Breiðfirðingur - 01.04.1964, Side 4
2
BREIÐFIRÐINGUR
Þín tryggð var jafnan traust, sem liamra-veggur,
þín trú á lífið björt, sem röðuls-glóð,
og það mun sá er mat á líf vort leggur
þér launa vel, úr réttlætisins sjóð.
Þú hafðir vitans hlutverk, þegar skipið
í hríð og myrkri nærri hættum fer, —
og það var ekki úr lausu lofti gripið:
Að lýsa, benda og reyna að hjálpa mér.
Ég þakka allt, en það ég hlýt að finna,
að þakklætið er veikum línum skráð,
en það er bótin, móðir barna minna,
ef mér af hærri stöðum gefast ráð,
er stuðla að því ég mætti verk mitt vinna
svo vissum tökum að það líktist dáð,
þá stæðu greyptar rúnir gjörða þinna
svo gullnu letri að tíminn gæti ei máð.
Og ennþá dreg ég ilm frá vorsins blómum,
þó allt sé falið tímans mikla nið.
Og ennþá fagnar hjartað endurómum
frá öllu því sem lifað höfum við.
Þó fortíð lokist framtíð opin stendur
í faðmi tímans, björt og dásamleg,
ef guði eru boðnar báðar hendur
og beðinn um að leiða oss gæfuveg.
B. Hákonarson.