Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Blaðsíða 34

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Blaðsíða 34
34 Ljósmæðrablaðið - júlí 2015 væri að gera. Mér fannst það svo áberandi í þessari fallegu fæðingu hvað Lilja hafði mikla trú á sjálfri sér og fæðingunni og þá fór ég að hugsa um hvað það er algengt að konur séu hræddar í fæðingunni, ekkert endilega þannig að hræðslan taki yfirhöndina heldur skína í gegn efasemdir um eigin getu. Ég spurði Lilju áður en ég fór heim af vaktinni hvernig hún hefði undirbúið sig fyrir fæðinguna og hvernig fæðingu hún hafi séð fyrir sér. Hún sagðist hafa farið í jóga, lesið sér til og allan tímann stefnt að náttúrulegri fæðingu. Ég spurði hana hvort hún hefði verið hrædd á einhverjum tímapunkti, fyrir eða í fæðingunni. Hún neitaði því og sagðist frekar hafa hlakkað til að takast á við fæðinguna. Lilja sagðist hafa verið alveg róleg í fæðingunni því hún hafi fundið að líkaminn vissi hvað hann var að gera. Þegar ég var lítil stelpa varð ég oft svolítið önug og pirruð þegar ég náði ekki tökum á því sem ég tók mér fyrir hendur. Þá var pabbi vanur að segja við mig að það skipti svo miklu máli að vera jákvæður, þá gengi allt svo miklu betur. Nú langar mig til að nota tækifærið og kanna hvort þessi speki föður míns eigi við þegar kemur að upplifun kvenna og útkomu fæðinga. Auka jákvæð viðhorf kvenna til fæðingarinnar líkur á eðlilegri fæðingu, jákvæðri útkomu eða góðri upplifun? Hafa hræðsla og neikvæð viðhorf neikvæð áhrif? Skiptir máli að vita hvað maður vill eða er betra að vera opinn fyrir öllu og taka því sem að höndum ber? Áhrif viðhorfa á fæðinguna Árið 1987 var gerð stór rannsókn í Bretlandi þar sem væntingar og viðhorf barnshafandi kvenna til fæðingarinnar voru könnuð. Einnig voru ýmis atriði varðandi fæðinguna og útkomu hennar skoðuð. Rannsóknin var svo endurtekin árið 2000 til að athuga hvort breytingar hefðu orðið á viðhorfum kvenna síðustu áratugi. Í ljós kom að konur voru marktækt jákvæðari í garð inngripa árið 2000 en þær höfðu verið 1987. Konur með minni menntun og ungar konur voru almennt jákvæðari en aðrar konur fyrir inngripum. Samband var á milli viðhorfa og fæðingarmáta, auknar líkur voru á áhalda- og keisarafæðingu ef konur voru jákvæðar í garð inngripa og voru þær sem voru mjög jákvæðar tvöfalt líklegri til þess að enda í áhalda- eða keisarafæðingu en þær sem voru neikvæðar í garð inngripa. Til að kanna þetta samband nánar voru gerðar tölfræðiprófanir á áhrifum ýmissa þátta sem vitað er að hafa áhrif á fæðingarmáta, eins og gangsetningar, örvanir og mænurótardeyfingar. Í ljós kom að þegar þessir þættir eru teknir með inn í jöfnuna þá voru viðhorf til inngripa ekki lengur marktækur áhrifaþáttur. Viðhorf til inngripa hafði ekki áhrif á líkur á gangsetningu eða örvun en tengdist á marktækan hátt notkun mænurótardeyfinga. Konur sem voru jákvæðari í garð inngripa voru 2,5 sinnum líklegri til að fá mænurótardeyfingu og konur sem fengu deyfingu voru 5,93 sinnum líklegri til að lenda í áhalda- eða keisarafæðingu þegar búið var að útiloka áhrif menntunar, aldurs, fjölda barna, gangsetningar, örvunar og viðhorfa til inngripa. Mikil aukning var á notkun mænurótardeyfinga milli áranna en á sama tíma hafði hlutfall þeirra kvenna sem óttuðust sársauka fæðingarinnar aukist verulega. Það getur verið varasamt að draga ályktanir um orsakasamband á milli mænurótardeyfinga og fæðingarmáta þar sem mænurótardeyfing er oft á tíðum viðbragð við erfiðri fæðingu en áhugavert var að einnig var samband á milli fæðingarmáta og viðhorfum kvenna á meðgöngu til mænurótardeyfingar, óháð því hvort þær enduðu með því að fá deyfingu eða ekki (Green, Baston, Easton og McCormic, 2003; Green og Baston, 2007). Í sænsk-ástralskri rannsókn var gerð tilraun til að kanna áhrif hræðslu, viðhorfa og trúar á fæðingunni á fæðingarmáta og fæðingarupplifun. Ýmsir spurningalistar voru lagðir fyrir konur á meðgöngu og þær svo flokkaðar í þrjá hópa eftir svörum við þeim. Konur sem höfðu sterkar skoðanir á fæðingunni og voru ekki hræddar flokkuðust í sjálfsákvörðunarhóp, þær konur sem höfðu ekki fastmótuð viðhorf til fæðingarinnar og vildu halda öllum möguleikum opnum flokkuðust í „taka því sem koma skal“ hóp. Í