Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.06.2018, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.06.2018, Blaðsíða 16
„Mamma sagði okkur krökkunum að fara í íbúðina og grípa nokkra hluti því við þyrftum að flýja borgina. Við þyrftum að finna bíl eða rútu sem gæti flutt okkur í burtu en það var fjöldi manns að gera slíkt hið sama,“ segir Reem. „Ég fór upp og fór að safna saman föt- um og mörgum myndum. Mamma sagði mér að ég gæti ekki tekið svona mikið af dóti. Hún sagðist telja upp að tíu og við mættum safna saman eigum á meðan hún teldi. Þegar hún var búin að telja hratt upp að tíu máttum við ekki taka meira. Ég tók bara tvær myndir frá því að ég var lítil. Ein er af mér þegar ég er lítil og nýbyrjuð að ganga og hin er af mér að byrja í sex ára bekk,“ segir hún. Þetta eru einu myndirnar sem hún á í dag af sér sem barni. Þarna ríkti mikið hræðsluástand og ringul- reið. „Mamma var mjög hrædd, ein með fimm ung börn og pabbi ekki þarna. Hún vildi hlaupa í burtu og finna far með bíl eða rútu.“ Þurftir þú að hjálpa mömmu þinni með öll yngri systkinin? „Ég var líka mjög lítil, bara fimmtán ára. Og ég skildi ekki hvað var að gerast, bara að mamma var hrædd og vildi fara strax. Hún sagði að ef hún myndi deyja ættum við börnin að halda áfram að hlaupa. Svo fórum við út og þar var fjöldi manns að hlaupa. Bara eitthvað í burtu,“ segir hún. „Okkur fannst samt alltaf að við myndum geta snúið til baka síðar. Við vorum vongóð og héldum að þetta væri tímabundið. Við byrjuðum á að fara til afa og ömmu og þaðan með rútu til Líbanons,“ segir hún. Hún segir rútuna hafi verið yfirfulla; troðfulla af fólki að flýja og jafnvel hafi þurft að henda út far- angri sem ekki komst fyrir. Þrátt fyrir stop- ult netsamband náðu þau sambandi við föð- urinn og gat fjölskyldan sameinast í Líbanon þar sem faðirinn kenndi í skólum, þrátt fyrir að ríkisstjórn Líbanons bannaði þeim að vinna. Í Líbanon dvöldu þau í þrjú löng ár og hluta af þeim tíma gátu börnin ekki gengið í skóla. Aldrei heyrt minnst á Ísland Hvernig voru þessi ár í Líbanon? „Þetta var erfiðasti tími í mínu lífi. Ég fór ekki í alvöru skóla, var ekki á mínu heimili og ég saknaði vina minna frá Sýrlandi,“ segir hún. Í heilt ár stundaði hún ekki nám og hin tvö árin gekk hún í skóla sem ekki er viðurkenndur. Á þessum árum vann hún á leiksvæði barna á veitingastað og vann oft frá morgni til kvölds, án þess að fá greitt fyrir aukavinnu. Fyrstu tvö árin héldu þau alltaf í vonina að geta snúið aftur til Sýrlands. Þeim leið ekki vel í Líbanon og fundu vel fyrir að litið var á þau sem flóttafólk sem ekki var velkomið. Eftir að ljóst var að friður var ekki í augsýn voru þau spurð hvort þau vildu fara til annars lands og var boðið til Íslands. Valið var annaðhvort að vera um kyrrt eða að fara til Íslands. Ekkert annað land var í boði. Hvernig leið ykkur að vita að þið væruð að fara til Íslands? „Ég vissi ekkert hvar Ísland var og hafði aldrei heyrt þess getið. Meira að segja pabbi spurði hvar landið væri,“ segir Reem en aðeins liðu tveir mánuðir frá því að þau fengu boðið þar til þau fóru um borð í flugvélina til Íslands. „Mér fannst þetta ekki góð hugmynd. Ég hélt að það yrði ekkert skárra en í Líbanon, að við værum ekki velkomin. Og að ég myndi ekki fá að fara í skóla og yrði útskúfuð úr samfélag- inu,“ segir Reem og er hugsi. „Mér fannst að um leið og ég myndi fara til Íslands myndi vonin um að snúa aftur heim hverfa endanlega.“ Geturðu lýst fyrsta deginum á Íslandi? „Við hittum fullt af fólki á flugvellinum og þar voru fjölmiðlamenn að taka myndir. Það var dálítið óþægilegt og yfirþyrmandi,“ segir Reem. Ferðinni var haldið áfram og flogið frá Keflavík til Akureyrar. „Ég var mjög þreytt eftir langt ferðalag. Það var mjög kalt hér og ég hafði aldrei séð jafn mikinn snjó áður,“ seg- ir hún en þess má geta að úti var sautján stiga frost og allt á kafi í snjó þennan janúardag á Akureyri árið 2016. „Það var tómlegt í bænum þegar við keyrð- um inn í bæinn frá flugvellinum á Akureyri. Það var enginn á ferli. Við vorum stór hópur Sýrlendinga í rútunni og allir horfðu bara út um gluggana og enginn sagði orð. Ég held að við höfum verið í smá sjokki. Það var svo mikill kuldi.