Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 39

Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 39
Litli-Bergþór 39 Starf hestamannafélagsins Loga var með hefð- bundnum hætti á liðnum vetri. Vetrarmót í samstarfi við hestamannafélagið Trausta voru þrjú að venju. Fyrsta mótið var haldið í Hrísholti í febrúar í blíðskaparveðri við góðar vallaraðstæður. Eins og oft áður var veðurfar risjótt og völlurinn blautur þegar kom að því að halda mót númer tvö. Það hafðist þó að lokum, þó halda yrði mótið seinna en áætlað var. Af svipuðum ástæðum var svo síðasta mótið haldið í Flúðahöllinni og þótti það takast vel til. Uppsveitadeild fullorðinna hófst svo í febrúar og lauk í apríl og tókst prýðilega eins og fyrri ár. Að þessu sinni var aðal styrktaraðili deildarinnar Hótel Geysir. Af ofangreindu má sjá að samstarf hestamanna- félaganna þriggja, Loga, Trausta og Smára er mikið og öflugt. Ekki síst er það Flúðahöllinni góðu að þakka og var það mikið gæfuspor á sínum tíma að Logi skyldi leggja fjármuni í húsið og eignast þannig hlut í því. Við sem húsið eigum og notum verðum að hjálpast að við að reka það og halda í góðu horfi, því það er fljótt að láta á sjá ef illa er um það gengið. Nú í vetur var stofnaður hópur Hollvina reiðhallarinnar sem vilja halda utan um sjálfboðaliðastarf og verkefni í reiðhöllinni. Til að slíkur hópur gangi verða allir sem að telja húsið sjálfsagðan hlut og vilja nota það, að leggjast á eitt og vera tilbúnir að leggja á sig einhverja sjálfboðavinnu við húsið. Starf Loga heldur svo áfram inn í sumarið með sínum hefðbundnu viðburðum. Reiðnámskeið, firmakeppni, reiðtúrar um alla sveit, Hestaþing Loga og svo mætti lengi telja. Nú er líka stórt ár í hestamennskunni, en Landsmót verður haldið á Hellu í sumar og eru Logafélagar í óða önn að undirbúa sig fyrir úrtöku inn á mótið. Á aðalfundi Loga, sem haldinn var í apríl, urðu miklar mannabreytingar í stjórn félagsins. M.a. urðu formannaskipti og tók Einar Á. Sæmundsen við því starfi af mér. Að endingu vil ég þakka fráfarandi stjórn fyrir gott og öflugt starf um leið og ég óska þeirri nýju gæfu og velfarnaðar. Tungnamönnum öllum þakka ég gott samstarf og velvild í garð félagsins, en það er lítið mál að vera formaður í félagi þegar samfélagið styður vel við félagsstarfið. Gleðilegt sumar, Guðrún S. Magnúsdóttir. Logafréttir Uppsveitadeild Æskunnar fór einnig fram, nú fjórða árið í röð. Að venju stóð unga fólkið í Loga sig með stakri prýði og sópaði til sín öllum helstu verðlaunum. Líkt og sl. vetur var hópur barna og unglinga á kúrekanámskeiði í Flúðahöllinni. Þar nálguðust krakkarnir hestinn í gegnum glens og leik, þar sem mikil áhersla var lögð á jafnvægi og snerpu. Mikil ánægja var með námskeiðið enda breiður hópur barna og unglinga sem skemmti sér saman á hestbaki. Einnig var hópur barna og unglinga á námskeiði hjá Sóloni í Hrosshaga í vetur, þar sem farið var í uppbyggingu keppnishests. Námskeiðið fór að hluta fram í reiðhöllinni á Kjóastöðum og fengum við þar inni endurgjaldslaust. En þau hjón Gunnar og Þóra á Kjóastöðum hafa sýnt æskulýðsstarfi félagsins mikinn áhuga og stutt það dyggilega undanfarin ár. Töltmót var svo haldið í apríl í samstarfi við hestamannafélögin Trausta og Smára og fór það fram í Flúðahöllinni. Sigríður Mjöll Austurhlíð, Matthías Jens Friðheimum og Magnús Skúli Bræðratungu að munda snörurnar á kúrekanámskeiði. Sigurlið Uppsveitadeildar Æskunnar. Frá vinstri: Sóley Erna, Sigríður Magnea, Karitas Ármann, Eva María, Emil Þorvaldur og Rósa Kristín. Fyrir framan eru Sölvi Freyr og Unnur. Á myndina vantar Elínu Helgu, Guðnýju Helgu og Þórhildi Júlíu, sem lögðu sitt af mörkum fyrir liðið.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.