Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Blaðsíða 29

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2015, Blaðsíða 29
29Ljósmæðrablaðið - júlí 2015 Skilningur á valdeflingu er nátengdur þeim skilningi sem lagður er í hugtakið vald. Annar höfundur áðurnefndrar kenningar, Sigríður Halldórsdóttir (2003a, 2003b), setti fram kenningu um samskiptahætti og áhrif þeirra í heilbrigðiskerfinu. Grundvallarspurningin í þeirri kenningu er hvernig manneskja sem hefur í hendi sér ákveðið vald yfir annarri manneskju notar það vald; allt frá því að gefa vald (eflandi samskiptaháttur) yfir í að beita valdi (niðurbrjótandi samskiptaháttur). Sigríður heldur því fram að við höfum öll einhvers konar vald, vald sé í sjálfu sér hlutlaust hugtak en það hvernig það er notað breytir umhverfinu og mótar það. Sigríður lítur svo á að með eflandi samskiptahætti geti einstaklingur upplifað að hann eflist hið innra, finni fyrir styrkingu frá öðrum, venjulega í gegnum samræður, samskipti og jákvæð tengsl. Hugmynd hennar um eflingu/ valdeflingu felur í sér að hún auki vald og stjórn einstaklingsins yfir sjálfum sér og aðstæðum sínum, eyði tilfinningu um varnarleysi og að viðkomandi öðlist styrka rödd. Í þeim anda er í þessari grein brugðið upp dæmum úr reynsluheimi fæðandi kvenna til að varpa frekara ljósi á hugtakið valdeflingu. Við setjum fram skálduð dæmi úr starfi sem eiga að varpa skýrara ljósi á hugtakið valdeflingu; um er að ræða dæmigert tilvik og jaðartilvik, en einnig er varpað ljósi á skyld hugtök. Þá er gerð grein fyrir ólíkum skilgreiningum á hugtakinu valdeflingu og umræða um og gagnrýni á þær skilgreiningar ræddar. Að lokum setjum við fram okkar eigin skilgreiningu á hugtakinu valdefling og hvernig hún tengist hinu dæmigerða tilviki sem sett var fram í upphafi. Í lok umfjöllunarinnar ræðum við lítilsháttar hvernig við ljósmæður getum nýtt hugtakið valdeflingu í starfi og rannsóknum. Hugtakið valdefling frá nokkrum sjónarhornum – dæmi og ólíkar skilgreiningar Dæmigert tilvik (e. model case) Jóhanna gengur með sitt fyrsta barn. Meðgangan er mjög kærkomin en Jóhönnu finnst spítalaumhverfið erfitt og kvíðvænlegt. Hún á að baki erfiða persónulega reynslu og treystir ekki fullkomlega „kerfinu“. Hún hefur lesið sér til um heimafæðingar og hún og maki hennar hafa áhuga á að kynna sér það betur. Hún ræðir þessar hugmyndir við ljósmóðurina sem upplýsir hana um mismunandi þjónustuform í barneignarferlinu og setur hana í samband við heimafæðingarljósmóður. Barneignarferlið verður styrkjandi fyrir samband þeirra hjóna, þau kynna sér saman ólíka fleti og taka upplýst val um heimafæðingu. Fólk í kringum þau lýsir furðu á ákvörðuninni og ýjar að því að þau séu að taka óþarfa áhættu. Jóhanna og maki hennar vísa í rannsóknir og eru sannfærð um að heimafæðing sé bæði öruggari og betri fyrir þau. Jóhanna tekst sjálf á við fæðinguna í eigin umhverfi og finnur fyrir eigin styrk. Síðar á lífsleiðinni getur Jóhanna sótt styrk í þessa jákvæðu reynslu þar sem hún stóð með sjálfri sér. Jaðardæmi (e. boarderline case) Sigríður er barnshafandi að sínu öðru barni. Henni fannst ekki hlustað á sig í fyrri fæðingu og upplifði að þjónustan væri ópersónuleg og sjúkdómsvædd. Hún býr í Hafnarfirði en ákveður að fæða í Keflavík þar sem hún hefur heyrt að þjónustan sé öllu persónulegri en á Landspítala. Hún ræðir þessar hugmyndir sínar við ljósmóður í mæðravernd sem sýnir henni skilning og hvetur hana til að taka ákvörðun á sínum forsendum. Þegar kemur að fæðingunni gengur allt vel en Sigríður upplifir að ljósmóðirin taki stjórnina að einhverju leyti. Heildarupplifun Sigríðar er að flestu leyti jákvæð en henni finnst hún missa stjórnina og vald yfir sjálfri sér og aðstæðum undir lokin. Skyld hugtök. (e. related cases) Í fræðilegri umræðu hefur hugtakið valdefling verið tengt við hugtök á borð við sjálfsöryggi (e. self-efficacy), sjálfræði (e. self-autonomy), sjálfseflingu eða það „að vera eigin talsmaður“ (e. self advocacy). Hildur Sigurðardóttir hefur (2009) gert ítarlega grein fyrir