Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Blaðsíða 30
30 Ljósmæðrablaðið - júlí 2015
einvörðungu í sér hvatningu til einstaklingsins að gera eitthvað
í sínum málum.
• Skilgreining II setur virka mannréttindabaráttu í brennidepil en í
orðalaginu „til að ákvarðanir þeirra leiði til æskilegra aðgerða og
niðurstaðna“ er sleginn gamalkunnur tónn forræðishyggju um
æskilegar aðgerðir á framandi slóðum. Þessi skilgreining getur
átt við í því samhengi þegar fátækri þjóð er veitt aðstoð til að
byggja skóla líkt og Íslendingar hafa gert í Malaví. Skilgreining
á valdeflingu felur hins vegar í sér ferli á jafnræðisgrunni þar
sem orðalag um æskilegar aðgerðir og fyrirfram mótaðar
niðurstöður standast ekki skoðun.
• Skilgreining III fjallar um jákvæð og uppbyggjandi samskipti
í heilbrigðisþjónustu og breytingar á heilsutengdri hegðun.
Sennilega á hugtakið heilsuefling hins vegar betur við hér
heldur en valdefling.
• Skilgreining IV er gott dæmi um notkun hugtaksins í ákveðnu
samhengi, hér kennarastarfinu. Skilgreiningin er hins vegar
þröng og byggist á upplifun kennarans en tekur ekki til þeirra
áhrifa sem kennslan hefur eða hverjir hinir mótandi aflvakar eru
fyrir nemandann.
• Skilgreining V nær vel að fanga þá vídd hugtaksins sem snýr að
mannréttindum. Þá er lögð áhersla á stöðugt ferli sem breyti í
raun stöðu einstaklingsins gagnvart stærri heild og því hvernig
einstaklingurinn skynjar eigið sjálf. Skilgreiningin sprettur
úr jarðvegi þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu og
er fullmikil áhersla á erfiðar aðstæður við upphaf ferlisins.
Stundum er hugtakið notað þegar ekki er augljóst að
einstaklingurinn búi við undirokun eða mismunun. Þörfin fyrir
valdeflingu gæti þar helgast af óöryggi vegna nýrra aðstæðna
eða vilja til að breyta þeim kringumstæðum sem einstaklingnum
eru búnar. Það gæti átt við um konu sem undirbýr fæðingu og
upplifir fæðingardeildina ópersónulega og yfirþyrmandi stofnun
þar sem hún fær litlu ráðið.
Kröfur til skilgreiningar á hugtakinu valdefling, eigin skilgreining
sett fram og rökstuðningur
Almennt þurfa skilgreiningar á valdeflingu að ná yfir eftirtalin atriði,
að okkar mati, óháð fræðasviði:
• Einstaklingar/hópar stjórna sjálfir ferðinn i, hafa val og finna
innri styrk.
• Ferlið er aðstæðubundið.
• Styrkurinn (útkoman) úr ferlinu veitir áframhaldandi jákvæð
áhrif.
• Samskipti á milli einstaklinga/hópa eru eflandi (samanber
kenningu Sigríðar Halldórsdóttur, 2003a, 2003b), þar á meðal
samskipti á milli þeirra sem veita þjónustu og þiggja hana.
Út frá þessum viðmiðum settum við fram eigin skilgreiningu á
valdeflingu: Valdefling er aðstæðubundið ferli þar sem einstaklingur,
hópar, stofnanir eða samfélög öðlast meiri stjórn á eigin aðstæðum
og upplifa jákvæðar breytingar til hins betra. Þetta ferli á sér stað
í gegnum eflandi félagsleg samskipti. Lykilhugtök í þessu tilliti eru
réttur til sjálfsákvarðana, jafnræði, sjálfsefling og að fólk taki í ríkari
mæli ábyrgð á lífi sínu.
Skilgreining okkar hefur þann kost að hún er fremur víð og fangar
mismunandi aðstæður. Hún horfir til þess að einstaklingar/hópar
öðlist aukna stjórn á aðstæðum sínum og getur það falið í sér aukin
mannréttindi. Hún þrengir sig ekki að hvatningu til einstaklings
til að ná auknum árangri heldur lýtur að gagnvirku ferli sem er
styrkjandi til lengri tíma inn á við sem út á við. Skilgreiningin felur
ekki í sér forræðishyggju þar sem einungis er um valdeflingu að
ræða ef einstaklingurinn eða hópurinn metur sjálfur að jákvæðar
breytingar hafi orðið þar sem hann er við stjórn. Þessi skilgreining
aðgreinir skyld hugtök að því leyti að hún nær til stærra og víðtækara
samhengis heldur en skyldu hugtökin gera hvert um sig.
Við notuðum dæmi úr reynsluheimi ljósmóðurfræða til að varpa
ljósi á hugtakið, en fæðing barns er einmitt ferli þar sem möguleiki til
valdeflingar er til staðar. Í alþjóðasiðareglum ljósmæðra er hugtakið
empower notað í tengslum við grunnskyldur ljósmæðra. Þar segir að
eitt meginhlutverk ljósmæðra sé að styðja konur í að taka virkan þátt
í allri ákvarðanatöku sem snýr að umönnun þeirra í barneignarferlinu
sem og að efla/valdefla konur til að vera eigin málsvarar (ICM,
2008).
