Breiðfirðingur - 01.04.2016, Side 118
BREIÐFIRÐINGUR118
sögu. Samt sem áður sýnist mér óþarfi að hafna því alfarið að einhver
kveikja geti verið að þessum ævintýramyndum. Staðreyndin er sú að í
sjálfum sögutextanum eru brot sem túlka má sem restar af sögulegum
kjarna; hér er greint frá för ungra manna til NorðurÍshafsins og þar
á eftir senda hinir sömu menn skip til Englands. Þessir ungu menn
efnast vel og komast til metorða er þeir snúa aftur til Íslands úr sinni
„Bjarmalandsför”.
***
Fyrri deilan:
Sverðið í Dagverðarnesi
Þegar Þórir kemur með sínum mönnum til hafnar í Dagverðarnesi á
Íslandi, tekur Steinólfur lági, eða litli eins og hann kallast þarna, á móti
honum. Steinólfur krefst þess að fá sverð Þóris, þar mun átt við hið
fagurbúna sverð Hornhjalta, en muna má að sverð voru stöðutákn á
þessum tíma eins og bíllinn í dag. Þórir neitar að gefa frá sér sverðið, en
býður „eins manns herneskju” í staðinn, þ.e. herklæði fyrir einn mann.
Það myndast spenna milli fylkinganna, Steinólfs og Þóris, og Kjallakur
gamli reynir að knýja fram sættir og róa menn án árangurs. Þórir sér
að hann má ekki við margnum Steinólfs, og velur því að hörfa undan
Dagverðarnesi. Ekki kemur fram að hann hafi mætt neinum kröfum af
hendi Steinólfs.
Fjandskapurinn eða deilan sem útgefandi sögunnar hjá íslenzkum
fornritum bendir á að vanti skýringu, getur, þegar betur er að gáð,
átt sér rætur í réttmætri kröfu af hálfu Steinólfs. Það er greinilegt að
nágranni Geirmundar heljarskinns á Skarðsströnd, Steinólfur lági í
Fagradal, hefur tekið við hlutverki hafnarstjóra eða hafnarhöfðingja í
Dagverðarnesi eftir að Geirmundur fellur frá, á árunum 905–910, eða
áður en rauntími Þorskfirðinga sögu hefst. Geirmundur heljarskinn
er ekki nefndur í sögunni, en allir hans nánustu samstarfsmen við
landnámið í Breiðafirði: Steinólfur, Úlfur skjálgi, Þrándur mjóbeinn og
Gils skeiðarnef.