þriðja hópinn, hræðsluhóp, flokkuðust svo konur sem lýstu yfir áhyggjum og hræðslu við fæðinguna á meðgöngu. Í ljós kom að viðhorf til fæðingar hafði mikil áhrif á útkomu hennar. Konur í sjálfsákvörðunarhópnum voru lang líklegastar til þess að fæða um fæðingarveg án áhalda eða 44% kvennanna. Aðeins 27% kvenna í hræðsluhópnum og 29% kvenna úr „taka því sem koma skal“ hópnum fæddu um fæðingarveg án áhalda. Konurnar í hræðsluhópnum voru einnig líklegri en konurnar í sjálfsákvörðunarhópnum til þess að upplifa fæðinguna á neikvæðan hátt (Haines, Rubersson, Pallant og Hildingson, 2012). Upplifun kvenna af fæðingunni er afar mikilvægur þáttur þegar horft er á útkomu fæðinga. Sambandið á milli fæðingarupplifunar, sársauka og verkjalyfjanotkunar er flókið en rannsóknir sýna að konur sem óttast sársaukann sem fylgir fæðingunni séu líklegri til að lýsa neikvæðri upplifun. Svo virðist þó vera að jákvæðar væntingar kvenna, stuðningur umönnunaraðila í fæðingu, gæði sambandsins við umönnunaraðila og áhrif kvenna á ákvarðanatöku séu það mikilvægir þættir þegar konur meta upplifun sína af fæðingum að þeir yfirskyggja áhrif annarra þátta eins og verkja, inngripa, fæðingarundirbúning og félagslega stöðu (Hodnett, 2002). Ekki er nóg að konur viti hvað þær vilji í fæðingu ef umhverfið sem þær eru í styður ekki á fullnægjandi hátt við viðhorf og væntingar þeirra. Nýverið var gerð eigindleg rannsókn þar sem sýn 22 kvenna á vali og væntingum í tengslum við fæðinguna var skoðuð í samhengi við fæðingarreynsluna sjálfa. Í ljós kom að konurnar upplifðu sjálfar sig í neytendahlutverki í fæðingarundirbúningnum þar sem þeim fannst eins og þær gætu valið hvernig fæðingu þær vildu upplifa. Flestar konurnar sóttust eftir eins náttúrulegri fæðingu og mögulegt var og vildu sem fæst inngrip. Helmingur kvennanna endaði í keisaraskurði og aðeins tvær konur fæddu án allra inngripa. Þrátt fyrir áætlanir og upplýstar ákvarðanir fyrir fæðinguna þá virtist erfitt fyrir konurnar að halda áfram að vega og meta kosti og galla þegar inn í fæðinguna var komið. Margar konur lýstu snjóboltaáhrifum þess þegar fyrsta inngripið kom til sögunnar og að þær hefðu ekki haft forsendur til þess að taka ákvarðanir um það sem fylgdi á eftir. Konurnar upplifðu að ýmsir valmöguleikar hefðu verið í boði í aðdraganda fæðingarinnar en þegar á hólminn var komið og boltinn farinn að rúlla upplifðu þær ákveðið valdleysi. Þær voru yfirleitt þakklátar heibrigðisstarfsmönnum en kenndu sjálfum sér um ef reynsla þeirra var ekki í samræmi við væntingar (Malacrida og Boulton, 2014). UMRÆÐUR Margt bendir til þess að útkoma fæðinga og fæðingarupplifun tengist tilfinningum og mótun viðhorfa á meðgöngu. Að stefna að jákvæðri upplifun kvenna af fæðingunni hlýtur að vera eitt af meginmarkmiðum ljósmæðraþjónustu á meðgöngu og í fæðingu og því mikilvægt að ljósmæður séu meðvitaðar um áhrif viðhorfa og væntinga þar á. Það gæti verið sérstaklega mikilvægt fyrir ljósmæður að gefa þeim konum gaum sem ekki hafa sérstakar óskir eða væntingar til fæðingarinnar. Sá hópur virðist viðkvæmur og líklegri til að lenda í áhalda- eða keisarafæðingu en þær sem hafa skoðanir á fæðingunni og eru ekki hræddar (Haines o.fl., 2012). Ég velti því fyrir mér hvort hlutleysi ljósmæðra þegar þær fræða konur um fæðingu og fæðingarundirbúning sé ef til vill of mikið. Þar sem tengsl viðhorfa og útkomu fæðinga virðist helst liggja í gegnum notkun mænurótardeyfinga gæti aukin vitundarvakning um áhrif deyfingarinnar á fæðingar haft áhrif á viðhorf kvenna í hennar garð og minnkað notkun hennar. Fæðingin hennar Lilju var svo ótrúlega lærdómsrík fyrir mig. Það var ekki beint vegna þess að eitthvað gerðist eða gerðist ekki heldur var það sjálfsöryggi hennar, róin og trúin á eigin getu sem vakti mig til umhugsunar um svo ótalmargt. Ég fór að hugsa um hvað það er mikilvægt fyrir mig sem ljósmóðurnema að komast í snertingu við náttúrulegar fæðingar í náminu til þess að læra að þekkja og treysta lífeðlislegu ferli. Það væri óskandi að á höfuðborgarsvæðinu væri líka fæðingarstaður sem legði áherslu á náttúrulegar fæðingar. Annars er hætt við því að dýrmæt ljósmæðraþekking tapist smá saman því að

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.