Út frá slíkri nálgun leitast ljósmæður við að styrkja konuna í því að
kalla fram eðlislægan styrk sinn og innsæi í barneignarferlinu. Ýmsar
rannsóknir sýna að slæm fæðingarreynsla getur verið niðurbrjótandi
fyrir konur á meðan jákvæð fæðingarreynsla getur haft uppbyggjandi
áhrif til lengri tíma (Beck, 2006; Walsh, 2008).
Í upphafsdæmi okkar nær Jóhanna valdeflingu í gegnum
barneignarferlið. Hún upplifir að hún hafi stjórn og finnur jákvæðar
breytingar á lífi sínu í kjölfarið. Hún tekur sjálf ákvarðanir, tekur
ábyrgð á eigin lífi og fær þjónustu sem byggist á jafnræði. Hún lætur
ekki bugast þótt ytra umhverfi letji hana heldur finnur styrk í gegnum
maka og fagfólk og styðst við aukna vitneskju og upplýsingar til að
vinna bug á kvíðvænlegum aðstæðum. Í sögulegu ljósi má segja að
hún hafi staðið á rétti kvenna til að hafa rödd og taka sér vald í eigin
fæðingum, en oft hefur verið brotið á þessum rétti í gegnum tíðina.
Í jaðardæmi okkar er dregin upp mynd þar sem Sigríður upplifir
ekki jafnræði í samskiptum, sem kemur í veg fyrir að hún sjálf sé við
stjórn í síðari hluta fæðingar. Þótt fæðingarreynslan sé jákvæðari í
heild en sú fyrri er ferlið sem slíkt ekki valdeflandi fyrir Sigríði. Það
var ekki hlustað á hana sem skyldi og hún nær ekki stjórn á aðstæðum.
Reynsla hennar uppfyllir þannig ekki skilyrði skilgreiningarinnar.
Skyldu hugtökin sjálfræði, sjálfsefling, sjálfsöryggi, eigin
talsmaður og heilsuefling eru í raun undirhugtök skilgreiningarinnar.
Valdefling felur í sér víðtækari skírskotun og nær í raun yfir þau öll.
Þessi skyldu hugtök eru nauðsynlegir þættir í valdeflingu en nægja
ekki ein og sér til þess að skilgreina valdeflingu. Við teljum að okkar
skilgreining nái að fanga hinn víðtæka anda hugtaksins valdefling.
Valdefling og þátttökurannsóknir
Að okkar mati er hugtakið valdefling eitt af leiðarljósum
ljósmæðra í starfi. Útgangspunktur í klínísku starfi ætti alltaf að
vera að veita þjónustu þar sem valdefling konunnar/parsins er sett
í öndvegi. Í hugtakagreiningu Hermansson og Martensson (2011) á
valdeflingu í ljósmóðurfræði benda þær á mikilvægi þess að horfa
á barneignarþjónustuna í heild sinni. Það að undirbúa komu barns,
takast á við fæðingu og verða foreldri sé ein stærsta umbreyting í
lífshlaupi fólks. Þær leggja áherslu á að ljósmóðurfræðin verði að
halda áfram að þróast í þá átt að horfa á þá þjónustu sem hún vill
veita með þeim hætti að í henni felist tækifæri til valdeflingar. Í
skilgreiningu Hermansson og Martensson (2011) felur valdefling í sér
fjölbreytilegt og kraftmikið ferli, sem nærir meðal annars skapandi
og eflandi samskipti milli ljósmóður og verðandi foreldra, þar sem
sambandið byggist á virðingu og heilindum. Með virkum samskiptum
myndast möguleiki til að takast á við hvers konar breytingar og
þar með er hægt að styrkja kraft parsins og þeirra bjargráð. Með
valdeflandi samskipti í huga er þannig mikilvægt að mæta konum á
þeim stað sem þær eru og mótun barneignarþjónustunnar þarf að vera
í samráði við þær. Í nútímaheilbrigðisþjónustu er vaxandi skilningur
á því að mótun þjónustunnar eigi alltaf að vera í samráði og út frá
reynslu þeirra sem þjónustuna þurfa (Kristín Björnsdóttir, 2005;
Embætti landlæknis, 2014). Það er til eftirbreytni að í Bretlandi
hefur skapast sú hefð að við stefnumótun í barneignarþjónustu er
alltaf fulltrúi kvenna (eða sá sem þjónustuna þiggur) í stýrinefndinni
(NICE, 2014; NCT, RCM og RCOG, 2007). Þetta þyrftum við að
taka upp hérlendis þegar stærri ákvarðanir um breytingar á þjónustu
fyrir verðandi foreldra eru teknar.
Í þessu samhengi er áhugavert að minnast á þátttökurannsóknir
eða starfendarannsóknir (e. action research), sem er ein aðferð
eigindlegra rannsókna. Einkenni þeirrar rannsóknaraðferðar er meðal
annars að auka gæði eigin starfshátta, en jafnframt að efla notendur
þjónustu og vald þeirra yfir eigin lífi og þátttöku í umbótum sem
varða þá sjálfa, en hugmyndafræði þátttökurannsókna byggist meðal
annars á hugmyndum um valdeflingu (Kristín Þórarinsdóttir og Rúnar