Morgunblaðið - 30.08.2018, Blaðsíða 44
44 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. ÁGÚST 2018
Ýmislegt markvert hefur drifið á
daga ljósmyndara AFP-fréttastof-
unnar í vikunni og eru hér teknar
saman nokkrar af helstu frétta-
myndum sem fréttastofan hefur
sent frá sér síðustu daga. Kennir
þar ýmissa grasa og er komið víða
við, allt frá Venesúela til Indlands.
Á flótta Hinn þrítugi Richard Lomelly heldur hér á Tiago syni sínum, en þeir voru í síðustu viku
á leiðinni til Perú frá heimalandi sínu, Venesúela. Milljónir hafa flúið þaðan á síðustu árum.
Hinsta fylgdin Líkbíll söngkonunnar Arethu Franklin sést hér leggja við Charles H. Wright-
safnið, sem sérhæfir sig í sögu svartra í Bandaríkjunum, þar sem bíllinn verður til sýnis.
Vatnafararskjótar Rigningatíð hefur verið á Indlandi
undanfarna daga, og neyddust þessir mótorhjólakappar
til þess að troða marvaðann á vélfákum sínum þegar
þeir hugðust leggja í hann á þriðjudaginn.
Á teppið Hassan Rouhani, forseti
Írans, var kallaður á teppið af ír-
anska þinginu í fyrsta sinn á fimm
ára valdatíð sinni. Vildi þingheimur
heyra hvers vegna staða efnahags-
mála væri eins lök og hún er.
Hendi Guðs Frans páfi sést hér standa fyrir svörum við lok Írlands-
heimsóknar sinnar á sunnudaginn. Páfinn sagðist þar biðja Guð um fyrir-
gefningu á hinum mörgu hneykslismálum sem skekið hafa kaþólsku kirkj-
una á Írlandi, þar sem margir prestar hafa verið sakaður um kynferðisbrot.
Ljósmyndir af
erlendum vettvangi
AFP
Í bláum skugga Mexíkóskir hermenn gerðu í upphafi vikunnar áhlaup á tvær plantekrur þar sem maríjúana var
ræktað. Uppskerunni var safnað saman og varpað á bálköst, hermönnunum eflaust til lítillar gleði.
Rauða spjaldið Gianni Infantino, forseti FIFA, og
Donald Trump Bandaríkjaforseti brugðu á leik í Hvíta
húsinu þegar Infantino heimsótti Trump í fyrradag.
Infantino gaf forsetanum þar bæði gult og rautt spjald.