Skírnir - 01.09.2011, Side 12
242
PÁLLSKÚLASON
SKÍRNIR
hugsað sjálfstætt, gagnrýnt hefðir og skilið þýðingu þjáningar og
velgengni annarra. Hér er framtíð lýðræðisins í heiminum í húfi.“ 6
Meginþunginn í rökfærslu Nussbaum er að menntakerfi okkar,
þar sem háskólar vega þyngst, hafi þjónað efnahagsöflunum en van-
rækt að halda uppi þeim siðferðilegu og stjórnmálalegu gildum sem
skipta meginmáli í öllu mannlegu samfélagi. A þessu þurfi að verða
róttæk breyting. Þetta er samhljóma grunnhugmynd indverska
hagfræðingsins og Nóbelsverðlaunahafans Amartya Sen (1999) um
það sem þarf til að byggja upp gott samfélag. Efnahagsleg velgengni
er ekki nóg. Fólk þarf ekki bara fæðu og húsaskjól, vinnu og pen-
inga. Það verður líka að geta nýtt frelsi sitt og hæfileika til að þroska
sig sjálft og njóta andlegra gæða, móta líf sitt og bæta samfélagið.7
Það blasir því við að viðmiðin fyrir velferð þjóðfélagshóps, þjóðar
eða lands geta ekki eingöngu verið af efnahagslegum toga, heldur
verður að taka aðra þætti með í reikninginn, svo sem siðferði,
stjórnmál og listir.
En hvernig á að skýra grunnforsendur velferðar? Hér takast
gjarnan á tvö viðhorf sem bæði orka tvímælis. Annars vegar naum-
hyggja (minimalismi) en frá sjónarhóli hennar byggist velferð fólks
á því að fá það sem það langar til og velur sjálft. Hins vegar há-
markshyggja (maximalismi) en frá sjónarhóli hennar byggist almenn
velferð fólks á því að þörfum þess sé fullnægt í samræmi við ríkjandi
viðhorf í samfélaginu og ákvarðanir stjórnvalda.
Amartya Sen og Martha Nussbaum líta svo á að við þurfum að
finna meðalveg á milli naumhyggju og hámarkshyggju og nálgast
velferðarhugtakið út frá ákveðinni hugmynd um okkur sjálf, þ.e.a.s.
getu okkar sjálfra til að takast á við lífið og móta sjálf leiðir okkar
til velferðar (Vilhjálmur Árnason 2008: 326-327). Þessi geta felur í
6 „Thirsty for national profit, nations, and their systems of education, are heed-
lessly disregarding skills that are needed to keep democracies alive. If this trend
continues, nations all over the world will soon be producing generations of use-
ful machines, rather than complete citizens who can think for themselves, criticize
tradition, and understand the significance of another person‘s sufferings and ac-
hievements. The future of the world's democracies hangs in the balance" (Nuss-
baum 2010: 2).
7 Sjá umfjöllun Vilhjálms Árnasonar (2008: 404-405) um þetta efni í Farsxlt líf rétt-
látt samfélag.