Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Blaðsíða 36

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Blaðsíða 36
36 Ljósmæðrablaðið - júlí 2015 Meðganga og Staphylococcus lugdunensis Á innan við einu ári hafa rekið á fjörur mínar tvær þungaðar konur, búsettar á sitt hvoru landshorninu, í auka mæðraskoðun vegna verkja og óþæginda. Báðar lýstu svipuðum einkennum. Voru þær gengnar yfir 34 vikur og áttu von á öðru barni. Báðar konurnar voru með þrýstings- verki/samdrætti og eymsli yfir legi, þrýsting niður í leggöng auk ríkulegrar gulgrænleitrar útferðar. Héldu þær jafnvel að legvatn væri farið að renna, sem ekki reyndist vera. Eðlileg lífsmörk mældust hjá þeim og hjartsláttarrit voru eðlileg. Vegna einkenna var tekið strok frá leggöngum og sent í ræktun, næmispróf og talningu (RNT). Hjá annarri konunni var strokið endurtekið og sent til Reykjavíkur í nánari skoðun, þar sem erfitt var að greina sýnið. Niðurstöður ræktunar hjá báðum þessum konum sýndu að þær voru með Staphylococcus lugdunensis í leggöngum. Kemur það heim og saman við lýsingu kvennanna á útferðinni sem var gulgrænleit eins og einkennir vöxt S. lugdunensis (Babu og Oropello, 2011). Næmi var fyrir venjulegum sýklalyfjum eins og penicillini og erythromycini. Fengu þær báðar sýklalyf á meðgöngunni og fór fljótlega að líða betur og urðu einkennalausar. Önnur kvennanna hefur fætt þegar þetta er skrifað og gekk fæðing eðlilega fyrir sig. Ekki var merki um sýkingu hjá konu eða barni í kjölfar hennar. Hin er enn í meðgöngu, en líður mikið betur og upplifir ekki lengur þau einkenni sem hún lýsti við komu í mæðraverndina. Staphylococcus lugdunensis er grampósitív baktería, coagulus negatív, sem fyrst var lýst af Freney og félögum árið 1988. Er nafn hennar dregið af latnesku heiti borgarinnar Lyon í Frakklandi, þar sem hún greindist fyrst (Babu og Oropello, 2011; Shah o.fl., 2010). Hefur verið sýnt fram á að S. lugdunensis tengist sýkingum í hjartaþeli, blóði, veldur bráða ígerðum (septic shock og toxic shock syndrome), bráðum munnsýkingum og þvagfærasýkingum. Staphylococcus lugdunensis er einnig þekktur orsakavaldur fyrir sýkingum í liðum, beinum og húð, ekki síst í tengslum við skurð- aðgerðir, svo og í taugakerfi, það er mænu og heila. Þá hefur S. lugdunensis verið tengd alvarlegum sýkingum hjá mæðrum eftir fæðingu, hefur ræktast úr legvatni við keisaraskurð og þekkt fyrir að valda n ýburasýkingum (Marchohcki o.fl., 2013; Shaaban, Choo og Sensakovic, 2011; Shah o.fl., 2010; Srun o.fl. 2013). Þessir greina- höfundar taka þó fram að þörf sé á frekari rannsóknum tengdum S. lugdunensis. Sýnt hefur verið fram á að sýking af völdum S. lugdunensis hefur valdið fósturláti hjá kúm (Ardigó, D´Incau og Pongolini, 2014) og nefna höfundar að þessi baktería sé vangreind og ætti að hafa hana í huga þegar leitað er eftir orsökum sýkinga. Í ýmsum þeim greinum sem hér er vitnað til er S. lugdunensis (Ardigò, D‘Incau og Pongolini, 2014; Marchocki o.fl., 2013) talin vera oft misgreind sem Staphylococcus aureus. Kemur það heim og saman við það sem lífeindafræðingar þeir sem rannsökuðu þessi sýni sögðu. Nefndu þeir að S. lugdunensis væri jafnvel ekki greind rétt þar sem það þarf fleiri próf og lengri tíma til að greina hana en ýmsa ættingja hennar. Þess vegna sé gott að muna eftir tilvist hennar þegar stap- hylococcar greinast í sýnum (munnleg heimild Sigurlaug Þráinsdóttir, 23. október 2014). Af þessari litlu samantekt um tvö atvik í mæðravernd á árinu 2014 sem tengjast Stap- hylococcus lugdunensis tel ég að hafa beri í huga að taka sýni frá leggöngum hjá konum á meðgöngu sem lýsa óþægindum og vanlíðan eins og raunin var í þessum atvikum og láta rækta og greina eins nákvæmlega og kostur er. Komi í ljós að þær greinist með Staphylococcus lugdunensis er rétt að meðhöndla þær með viðeigandi sýklalyfjum til varnar frekari einkennum og minnka með því líkur á að kona og barn veikist alvarlega. HEIMILDASKRÁ Ardigò, P., D‘Incau, M. og Pongolini, S. ( 2014, 7. október). Abortion in cattle due to infection with Staphylococcus lugdunensis. Journal of Veterinary Diagnostic Inve- stigation. doi: 10.1177/1040638714550182 Babu, E. og Oropello, J. (2011). Staphylococcus lugdunensis: The coagulase-negative staphylococcus you don´t want to ignore. Expert Review of Anti-infective Therapy, 9(10), 901‒907. doi: 10.1586/eri.11.110 Marchocki, Z., Collins, K., Lehane, E., O´Reilly, P. og O´Donognue, K. (2013). Stap- hylococcus lugdunensis cultured from the amniotic fluid at caesarean section. Plos One, 8(2): e56373. doi:10.1371/journal.pone.0056373 Shaaban, H.S., Choo, H.F. og Sensakovic, J.W. (2011). A case of staphylococcus lugdunensis related pyomyoma occurring after caesarean section. Journal of Global Infectious Diseases, 3, 101‒102. Shah, N.B., Osmon, D. R., Fadel, H., Patel, R., Kohner, P.C. Steckelberg J.M. o.fl. (2010). Laborathory and clinical characteristics of staphylococcus lugdunensis prost- hetic joint infections. Journal of Clinical Microbiology, 5, 1600‒1603. doi: 10.1128/ JCM.01769-09. Srun, S., Sinath, Y., Seng, A.T., Chea, M., Borin, M., Nhem, S., o.fl. (2013, 15. ágúst). Surveillance of post-caesarean surgical site infections in a hospital with limited resources, Cambodia. The Journal of Infection in Developing Countries 7(8): 579‒585 doi:10.3855/jidc.2981 Björg Sigurðardóttir ljósmóðir B.ed., M.Sc á heilbrigðisstofnun Suðurnesja

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.