Morgunblaðið - 30.08.2018, Síða 42

Morgunblaðið - 30.08.2018, Síða 42
42 FRÉTTIRErlent MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. ÁGÚST 2018 Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Fjölskylda Franciscos Francos, fyrrverandi einræðisherra Spánar, mun taka við jarðneskum leifum hans þegar þær hafa verið fjar- lægðar úr grafhýsinu mikla í Dal hinna föllnu 50 km norðvestur af Madríd. Ríkisstjórn Spánar, undir forystu Pedro Sanchez forsætisráð- herra, samþykkti næstliðinn föstu- dag tilskipun þess efnis að líkams- leifar einræðisherrans skyldu grafnar upp og fjarlægðar úr graf- hýsinu sem staðið hefur honum til heiðurs. „Vitaskuld munum við taka við jarðneskum leifum afa okkar. Við munum ekki láta ríkisstjórninni þær eftir,“ sagði sonarsonur einræðis- herrans, Francis Franco, í blaðinu La Razon um helgina. Hann er eitt sjö barnabarna leiðtogans fyrrver- andi, en í sameiginlegri yfirlýsingu lýstu afabörnin sig „einarðlega og einhuga“ andvíg uppgreftrinum áformaða. Eitt barnanna, Francisco Martinez-Bordiu, lýsti áætlunum stjórnarinnar sem „ósiðmennt- uðum“ í samtali við sjónvarpsstöðina Antena 3. Fjölskyldan hefur fengið hálfs mánaðar frest til að finna beinunum nýjan legstað, eins og tilskipunin um uppgröftinn kveður á um. „Verði uppgröfturinn knúinn í gegn krefj- umst við þess að fá líkamsleifarnar í okkar hendur svo við getum veitt þeim kristna útför,“ segir í yfirlýs- ingu afkomenda Francos. Að sögn Carmen Calvo aðstoðarforsætis- ráðherra mun beinatakan úr basil- íkunni í Dal hinna föllnu vart eiga sér stað fyrr en seint á árinu. Ákvörðunin um uppgröft líkams- leifa Francos hefur klofið Spánverja í tvennt og ýft upp gömul sár. And- stæðingar einræðisherrans segja óásættanlegt að hinum grimma harðstjóra skuli veitt þessi viður- kenning. Aðrir, sem sjá Franco- tímann í rósrauðum bjarma, eru andvígir brottflutningi leifanna. Og í þriðja lagi eru þeir sem telja að lík- amsleifar Francos eigi að vera áfram í Valle de los Caidos þar sem grafarminnismerkið sé hluti af sögu Spánar. Fjölskylda Francos lagðist gegn uppgreftrinum í formlegu mótmæla- skjali til stjórnar Sanchez og ábóta Benediktsreglunnar sem haft hefur með málefni basilíkunnar að gera. Þar leggur fjölskyldan traust sitt á herðar ábótans um að meina stjórn- inni að koma „hefndarfýsn“ sinni fram. Stjórnaði með járnaga Óljóst er hvaða lagalegu leiðir eru fjölskyldunni mögulegar gegn til- skipun ríkisstjórnarinnar. Fyrr- nefnd Calvo sagði að færi svo að fjöl- skyldan hafnaði flutningi beinanna í hennar eigið grafhýsi myndi ríkis- stjórnin velja endurgreftrun líkams- leifanna stað. „Ég held að þau ætli að beita valdi og grafa líkið upp, en þá munum við láta á lögmæti þess reyna,“ sagði Francis Franco í La Razon. Hann bætti því þó við að fjöl- skyldan áformaði þó ekki að mót- mæla uppgreftinum fyrir dóm- stólum því það væri bara sóun á tíma og fjármunum að takast á við stjórnina í réttarsölum. Franco hershöfðingi réði ríkjum á Spáni og stjórnaði með harðri hendi frá lyktum borgarastríðsins 1936-39 og allt þar til hann lést árið 1975. Borgarastyrjöldinni hleypti hann af stað er herinn gerði uppreisn gegn lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn. Lét hann byggja grafarminnis- merkið á árunum 1940 til 1959 til heiðurs þeim sem létu lífið í styrj- aldarátökunum. Meðal verkamanna sem þar komu að verki voru um 20.000 pólitískir fangar í þrælk- unarvinnu. Grafhýsið geymir jarð- neskar leifar um 37.000 manna úr báðum fylkingum er tókust á í borg- arastyrjöldinni. Kennsl hafa ekki verið borin á langflesta þeirra en ríkisstjórnin áformar að láta grafa leifar þeirra upp líka til að hægt verði að bera kennsl á viðkomandi. Alls munu fórnarlömb átakanna og ofsókna herforingjastjórnarinnar í fjóra áratugi í kjölfarið hafa verið 114.000. Áformar stjórn Pedro Sanc- hez að láta bera kennsl á allan þenn- an hóp. Löngum komu stuðningsmenn Francos saman við grafhýsið á fæð- ingardegi hans til að votta honum virðingu en tekið var fyrir slíkar samkomur með lagasetningu árið 2007. Flokkarnir ósamstiga Mið- og hægriflokkar Spánar hafa gagnrýnt áform stjórnar Sanchez á þeim grunni að þær séu til þess fallnar að espa upp pólitískar deilur eins og þær sem kvöldu Spánverja á síðustu öld. Stuðningsmenn upp- graftarins segja aftur á móti, að um sé að ræða nauðsynlegt skref svo þjóðin geti loks játað