Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 38

Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 38
38 Litli-Bergþór Gullspretturinn fór fram laugardaginn 14. júní. Sigurvegarar urðu Kári Steinn Karlsson, sem bætti fyrra met sitt og hljóp á 32:07 mín., og Agnes Kristjánsdóttir á tímanum 40:41 mín. Forsvarsmenn hlaupsins eru Gríma Guðmundsdóttir og Sigurður Halldórsson. Á fyrsta fundi nýrrar sveitastjórnar 16. júní var Helgi Kjartansson valinn oddviti og Valgerður Sævarsdóttir varaoddviti og er hún jafnframt formaður byggðaráðs. Valtýr Valtýsson var áfram ráðinn sem sveitarstjóri og Helgi var ráðinn í hálft starf á skrifstofu sveitarfélagsins. Skipaður var vinnuhópur til að vinna úr skýrslu Ingvars Sigurgeirssonar „Skipan skóla í Bláskógabyggð“ og skal hópurinn hraða starfi sínu sem mest. Sveitarstjórn styrkir Umf. Laugdæla um 250 þúsund kr. til gerðar tveggja strandblakvalla við Laugarvatn. Sveitarstjórn beinir tilmælum til íbúa að eyða skógarkerfli og sendar hafa verið út leiðbeiningar þar að lútandi til íbúa sveitarfélagsins. Íbúar eru þar minntir á að smakka á plöntunum og ef ekki er lakkrísbragð af þeim þá beri að eyða kerflinum. Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur í Aratungu þar sem fjallkona var Dýrfinna Guðmundsdóttir frá Iðu. Flutti hún ljóðið „Land og þjóð“ eftir Jón Magnússon. Nýstúdentinn Bjarni Sævarsson Arnarholti flutti hátíðarræðuna í ár. Haldið var einnig upp á daginn við Héraðsskólann á Laugarvatni þar sem kynnir var Sigurbjörn Árni Arngrímsson. Vígsla nýuppgerðra Tungnarétta fór fram laugardaginn 21. júní 2014 kl. 14 í góðu veðri. Þar afhenti Brynjar Sigurðsson á Heiði, f.h. Vina Tungnarétta, Helga Kjartanssyni oddvita, f.h. sveitarstjórnar, réttirnar til varðveislu og viðhalds. Lagði hann sérstaka áherslu á viðhaldsþáttinn, sem ekki var nægilega sinnt við gömlu réttirnar. Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra klippti á borðann, sr. Hjálmar Jónsson blessaði mannvirkið og Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra hélt eina af sínum rómuðu ræðum með dyggri aðstoð Jóhannesar Kristjánssonar eftirhermu sinnar. Sama dag, 21. júní, opnuðu þau Brynjar og Marta á Heiði veitingastofuna „Við Faxa“ í brekkunni við veginn niður að réttunum.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.