“ Hvað finnst þér núna það besta við að búa á Akureyri? „Hér er ró. Og mér er sýnd virðing. En veðrið er erfitt,“ segir hún og hlær. „En hér er mjög fallegt á sumrin.“ Námið ófullnægjandi Nú ertu búin að vera rúmlega tvö ár á Íslandi, hvernig hefur þér liðið hér? „Það er búið að vera erfitt. Tungumálið er erfitt, í byrjun heyrði ég fólk tala en skildi ekk- ert. Ég var í fyrstu glöð að sjá nýtt land og nýja þjóð og ég var ánægð með húsið mitt. Ég þarf ekki að óttast stríð eða ógnir og get farið í skóla.“ Reem hóf nám í íslensku hjá Símenntunar- miðstöð Eyjafjarðar en námskeiðið stóð yfir í einn mánuð. Nú stundar hún nám í Verk- menntaskólanum á Akureyri. Reem talar ágæta íslensku í dag þótt málfræðin vefjist fyrir henni. Hún segir oft hafa verið erfitt í tímum í skólanum, sérstaklega í fyrstu, þar sem hún skildi ekki nóg í málinu. „Þetta var bæði skrítið og erfitt ástand, að skilja ekki neitt. Ég hélt ég myndi ná tökum á íslenskunni fyrr,“ segir Reem en hvorki henni né pabba hennar fannst kennsluaðferðin hafa skilað nægilegum árangri. Khattab er mikið niðri fyrir og segir áætl- unina sem var gerð fyrir sýrlensku flótta- mennina sem komu til Akureyrar ekki hafa virkað, a.m.k. ekki hvað varðar menntun ung- linganna. Reem hafi fengið eins mánaðar kennslu í íslensku og svo verið send í Verk- menntaskólann þar sem hún hafi eytt meiri- hluta dagsins í svokölluðum „eyðum“. Hún segir dagana hafa farið í að bíða ein á kaffi- stofu skólans. Reem er sammála föður sínum að ekki hafi verið nógu vel að staðið varðandi nám hennar í Verkmenntaskólanum og allt frekar laust í reipunum. Aðrir skólar hafi ekki verið í boði og Reem hafi ekki fengið neitt val. Menntaskólinn á Akureyri stóð henni ekki til boða vegna þess að þar er ekki boðið upp á neina aukahjálp fyrir flóttamenn. Faðir henn- ar vill einungis að hún fái tækifæri til að klára menntaskóla svo hún eigi möguleika á að kom- ast í háskóla seinna meir, en skólastjórnendur segja mörg ár í það. Draumur Reem er að verða læknir. Hún segist gjarnan vilja fara í einhvern annan skóla í haust, ef henni myndi bjóðast það, þar sem yrði betur haldið utan um hennar nám því hún hefur brennandi áhuga á að læra. Að öðrum kosti ætlar Reem að vinna í haust. Ekki tekin inn í vinahópa Hefurðu eignast vini hér? „Nei, það er mjög erfitt. Það eru tungumála- örðugleikar og svo er útlit mitt öðruvísi og ég er með slæðu. Það eru vinahópar í skólanum og ég komst ekki inn í neinn,“ segir hún. „Það er mikill munur á ungu fólki hér og í Sýrlandi, unglingar eru opnari í Sýrlandi og vilja kynn- ast nýjum nemendum.“ Fannstu fyrir fordómum vegna slæðunnar? „Ég held að fólk hugsi að ég sé eitthvað sér- stök, öðruvísi. Og því var ég látin vera. Sumir halda kannski af því að ég er með slæðu að ég hafi ekki áhuga á að kynnast þeim,“ segir hún en nefnir að það sé alfarið hennar val að ganga með slæðu. Henni þyki það fallegt, en hún er eina stúlkan í skólanum með slíka slæðu. „Ég er ekki að spyrja krakka af hverju þau eru Almohammad fjölskyldan var mynduð eftir komuna til Akureyrar. Khattab og Halima eru hér með börnum sínum sex og ömmu barnanna. Reem, eina stúlkan í systkinahópnum, er lengst til hægri. Hún er ánægð að búa við frið og ró en segir erfitt að kynnast jafnöldrum sínum. Morgunblaðið/Skapti ’Ég er ekki að spyrja krakkaaf hverju þau eru með háriðlitað grænt, en þau spyrja migaf hverju ég sé með slæðuna, eða hvort ég sé með hár undir henni. Það er fáránlegt. Ég er að bíða eftir að krakkarnir venj- ist og skilji af hverju ég er með slæðu, að það skipti ekki máli að ég sé með slæðu. „Mér finnst gaman að vinna á leikskólanum með börnunum og þau kenna mér margt í íslensku. Ég ætla svo að læra að keyra bíl seinna. Minn draumur er að læra læknisfræði og fá tækifæri eins og aðrir,“ segir Reem. VIÐTAL 16 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24.6. 2018

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.