Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.06.2018, Blaðsíða 19
24.6. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19
Æfingin skapar meistarann, segir máltækið. Hefði Hannes Þór Halldórsson ekkiæft sig af kappi hefði hann eflaust ekki varið vítið frá Lionel Messi á heimsmeist-aramótinu í knattspyrnu í Rússlandi um liðna helgi. Að baki slíku afreki liggur
þrotlaus vinna; æfingar ekki bara dögum, vikum og mánuðum saman, heldur árum saman,
við allar mögulegar og ómögulegar aðstæður.
Nákvæmlega sama máli gegnir um þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Til þess að vera í
stakk búin að bregðast við útkalli á ögurstundu þarf hún að halda sér við og æfa samvisku-
samlega. „Það má alveg leggja þetta tvennt að jöfnu. Ekki leiðum að líkjast fyrir okkur,“
segir Sigurður Ásgeirsson, þyrluflugstjóri hjá Gæslunni, og skellir upp úr, þegar þetta er
borið undir hann. „Það fer enginn á HM án þess að æfa sig og
sama máli gegnir um okkur; við færum ekki í erfið útköll óæfðir.
Við þurfum að geta farið af stað við öll skilyrði, alveg eins og
Hannes þarf að búa sig undir að mæta erfiðustu andstæðing-
unum. Og hafa betur.“
Ísland verður seint frægt fyrir veðursæld og fyrir vikið sæk-
ist þyrlusveitin eftir því að æfa sig við erfiðar aðstæður í vondu
og helst vitlausu veðri. „Það þýðir ekkert að fara að gráta í
skítaveðri; það er partur af því að búa á Íslandi, auk þess sem
erfiðustu útköllin koma gjarnan í kolbrjáluðu veðri. Við þurfum
að vera við öllu búnir,“ segir Sigurður.
Ekkert slíkt var þó uppi á teningnum á dögunum þegar
franski sjóherinn óskaði eftir sameiginlegri æfingu með Gæslunni. Herskip var þá statt á Ís-
landsmiðum og þyrla skipsins vildi viðra sig og kynnast aðstæðum hér við nyrstu voga. „Það
er mjög algengt að við fáum beiðni af þessu tagi frá herjum NATO-ríkjanna sem hingað
koma. Ég áttaði mig strax á því hvernig þetta var til komið en fyrir nokkrum árum flaug ég
með þyrlu af systurskipi umrædds skips ákveðna leið, meðal annars út í Þrídranga. Þangað
vildi þessi áhöfn ólm koma; hafði greinilega séð myndir hjá félögum sínum. Það er ekkert
skrýtið; vitinn og drangarnir eru auðvitað fótógenískari en andskotinn, ekki síst úr hásuðri,“
segir Sigurður.
Fyrir vikið blasti við að taka Árna Sæberg, ljósmyndara Morgunblaðsins, sem hefur
myndað mikið fyrir Gæsluna gegnum tíðina, með á æfinguna og tók hann meðfylgjandi
myndir þegar flugstjóri frönsku þyrlunnar lenti á þyrlupallinum í Þrídröngum sem hlýtur
að vera einn sá ógurlegasti og tilkomumesti í heimi. Sigurður mælir þó ekki með slíku brölti
fyrir lofthrædda en ljósið í vitanum er í um sjötíu metra hæð yfir sjávarmáli.
Sigurður segir alltaf gaman að koma í Þrídranga en ferðum þangað hafi þó fækkað eftir
að hætt var að notast við gashylki í vitanum og sólarrafhlöður teknar upp í staðinn. Þó þurfi
annað veifið að sinna þar almennu viðhaldi, svo sem mála vitann og annað slíkt.
Verkefni þyrlusveitar Gæslunnar eru af þrennu tagi; almenn verkefni, útköll og æfingar
og þarf hver áhafnarmeðlimur að fljúga í 200 til 250 klukkustundir á ári til að teljast vera í
nægilega góðri þjálfun. Sigurður segir mikilvægt að halda því til haga að útköllin séu inni í
þeirri tölu en ekki fyrir utan. „Útköllin bætast ekki við, eins og sumir halda, heldur er gert
ráð fyrir þeim í upphafi. Gleymum því heldur ekki að útköllin eru besta æfingin.“
Þar hlýtur Hannes Þór Halldórsson að vera honum sammála. Það er ugglaust betri æfing
að mæta Lionel Messi, fyrir framan tugmilljónir manna á HM en Jørgen Jørgensen fyrir
framan fáeinar hræður á æfingu í Danmörku.
Jørgen HÚH?
Hannesar
háloftanna
Þyrla Landhelgisgæslunnar og þyrla frá franska sjóhern-
um sameinuðu krafta sína á æfingu á dögunum, þar sem
leiðin lá meðal annars út í Þrídranga, að beiðni Frakkanna.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Ljósmyndir
ÁRNI SÆBERG