Breiðfirðingur - 01.04.2016, Side 122
BREIÐFIRÐINGUR122
þessa deilu snúast um baráttu um veiðifang, það kemur hvalur í
Hvallátra. Þórir slær eign sinni á veiðina, en Steinólfur er greinilega
á öðru máli og tekur hana frá mönnum Þóris, hann telur sig greinilega
eiga veiðiréttinn á svæðinu.
Athugum forsögu þessarar deilu, með tilliti til annarra heimilda.
Með Geirmundi heljarskinn komu samkvæmt Landnámabók Steinólfur
lági, Úlfur skjálgi og maður að nafni Þrándur mjóbeinn. Hjónabönd
og ættartölur styðja að þessir höfðingjar mynda kjarna hins forna
Geirmundarveldis. Þrándur setti bú í Flatey, og hann tók allar
Vestureyjar, þar með taldar eyjarnar Hvallátra. Geirmundarveldið
virðist byggja sitt ríkidæmi alfarið á verslun með dýrmætar vörur fyrir
víkingaskip unnar úr sjávarfangi (sjá Bergsvein Birgisson 2013).
Samkvæmt sögunni hrekjast Þórir og hans menn frá áðurnefndum
fundi í Dagverðarnesi (sverðadeilan) til Flateyjar, þar bjó þá Hallgríma
(gift Þrándi mjóbein) og Ingibjörg, báðar dætur Gils skeiðarnefs,
landnámsmanns í Gilsfirði. Þórir rennir girndarauga til Ingibjargar, og
fær hana síðar meir. Þar með virðist Þórir leggja undir sig allt hið forna
landnám Þrándar mjóbeins, sem þarna virðist fallinn frá samkvæmt
sögunni, þar með talda Hvallátra. Menn hafa bent á að slík örnefni hljóti
að tengjast rosmhvölum, enda eru það einu „hvalirnir” sem látra sig upp
á þurru landi (Bjarni Einarsson 1984).
Hvallátrar hafa því verið fyrirtaks veiðistaður, og þarna var þá
um að ræða fornan veiðistað Geirmundarveldisins. Reyndar hlýtur
stærsta veiðiævintýrið að vera yfirstaðið, en þarna kemur aftur hvalur
í Hvallátra. Ekki kemur fram hverskonar hvalur, en nú er það Þórir
sem slær sinni eign á auðlindina. Steinólfur verður reiður er hann fréttir
þetta því hann heldur því greinilega fram að hér sé um fornan veiðistað
Geirmundarveldisins að ræða. Hann siglir því út í Hvallátra og hann og
hans menn taka yfir það sem enn er óskorið af hvalnum og bera til skips.
Enn á ný má finna ástæðu fyrir slíkri röksemdarfærslu, t.d. í
Gulaþingslögum og Frostaþingslögum, þar sem kveðið er á um það sem
alvarlegt lagabrot ef maður veiðir hval í landi annars manns, eða sel í
selveiðiplássi sem tilheyrir öðrum manni (Lindquist 1994: 327–328).
Þannig má segja að hér sé orð á móti orði: Steinólfur heldur því fram