Breiðfirðingur - 01.04.2016, Síða 99
BREIÐFIRÐINGUR 99
Beiningamaðurinn úr Kvígindisfirði fékk líka stundum að fljóta með
öðrum út í Breiðafjarðareyjar að afla fanga.
Karlinn var að sögn tæplega meðalmaður á hæð, nokkuð þybbinn,
rauðbirkinn og rjóður í andliti, bláeygur með brúnleitt hár. Hann talaði
hátt og skýrt, málrómurinn oft einkennilega skrækur en gat orðið mjúk
ur og ísmeygilegur þegar við átti. Á ferðum sínum var hann oftast í
gauðslitnum flíkum, peysu og stuttbuxum, með húfuræfil á höfði. Hann
var í skinnsokkum og oft með marga roðskó á fótum.
Kitta lá gott orð til fólks sem hafði sýnt honum vinsemd og hafði
húsfreyjur úr þeim hópi í hávegum. Um aðra talaði hann fátt en átti þó
til að segja:
„Minnstu ekki á svíðinginn, sem gefur aldrei hundi bein, hvað þá
heldur manni mat.“
Yngri dóttir Kitta og eiginkonu hans, Guðrún Þorbjörg, var í munni
sveitunganna jafnan nefnd Gunna á Seli. Þegar hún fermdist, árið 1900,
segir prestur hana kunna dável að lesa, skrifa og reikna. Stúlkan á Selinu
þekkti aðeins fábreytt líf en henni var sitthvað til lista lagt. Gunna var
hagmælt og orti meðal annars sveitarrímu. Ætla má að fátt hafi verið
um lesefni í kotinu en þangað bárust þó kristileg rit frá Reykjavík,
fyrst Bjarmi og síðan Norðurljósið, sem aðventistar gáfu út. Gunna tók
boðskap þeirra um yfirvofandi heimsendi mjög alvarlega og fann hjá
sér köllun til að gerast trúboði.
Árið 1920 fékk hún leyfi til að efna til samkomu í gestastofunni á
Svínanesi. Þegar samkoman hófst var stofan þéttskipuð og var Svínanes
þó ekki í alfaraleið. Þarna boðaði Gunna endurkomu Krists, nú alveg
á næstunni, og yfirvofandi heimsendi en þá færu allir í Múlasveit beint
í eilífar kvalir helvítis, nema þeir sem játuðu syndir sínar nú þegar og
bæðu guð fyrirgefningar. María Einarsdóttir, húsfreyja á Svínanesi,
sýndi trúboðanum þá vinsemd að stjórna söngnum. Bæði fyrir og eftir
predikun Gunnu var sunginn sálmurinn Þú guð sem stýrir stjarnaher.
Nýtt líf kviknar á Selinu
Árið 1924 bar óvæntan gest að garði á Svínanesseli. Hann hét Þorbjörn
Guðmundsson og var langt að kominn. Svo fór að hann fékk að gista
REYKHÓLASVEIT