Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 27

Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 27
Litli-Bergþór 27 Ritstjórn LB komst nýlega á snoðirnar um að í spurningalistum Þjóðminjasafns Íslands væri að finna svör frá manni, Stefáni Árnasyni, um sumardvöl sína á ónefndu bóndabýli hér í Biskupstungum. Spurningalistana má finna á heimasíðu Þjóðminjasafnsins, nánar tiltekið: http:// www.thjodminjasafn.is/minjar-og-rannsoknir/ thjodhattasafn/rannsoknir/spurningalistar/nr/2435 Á heimasíðunni segir í umfjöllun um sumar- dvalaspurningalistann: „Spurt er um sumardvöl barna í sveit, m.a. um ástæður dvalarinnar og hvaða börn voru send í sveit. Auk þess er spurt um vinnuframlag barnanna, frístundir þeirra, aðbúnað á bæjunum, samskipti og viðhorf og út í „leikskóla“ á sveitabæjum.“ Svör Stefáns voru skemmtileg og vörpuðu góðri mynd á sjónarhorn unglings sem sendur var til ókunnugra í sveit um árabil. Við höfðum upp á Stefáni og veitti hann okkur góðfúslega leyfi til að birta svör hans hér í LB. Þar sem Stefán lætur þess ekki getið hvar hann dvaldist né nöfn fjölskyldumeðlima þá er rétt að það komi fram að hann var í Dalsmynni hjá hjónunum Erlendi Gíslasyni (1907-1997) og Guðrúnu Guðmundsdóttur (1911-1976) og börnum þeirra Hreini (1935-1997), Eyvindi (f. 1937), Erni (f. 1938), Sigrúnu (f. 1942) og Eddu Ragnhildi (f. 1950). Svör Stefáns birtast hér eins og hann svaraði þeim en inn á milli eru spurningarnar úr spurningalistunum. Send í sveit Ég fór í sveit 10 ára gamall árið 1954. Fyrsta sumarið var ég í rúman mánuð. Síðan var ég fimm sumur í viðbót á sama bænum og yfirleitt fjóra mánuði hvert sumar. Þau ár fór ég gjarnan seinni partinn í maí og kom aftur beint í skólann í lok september. Bærinn var ofarlega í Biskupstungum. Þar bjuggu hjón með fimm börnum sínum. Þar voru þrír synir allir eldri en ég og voru þeir ýmist að heiman eða heima þessi sumur. Dætur voru tvær. Önnur tveim árum eldri en ég, hin miklu yngri. Þetta fólk var ekkert skylt mér og ég þekkti þau alls ekkert þegar ég fór fyrst. Ég hafði tvisvar áður farið að heiman í Vatnaskóg, viku í hvort skipti. Ég kvaddi móður mína niður á BSÍ, sem þá var þar sem Hafnarstræti í Reykjavík endar. Þaðan var farið í rútu frá Ólafi Ketilssyni. Hann var aldrei nefndur annað en Óli Ket og gengu um hann miklar sögur í sveitinni. Ferðin tók fjórar til fimm klukkustundir, því víða var stoppað. Ég fór einn en tekið var á móti mér við afleggjarann heim að bænum. Ég gleymi aldrei þegar skeggjaður og að því að mér fannst gamall maður sagði glaðlega við bílstjórann: „Ertu með kaupamann handa mér?“ Núna get ég reiknað út að hann var tæplega fimmtugur þá. Ég kveið Sumardvöl í sveit Stefán Árnason. engu og var svellkaldur og hlakkaði til. Ég man að það vakti umtal á bænum og þótti merkilegt að ég var ekki með ferðatösku heldur koffort. Þetta koffort fylgdi mér öll árin og stóð ávallt við hliðina á rúminu mínu. Ástæður sumardvalar Móðir mín og ég sjálfur töldum það bæði hollt og gott fyrir mig að komast í sveit. Mig einfaldlega langaði. Móðir mín taldi það sjálfsagt. Eftir að ég eignaðist sjálfur börn skil ég varla hvers vegna móðir mín tók það í mál að ég væri þriðjung ársins í burtu. Það er á hreinu að þetta var ekki vegna vandamála. Móðir mín var Reykvíkingur, fædd 1910. Hún fór sjálf í sveit austur í Tungur og þekkti til húsmóðurinnar á bænum frá þeim tíma. Þær höfðu ekki talast við frá barnsárum, þegar móðir mín hringdi og bað fyrir mig. Þannig má segja að um kunningsskap hafi verið að ræða. Ég tel að í upphafi hafi verið um greiða að ræða. Seinna meir vildu þau hafa snúningastrák, þar sem synirnir voru að fullorðnast. Á flestum bæjum í nágrenninu voru sumarstrákar, ef synirnir voru ekki á réttum aldri. Hvaða börn Ég þekkti ekkert annað en normal börn frá normal heimilum. Vinnuframlag Ég tók meiri og meiri þátt í búrekstrinum eftir því sem aldur og þroski jókst. Stelpan, jafnaldra mín gekk í öll störf inni sem úti. Ég tók hins vegar ekki þátt í innistörfum. Það gerðu karlmenn ekki á þessum bæ. Ég man eftir einum degi. Þá var húsmóðirin veik og jafnaldra mín, dóttirin á bænum, af bæ. Þá var ég beðinn um að þvo upp eftir hádegismatinn, 14 ára karlmaðurinn. Húsbóndinn bað mig afsökunar á þessari bón og bar við erfiðum aðstæðum. Mér fannst þetta hins vegar fínt enda alvanur húsverkum að heiman.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.