hjara veraldar, læra nýtt og ill- skiljanlegt tungumál og reyna að fóta sig í til- verunni. Reem Almohammad er falleg tvítug kona og býr hún á Akureyri með stórfjölskyld- unni; ömmu, foreldrum og fimm yngri bræðr- um. Hún kom hingað í stórum hópi sýrlenskra flóttamanna sem dvalið höfðu í Líbanon eftir að hafa flúið stríðið. Reem hefur nú búið á Ís- landi í rúm tvö ár og þrátt fyrir ró og frið norð- an heiða er lífið ekki auðvelt. Íslenskan vefst fyrir henni þótt blaðamanni finnist hún tala skýra og fína íslensku. Hún hefur gengið í skóla með jafnöldrum sínum en segist ekki hafa eignast neina vini; það gengur illa að komast inn í vinahópa og henni líður eins og hún sé utanveltu. Nýlega talaði Reem á mál- þingi um líf sitt eftir komuna til Íslands og skemmst er frá því að segja að það var ekki þurr hvarmur í salnum. Nú er hún tilbúin að segja blaðamanni frá lífinu í stríðinu og frá líf- inu sem flóttamaður á Íslandi. Við höfum túlk okkur til halds og trausts og faðir hennar fær að vera með og leggja orð í belg. Kristín S. Bjarnadóttir, sem stóð fyrir málþinginu, er einnig í stofunni og hlustar. Reem segir að þrátt fyrir að Íslendingar séu allir af vilja gerðir að létta flóttamönnum lífið sé margt sem mætti betur fara. Saga þessarar ungu konu er saga sem þarf að heyrast. Vonuðu að ástandið myndi batna Fyrir sjö árum gekk lífið sinn vanagang í Aleppo í Sýrlandi hjá Almohammad- fjölskyldunni. Faðirinn, Khattab, var fyr- irvinnan og kenndi ensku í menntaskóla en móðirin Halima hafði í nógu að snúast með þá fimm ung börn. Reem er elst af systkinunum og eina stúlkan. Í Sýrlandi var Reem eins og hver annar unglingur; spilaði tennis, elskaði að dansa og teikna og hlæja með vinkonunum. Á þessum tíma var mikið líf og fjör á götum borgarinnar, ys og þys og læti og fólk borðaði gjarnan utandyra á veitingahúsum, enda hlýtt í veðri. Árið 2011 skall á stríð og allt breyttist. Ári síðar náði stríðið til Aleppo en þá var Reem að klára grunnskólann og á leið í mið- skóla. Sumarið var framundan en það reyndist afdrifaríkt. Smátt og smátt breyttist allt í borginni; allt varð dýrara og útgöngubann var eftir klukkan tíu á kvöldin. Fjörið á götum borgarinnar á kvöldin var ekki meir. Tónlistin var þögnuð og skothljóð glumdu í mannlausum strætum. „Við heyrðum í skotárásum og það fór að bera á matarskorti. Brauð var til dæmis ekki fáanlegt. Við fengum fréttir af byggingum sem voru skemmdar vegna sprengja og af fólki að deyja,“ segir Reem. Þau yfirgáfu borgina fljót- lega og fóru í útjaðar borgarinnar í sveitina til afa og ömmu. Faðir Reem hélt þá einn af stað til Líbanons til þess að vinna fyrir fjölskyld- unni, en vinnan hans hvarf með stríðinu. Móð- irin var því ein eftir í borginni með börnin fimm, en eitt átti eftir að bætast í hópinn síðar. „Við héldum að við þyrftum bara að vera þar í stuttan tíma og gætum svo snúið aftur heim,“ segir Reem og útskýrir að eftir þrjá, fjóra mánuði í sveitinni hafi þau snúið aftur til síns heima í Aleppo. „Við vorum þá þar í mánuð og það var mjög erfitt. Það voru svo miklar árásir gerðar á borgina að við vorum í lífshættu. Við vorum vakandi nánast allan sólarhringinn og mjög hrædd. Börn máttu ekki fara út og aðrir fóru ekki langt að heiman,“ segir Reem. Hvenær var þér sagt að þið þyrftuð að flýja land? „Við vorum alltaf að bíða og áttum alltaf von á að ástandið myndi batna, að allt myndi róast. Þá komu hermenn frá leyniþjónustunni og til- kynntu okkur að ef við færum ekki strax myndum við deyja.“ Khattab faðir Reem skýtur inn í: „Það var verið að berjast um flugvöllinn og við vorum í miðjunni. Þannig að báðir aðilar voru að reyna að yfirtaka svæðið og sögðu þá fólki að fara til þess að geta tekið húsin og allt þar inni. Þeir tóku jafnvel flísarnar af gólfinu. Þeir stálu öllu. Tóku snúrurnar úr rafmagnsdósunum til að tryggja það að fólkið kæmi aldrei til baka í húsin sín.“ Á tvær ljósmyndir úr æsku Hvernig leið þér á þessum tíma? „Manni fannst tíminn standa í stað. Ég var frosin.“ Hún segir þau hafa haldið til í neðanjarðar- byrgi í kjallara blokkarinnar ásamt öðrum íbú- um hússins, um sextíu manns. Sprenging hafði eyðilagt vatnslagnir í byggingunni og rann því vatn inn í neðanjarðarbyrgið og sváfu þau á blautum dýnum. Matur var af skornum skammti en nóg til þess að komast af. Dag einn var ljóst að það var annaðhvort að láta lífið eða forða sér burt í hvelli. Morgunblaðið/Ásdís „Ég vissi ekkert hvar Ísland var“ Reem Almohammad kom til Íslands í janúar 2016 í hópi kvótaflóttamanna frá Sýrlandi sem boðið var að hefja nýtt líf á Akureyri. Hún hafði aldrei heyrt talað um Ísland og brá í brún við komuna; allt var á kafi í snjó og sautján stiga frost. Síðan þá hefur Reem náð nokkrum tökum á íslensku, farið í skóla og unnið á leikskóla. Þrátt fyrir velvild Íslendinga hefur Reem ekki eignast vini og finnst hún höfð útundan. Hana dreymir aðeins um að fá að klára menntaskóla svo hún geti látið draum sinn rætast; að verða læknir. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is ’ Ég var líka mjög lítil, barafimmtán ára. Og ég skildiekki hvað var að gerast, bara aðmamma var hrædd og vildi fara strax. Hún sagði að ef hún myndi deyja ættum við börnin að halda áfram að hlaupa. Reem var ósköp venjuleg unglings- stúlka þegar stríðið skall á í Sýrlandi. Fjölskyldan flúði til Líbanons en var svo boðið hæli á Íslandi. Reem finnst gott að finna fyrir öryggi og ró en segir síðustu tvö árin á Íslandi hafa verið erf- ið. Henni gengur illa að eignast vini og telur að fólk dæmi hana vegna útlits og slæðunnar sem hún kýs að bera.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.