Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 35

Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 35
Litli-Bergþór 35 Guttormur Bjarnason og Signý Guðmundsdóttir sögðu um áramót upp starfi sínu sem ráðsmenn í Skálholti og ætla að bregða búi á næstu fardögum, þ.e. um mánaðarmót maí - júní. Þau munu flytja á höfuðborgarsvæðið. Staða ráðsmanns í Skálholti var auglýst í apríl og var mikill áhugi á starfinu Sóttu um 15 manns um. Kirkjuráð réði í starfið í lok maí og eru það hjónin Jóna Þormóðsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson sem eru nýir ráðsmenn í Skálholti. Voru þau áður með búskap í Álftafirði, en hafa ekki verið við bústörf í nokkur ár. Hún er búfræðingur frá Hvanneyri. Skálholtsstaður hélt þeim Signýju og Guttormi kveðjusamsæti í Skálholtsskóla að lokinni messu á uppstigningardag 29. maí. Var það fjölmennt og fór vel fram. Kirkjuráð auglýsti einnig í febrúar eftir fólki til að taka við rekstri Skálholtsstaðar, veitinga- og hótelrekstrinum. Engin niðurstaða var komin í það mál þegar blaðið fór í prent. Knútur Ármann og Helena Hermundardóttir voru ein þeirra, sem hlutu Landbúnaðarverðlaun, sem veitt voru í 18. sinn á búnaðarþingi í byrjun Mars 2014. Eru verðlaunin veitt aðilum sem sýna áræðni og dugnað og eru til fyrirmyndar. Verðlaunin voru steinleirsskúlptúr á stöpli úr íslensku birki, unninn af Sigríði Helgu Olgeirsdóttur i Hruna. Jón K.B. Sigfússon, kokkur í Aratungu, hefur sagt starfi sínu lausu sem matráður þar og mun einbeita sér eingöngu að veitingarekstri á Friðheimum. Í apríl og maí bauð Jón gestum sínum á Friðheimum upp á brauð með birkisafa, en eingöngu er hægt að nýta birkisafann frá miðjum apríl fram í maí. Auglýst var eftir nýjum matráði í Aratungu og hefur Steinunn Lilja Heiðarsdóttir verið ráðin. Júlíana Tyrfingsdóttir hefur sagt upp starfi leikskólastjóra Álfaborgar og tekur við starfi leikskólastjóra á Selfossi. Staða hennar hefur verið auglýst laus til umsóknar. Kristinn J. Gíslason sagði starfi sínu lausu sem sviðsstjóri framkvæmda- og þjónustusviðs Blá- skógabyggðar og í hans stað var samþykkt að ráða nafna hans, Kristinn Lúðvík Aðalbjörnsson frá Akranesi. Hafdís Leifsdóttir hefur látið af störfum sem umsjónarmaður fasteigna Bláskógabyggðar í Reykholti en þau hjónin eru að flytja til Reykjavíkur. Unnið er nú að endurmati á starfi umsjónarmanns fasteigna í Reykholti á vegum sveitarstjórnar. Nýting félagsheimilisins Aratungu hefur aukist nokkuð á síðast liðnu ári. Sveitarstjórn lét yfirfara starfslýsingar starfsmanna í Aratungu og staða umsjónarmanns hefur nú verið auglýst laus til umsóknar. Hjónin Mika og Bozena í Café Mika hafa keypt húsnæðið Bjarkarhól í Reykholti af Ingu Þyri Kjartansdóttur og Bergþóri Úlfarssyni. Þau hyggjast stækka við sig og flytja súkkulaðigerð sem þau hafa rekið á Flúðum yfir í Bjarkarhól. Vinningstillögur í hugmynda-samkeppni að skipulagi á Geysissvæðinu voru kynntar 7. mars. Alls bárust 14 tillögur og sigurvegarar voru Landsmótun sf., sem inniheldur m.a. Einar E. Sæmundsen, landslagsarkitekt FÍLA, í samstarfi við Argos arkitekta. Í áliti dómnefndar um vinningstillögu segir að heildarlausn sé vel útfærð. Lega stíganna er raunhæf og til þess fallinn að mynda gott flæði. Upplifunarstígum og útsýnispöllum sé einnig vel fyrirkomið. Sjónlínum er haldið hreinum og aðgangur opnaður að fleiri hverum. Vonir standa til þess að verðlaunaðar hugmyndir verði nýttar í áframhaldandi vinnu við gerð heildarskipulags fyrir svæðið og að hefja megi uppbyggingu á svæðinu á grundvelli þeirrar vinnu. Landeigendafélag Geysis hóf gjaldtöku fyrir aðgang að Geysissvæðinu 15. mars. Eftir háværar deilur og málaferli var landeigendum gert að láta af gjaldtöku, en beðið er niðurstöðu ríkisins um öflun og deilingu fjármuna til viðhalds fjölsóttra ferðamannastaða. Leyndardómar Suðurlands hófust föstudaginn 28. mars og stóðu út sunnudaginn 6. apríl. Fjöldi fyrirtækja og menningaraðila sýndu sitt besta andlit og í Bláskógabyggð voru Hótel Geysir með viðburðinn Upplifðu leyndarmálið á Geysi 4.-6. apríl, Gullkistan, miðstöð sköpunar var með opið hús í Miðstöðinni á Laugarvatni báðar helgarnar, Bjarkarhóll var með stórútsölu alla dagana, Gallerí Laugarvatni var með íslenskt páskahandverk og skreytingar, á Laugvatni var líka Laugarvatn í ljúfum draumi, Lindin hélt upp á Afmælisdag sinn, Efstidalur bauð upp á Ferðamannafjós og Leyndardómaís, Café Mika bauð upp á íslenska lambið í aðalhlutverki. Einnig var frítt í sund í Reykholtslaug þann 29. mars. Vegagerðin fékk 3. apríl framkvæmdaleyfi sveitar- stjórnar til breikkunar Biskupstungnabrautar frá Múla að Neðra-Dal. Vegavinnan mun standa áfangaskipt yfir í sumar og fram undir lok sumars 2015. Kristinn L. Aðalbjörnsson.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.