Breiðfirðingur - 01.04.1985, Blaðsíða 155
BREIÐFIRÐINGUR
153
Þeir voru allir mjög samhentir í sinni útgerð. Vanir sjómenn
frá barnæsku og vandaðir til allra verka, og vissu að hlutirnir
þurftu að vera í lagi ef vel ætti að ganga, og að það myndi skila
sér í auknum afla og hagstæðari útgerð. Hólmarar munu
minnast þess, að góður afli kom oft uppúr Fellanum eins og
hann var tíðum nefndur.
Eftir að Hermann varð að hætta sjómennsku af heilsufars-
ástæðum, vann hann mikið í veiðarfærum í landi. Hann var
þar góður starfsmaður sem í öðru. Það var sama hvað hann
tók í hendur, handlagnin og snyrtimennskan auðkenndu það
allt.
Eitt af því sem hann stundaði fyrr á árum var heyskapur í
eyjum, sem mikið var um, frá Stykkishólmi á þeim tíma. í því
starfi var hann eftirsóttur sláttumaður. Hann sló ekki mikið
um sig í því frekar en öðru, en honum beit svo vel, á hvaða
landi sem var, að flestum reyndist erfitt til lengdar að keppa
við hann.
Þá var gaman að sjá hann háfa lunda, sem oft var gert
nokkuð að samhliða heyskapnum. Það sluppu ekki margir af
þeim sem hann ætlaði að taka. Vindhöggin voru ekki að hans
skapi, hvorki í því eða öðru í hans lífsstarfi.
Ég gat þess hér í upphafi að Guðmundur faðir Hermanns
hefði verið skáldmæltur. Ég varð aldrei var við, í mínum
kynnum af Hermanni að hann hefði erft þá gáfu eða eigin-
leika, en mér fannst oft að hendurnar á honum hefðu mikla
sköpunargáfu, og kannske hefur skáldhneigðin komið þar
fram. Handarverkin hans voru vissulega eftirsótt af öllum
þeim sem til þekktu.
Hermann giftist ekki og átti ekki afkomendur. Hann bjó
lengst af með móður sinni og bróður í húsinu Tindar við Bók-
hlöðustíg í Stykkishólmi. Hann lést á sjúkrahúsinu í Stykkis-
hólmi 15. júlí 1978 og var jarðsunginn frá Stykkishólmskirkju
22. sama mánaðar í fögru sumarveðri. Honum fylgdu margir
til grafar.