Litli Bergþór - 01.07.2016, Blaðsíða 3

Litli Bergþór - 01.07.2016, Blaðsíða 3
Litli-Bergþór 3 Ritstjórnargrein Það er ekki seinna vænna, kæru uppsveitungar, að snúa vörn í sókn. Ef ekkert er að gert heldur þjónustan áfram að sogast í burtu frá okkur, í þéttbýliskjarnann á Selfossi, ef ekki alla leið til Reykjavíkur og eftir situr snauðara samfélag. Dæmin hafa verið óþægilega mörg undanfarið. Á síðustu áratugum hafa verslanir lagst af, banka- og póstútibúum hefur verið lokað. Síðustu fréttir herma að Íþróttaháskólinn á Laugarvatni sé á förum til Reykjavíkur. Læknavaktin, utan opnunartíma Heilsugæslunnar í Laugarási, var flutt frá Laugarási á Selfoss fyrir tveim árum og óvissa ríkir um hvort ungir læknar fást til að setjast að í Laugarási þegar sú gulrót er horfin. Opnunartími apóteksins hefur verið styttur. Pósturinn mun, frá 1. apríl 2016 einungis koma með póst tvo daga aðra vikuna og þrjá daga hina vikuna til okkar uppsveitunga. Þetta lítur ekki vel út. Ef við lítum í kringum okkur hefur samfélagið vissulega breyst. Samgöngur hafa batnað og stór hluti íbúa uppsveitanna hefur snúið sér frá kúabúskap að búskap með ferðamenn. Jörðum hefur verið skipt upp í sumarbústaðalönd eða stofnuð ferðaþjónustufyrirtæki. Húsnæði, sem losnar í sveitarfélaginu, er leigt ferðamönnum eða starfsfólki ferðaþjónustunnar, svo erfitt er að fá húsnæði til leigu. Lítið skárra ástand en í 101 Reykjavík. En ný atvinnustarfsemi krefst þess ekki síður að stutt sé í alla þjónustu og því er nauðsynlegt fyrir okkur að halda í þjónustuna hér svo samfélagið okkar fái áfram vaxið og dafnað. Lítum því okkur nær og hlúum að því sem við höfum. Sem betur fer höfum við ennþá Bjarnabúð hér í Biskupstungum og aðrar verslanir í nágrannasveitarfélögum. Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur lofað því að læknisþjónusta í Laugarási verði ekki lögð af og vonandi fáum við unga og góða lækna til að setjast hér að þegar höfðingjarnir Pétur og Gylfi þurfa að hætta, þó helst hefðum við viljað að þeir væru eilífir. Apótekið er enn opið á hverjum degi, þó föstudagurinn hafi verið styttur. Sem sagt ekki allt glatað sem betur fer. Kæru uppsveitungar, framtíðin er í okkar höndum.Verum jákvæð gagnvart umhverfi okkar og tölum það upp, ekki niður. Við búum á fallegasta og veðursælasta stað á landinu (þó við segjum sjálf frá), samfélagið er gott og hefur alla möguleika á að verða enn betra. Hjálpumst að við að skapa ný og fjölbreytt atvinnutækifæri og gefum nýjum hugmyndum svigrúm, svo unga fólkið sjái sér hag í að flytja hingað og skapa sér enn fleiri starfsvettvanga. Þá fjölgar börnum í skólanum og samfélagið verður fjölbreyttara og skemmtilegra. Partur af þessu öllu er að nota þá þjónustu sem í boði er hér í heimabyggð svo hún haldi áfram að vera til fyrir okkur. Spörum bensínið og verslum heima. Munum, að það sem ekki er notað, það hættir að vera til! GS „Ekki er ég að fara neitt! Ég verð alltaf með ykkur.“

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.