þau sár sem uppreisn Francos og einræðisstjórn hans skildi eftir sig og grætt þau. „Við erum að fagna fjörutíu árum lýðræðis á Spáni; stöðugri og þrosk- aðri stjórnarskrárbundinni reglu- semi … og þetta samræmist því ekki að halda uppi grafarminnismerki þar sem við vegsömum enn Franco,“ sagði Calvo varaforsætisráðherra á blaðamannafundi eftir að tilskipunin um uppgröftinn var samþykkt á rík- isstjórnarfundi fyrir tæpri viku. „Sem staðfast evrópskt lýðræðis- ríki getur Spánn ekki leyft tákn- merki sem sundra þjóðinni,“ sagði Pedro Sanchez forsætisráðherra. Það hefur verið forgangsmál hjá honum að fjarlægja líkamsleifar Francos úr Dal hinna föllnu. Vill hann að grafarminnismerkinu verði breytt í stað „sáttar og minninga“. Hefur hann jafnframt lagt áherslu á að „óhugsandi“ væri fyrir önnur fyrrverandi einræðisríki í Evrópu að halda uppi fasískum minnis- merkjum. Þingið á eftir að staðfesta tilskip- unina en ekki er við öðru búist en að hún hljóti samþykki þess. Tilskip- unin nýtur stuðnings Sósíalista- flokks Sanchez, vinstriflokksins Podemos og basknesku og kata- lónsku þjóðernisflokkanna. Eina minnismerkið um fasistastjórn Gagnrýnt hefur verið að grafhýsi Francos sé eina minnismerkið um fasistaleiðtoga sem enn stendur í Evrópu. Stjórnartíð hans, sem lauk við dauða hans 1975, er enn afar við- kvæmt mál í augum Spánverja, bæði stuðningsmanna hans sem andstæð- inga. Í valdatíð hans 1939 til 1975 lét Franco taka af lífi eða fangelsa tug- þúsundi andstæðinga sinna í þeim tilgangi að útrýma andófi. Þá er tal- ið að um hálf milljón manna, vopn- aðra sem óbreytta borgara, hafi dáið í stríðsátökunum, sem klufu Spán- verja í tvennt. „Að grafa fórnarlömb beggja fylk- inga á sama stað og er að finna ríkis- grafhýsi Francos er óvirðing og skortur á friðhelgi þeirra og al- gjörlega óásættanlegt í nútíma lýð- ræðisríki eins og okkar,“ sagði Car- men Calvo. Hún rifjaði og upp, að sendinefnd Sameinuðu þjóðanna hefði fyrir fjórum árum lýst því yfir að grafhýsi er heiðraði minningu Francos væri lýðræðinu ósamþýð- anlegt. Samkvæmt skoðanakönnun Sigma Dos hugveitunnar fyrir blaðið El Mundo styðja um 41% Spánverja uppgröft jarðneskra leifa Francos og að þær verði fjarlægð úr grafar- minnismerkinu. Andstæðir áform- unum voru 38,5% og alls 54% sögðu tímann til að gera þetta núna óheppilegan. Losnar við pólitískt yfirbragð „Þegar leiði Francos er flutt burt úr Dal hinna föllnu losnar staðurinn við hið pólitíska yfirbragð sem á honum hefur hvílt. Þetta verður ekki lengur minnismerki um Franco eða annars helmings fórnarlamba borgarastríðsins,“ sagði Gomez Bravo, sagnfræðiprófessor við Complutense-háskólann í Madríd, í viðtali. „Fyrst þá yrðu mannvirkin tákn sátta vegna átaka sem áttu sér stað fyrir 80 árum á Spáni,“ bætti hann við. Eftir andlát Francos voru pólitískir glæpir fyrirgefnir af opin- berri hálfu fjölskyldum fórnarlamba hans til lítillar gleði. Metnaður Sósíalistaflokksins hef- ur lengi staðið til þess að rýma graf- hýsi Francos einræðisherra. Í tíð Rodriguez Zapatero forsætisráð- herra lagði sérfræðinganefnd stjórnarinnar til að Dalur hinna föllnu yrði helgaður minningu þeirra sem týndu lífi í borgarastríðinu fyrir 80 árum, alveg óháð því hvorri fylk- ingu þeir tilheyrðu. Þeir lögðu einn- ig til að líkamsleifar Francos yrðu fjarlægðar. Brottnám þeirra yrði stórmikilvæg og táknræn aðgerð á Spáni, í landi þar sem íbúarnir glíma enn við pólitísk og félagsleg mein borgarastríðsins. Mannvirkin í Dal hinna föllnu eru mest áberandi opinbera arfleifð valdatíma Francos. Þau voru reist til heiðurs þeim er féllu í átökunum 1936-39 sem Franco kallaði sína „dásamlegu krossför“. Spænska stjórnin vinnur nú að því að breyta dalnum í minningarsetur. agas@mbl.is Deilt um jarðneskar leifar Francos AFP Minnismerki Langar biðraðir eru eftir því að komast inn í basilíkuna í Dal hinna föllnu sem Franco lét reisa í San Lorenzo del Escorial skammt frá Madríd. Aðsókn að minnismerkinu hefur stóraukist eftir að spænska ríkisstjórnin lýsti í júní áformum um að fjarlægja leifar einræðisherrans úr grafhýsinu. Myndin er tekin 15. júlí sl. Einræðisherra Francesco Franco.  Ákvörðun um uppgröft líkamsleifa fyrrum einræðisherra Spánar hefur klofið spænsku þjóðina í tvennt og ýft upp gömul sár  Stjórnartíð Francos er enn afar viðkvæmt mál í augum Spánverja

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.