Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Blaðsíða 28
28 Ljósmæðrablaðið - júlí 2015
Vegna búsetuaðstæðna ákváðu undirritaðar að taka hluta af námi
sínu til meistaraprófs í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands sem
gestanemendur við Háskólann á Akureyri. Þessi leið gafst okkur afar
vel og henta námskeiðin á Akureyri þeim ljósmæðrum vel sem búa
ekki á Reykjavíkursvæðinu eða þurfa af einhverjum ástæðum að nýta
sér fjarnám til að ljúka meistaraprófi í faginu.
Í námskeiðinu Eigindlegar rannsóknir voru kynntar
helstu rannsóknaraðferðir í eigindlegum aðferðum undir
handleiðslu sérfræðinga á hverju sviði. Í hugtakagreiningu og
þátttökurannsóknum/starfsendarannsóknum voru unnin hópverkefni
þar sem við ljósmæðurnar í hópnum fengum að vinna saman. Í
báðum þessum verkefnum unnum við með hugtakið valdeflingu (e.
empowerment) og sannfærðumst um mikilvægi þess í klínískri vinnu
í ljósmóðurfræði.
Í hugtakagreiningu í þessu námskeiði gerðum við, ásamt Hálfdáni
Örnólfssyni framhaldsskólakennara, skil á hugtakinu valdeflingu.
Með því að bæta við nálgun menntunarfræða fengum við ólíka
og dýrmæta innsýn í þetta hugtak sem er að okkar mati eitt af
lykilhugtökum í ljósmóðurfræði. Í þessari hugtakagreiningu var
meðal annars unnið út frá hugmyndum Walker og Avant (2005) sem
hafa haft mikil áhrif í hugtakagreiningarsmíð innan hjúkrunarfræði.
Hvað er valdefling og hvers vegna skiptir hún máli fyrir ljósmæður?
Valdefling er flókið hugtak sem á sér mismunandi skilgreiningar
eftir því í hvaða samhengi það er notað og innan hvaða fræðasviðs.
Fræðasvið sem ná til fötlunar, menntunar, félagsráðgjafar,
stjórnunar auk kvennafræða hafa öll stuðst við hugtakið (Hanna
Björg Sigurjónsdóttir, 2006). Innan hjúkrunar- og ljósmóðurfræða
hefur einnig töluvert verið vísað til valdeflingar. Þar hefur
hugtakið til dæmis verið notað í tengslum við meðferðarsamskipti
hjúkrunarfræðinga/ljósmæðra og skjólstæðinga/kvenna (Ellis-Stoll
og Popkess-Vawter, 1998; Hermansson og Martensson, 2011).
Hugtakið valdefling varð reyndar ekki til í tengslum við
heilbrigðisþjónustuna, heldur í tengslum við jafnréttisbaráttuna
á sjöunda áratug síðustu aldar og síðar í ýmiss konar baráttu
minnihlutahópa. Vert er að minnast þess að hugtakið hefur mikið
verið notað í geðheilbrigðismálum hérlendis, sérstaklega í tengslum
við endurhæfingu geðfatlaðra (félagsmálaráðuneytið, 2011), en
hugtakið var einnig talsvert notað af konum í brjóstabyltingunni
síðastliðið vor (Sigríður Guðmarsdóttir, 2015), sem gefur til kynna
að þýðingin valdefling sé að festast í tungumálinu.
Upphafspunktur valdeflingar er skynjun á valdleysi og kúgun.
Sumir fræðimenn hafa einmitt lagt til að auðveldara sé að útskýra
hugtakið með því sem það er ekki. Í heilbrigðisvísindum eru þetta
þættir eins og valdleysi, hjálparleysi, að líða eins og utangátta (e.
alienation) eða að vera öðrum háður (Hermansson og Martensson,
2011). Valdefling er þannig ferli þar sem einstaklingur (hópar) öðlast
innri styrk í gegnum félagsleg samskipti sem hefur jákvæð áhrif á
líf hans og bætir lífsgæði til lengri tíma. Með talsverðri sannfæringu
má halda því fram að fæðing barns sé ferli þar sem möguleiki til
valdeflingar er til staðar.
Í ljósmóðurfræði stöndum við reyndar ágætlega að vígi í
þessum fræðum/efnum, en Sigfríður Inga Karlsdóttir og Sigríður
Halldórsdóttir settu fram kenningu árið 2009 um mikilvægi eflingar/
valdeflingar kvenna í barneignarferlinu, með sérstakri áherslu á
fagmennsku ljósmæðra byggða á rannsóknum þeirra undanfarin
ár. Sú grein er skyldulesning fyrir ljósmæður en þar er gerð grein
fyrir fagmennsku ljósmóðurinnar sem felst í faglegri umhyggju,
faglegri færni, fagvisku, samskiptafærni og sjálfsrækt. Samkvæmt
kenningunni skipa gæði ljósmóðurþjónustunnar stærstan þátt í
reynslu kvenna af barneignarferlinu og gæði þess stuðnings sem
ljósmóðirin veitir er þar lykilatriði.
Valdefling – fyrir konur og ljósmæður
F R Æ Ð S L U G R E I N
Ásrún Ösp Jónsdóttir,
ljósmóðir M.Sc. á
heilbrigðisstofnun Norðurlands
Steinunn H. Blöndal,
ljósmóðir M.Sc. á
Landspítala