námskenningu Bandura um sjálfsöryggi í ljósmóðurfræði og hvernig hún getur nýst til að efla sjálfstraust kvenna í fæðingum. Þar er sjálfstraust skilgreint sem trú einstaklinga á eigin getu eða hæfni til þess að framkvæma eða takast á við hin ýmsu verkefni eða aðstæður í lífinu. Hugtakið sjálfræði er flókið hugtak líkt og valdefling. Í sinni einföldustu mynd má segja að kjarni hins siðferðilega hugtaks um sjálfræði sé það að ráða sér sjálfur, geta tekið eigin ákvarðanir og valið hvernig maður lifir lífi sínu. Gjarnan er vísað til sjálfræðis sem hæfileika einstaklingsins til að vera gerandi í eigin lífi. Lengi hefur verið tekist á um skilgreiningu á sjálfinu, en í tengslum við valdeflingu hefur verið vísað í hið félagslega sjálf, sem er aðstæðubundið og ber keim af þáttum eins og félagslegri stöðu og menningu (Ástríður Stefánsdóttir, 2012). Tengt þessu er hugtakið „að vera eigin talsmaður“ (e. self- advocacy). Slagorðið „ekkert um okkur án okkar“, sem ýmis hagsmunasamtök hafa notað, lýsir ágætlega inntaki þess. Enginn getur talað fyrir manns hönd nema maður sjálfur. Það að vera ekki útilokaður frá samræðunni heldur beinn þátttakandi í henni er meginuppistaðan í því ferli sem þetta hugtak nær yfir (félagsmálaráðuneytið, 2011). Þá stendur sjálfsefling mjög nærri hugtakinu valdefling og er í einhverjum tilfellum notað sem samheiti. Rétt eins og í tilfellinu hér að framan liggur munurinn helst í því að valdefling er víðtækara hugtak með áherslu á félagsleg samskipti þar sem hugtakið vald kemur ríkar við sögu (Hanna Björg Sigurjónsdóttir, 2006). Eftirfarandi eru fimm dæmi um ólíkar skilgreiningar á hugtakinu valdefling: • I. Valdefling er hvernig einstaklingar eru hvattir til að finna eigin kraft til þess að vinna að velferð sinni og hámörkun lífsgæða (Hervör Alma Árnadóttir, munnleg heimild, 8. apríl 2011). • II. Leið til þess að auka getu einstaklinga eða hópa til að taka ákvarðanir og til að ákvarðanir þeirra leiði til æskilegra aðgerða og niðurstaðna (utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun Íslands, 2013). • III. Ferli á milli hjúkrunarfræðings og skjólstæðings sem byggist á virkri þátttöku og hefur það að markmiði að skjólstæðingur breyti slæmum heilbrigðisvenjum. Breytingin felur í sér þróun meðferðarsambands þar sem virk hlustun og þátttaka skapar nýja þekkingu. Afleiðingin er valdeflandi ferli sem leiðir til heilsueflandi hegðunar fyrir skjólstæðinginn (Ellis-Stoll og Popkess-Vawter, 1998). • IV. Valdefling er það að kennurum er falið vald eða veitt umboð til að ráða sjálfir yfir því fagi sem þeir nýta í starfi sínu. Þeir geti því unnið sem fagmenn og þannig styrkt fagvitund sína og stöðu í samfélaginu (Edda Kjartansdóttir, 2010). • V. Valdefling er stöðugt og aðstæðubundið ferli sem gerir einstaklingum kleift að upplifa að þeir geti og hafi rétt til að bregðast við eigin aðstæðum. Aðstæðurnar einkennast af ójöfnuði, ósanngirni, undirokun eða mismunun og mótast af samspili margra þátta eins og menningu, persónulegum þáttum auk stofnanalegra (Hanna Björg Sigurjónsdóttir, 2006 ). Framangreindar skilgreiningar bera með sér að hugtakið valdefling mótast eftir aðstæðum og að notkunarmöguleikarnir spanna vítt svið. Þrátt fyrir víðtæka notkun á ýmsum fræðasviðum er hugtakið valdefling fremur nýtt í íslensku hversdagsmáli, en það er tilfinning höfunda að notkun hugtaksins sé að festast í sessi. Umræða um skilgreiningar og gagndæmi • Skilgreining I inniheldur nauðsynlegt lykilatriði sem er að einstaklingur finnur eigin kraft. Hún getur til dæmis átt við þegar nemandi er hvattur til að leggja meiri alúð við nám eða þegar einstaklingur breytir lífsstíl sínum til hins betra. Markmiðssetningin um „velferð og hámörkun lífsgæða“ er hins vegar of víð og óljós til að fanga öll þau atriði sem felast í valdeflingu. Skilgreiningin nær ekki heldur að fanga þá vídd hugtaksins sem snýr að virkri eflingu eigin réttinda gagnvart stærri heild, jafnvel mannréttinda, þar sem skilja má að hún feli

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.