Litli Bergþór - 01.07.2016, Blaðsíða 26

Litli Bergþór - 01.07.2016, Blaðsíða 26
26 Litli-Bergþór að fara „útfyrir“. Sá bær er eiginlega inni lokaður, því að Laxá er fyrir sunnan, og Hvítá fyrir vestan. Þá hefur verið öðruvísi um að litast á Haukadalsheiði. -Hafa Biskuptungur ekki fengið að vita af sandfoki og uppblæstri, eins og fleiri sveitir á Íslandi? -Jú, það er búið að gera mikil spjöll í Haukadal og á afréttinum þar fyrir ofan. - Eins og menn vita, þá fellur Tungufljót eftir sveitinni og klýfur hana. Í eystri hluta Tungunnar eru líka mikil skersli, allt til byggðar, en nú er hætt að blása þar upp, og er heldur farið að gróa upp aftur. Nú er lagt mikið kapp á að sá í þessi landsvæði og bera á þau. Þetta virðist bera mikinn árangur, jafnvel uppi á afrétti, þar sem þó er alveg ógirt land. Jörðin er fljót að breytast, þegar hún fær áburð, ef einhver ofurlítill gróður hefur verið þar fyrir. Ég vona fastlega að þessari starfsemi verði haldið áfram, því að þá verður vörn áreiðanlega snúið í sókn. Hins vegar má nærri geta, að við ramman er reip að draga, þar sem sand- og vikurlög eru svo laus, að hestar kafa þau í miðjan legg. Slíkur jarðvegur er ekki lengi að fjúka burt í vindum, jafnvel þótt þar sé talsverður gróður. -Þú hefur auðvitað ekki farið varhluta af þeim búsifjum, sem uppblásturinn olli, þegar þú varst í Haukadal? -Ónei, maður fékk að vita af því þar, en á Felli hefur slíku ekki verið til að dreifa. En einhvern tíma hefur verið blómlegra um að litast í Haukadal en nú. Páll Guðmundsson, sem lengi var bóndi og hreppstjóri í Haukadal á nítjándu öld, átti stóð, sem gekk á Haukadalsheiði, og vafalaust hafa hrossin gengið þar úti að mestu leyti, allan ársins hring. Slíkt hefði ekki getað gerzt í minni þeirra manna sem nú lifa, því að nú er ekki meir en svo að þar sé bithagi fyrir kindur að sumrinu. Mestan part er landið melar og grjótflákar, en gróður lítill og gisinn. - Inn með Ásbrandsá er dálítil rönd, sem liggur lægra en landið í kring, og hún er gróin, en þar er gróðurlendið alltaf að ganga að sér, eins og því miður hefur víða verið raunin hér á landi síðustu mannsaldrana. Páll Guðmundsson í Haukadal var ágætur hesta- maður og tamdi gæðinga. Einu sinni ól hann upp móálóttan fola af reiðhestakyni sínu, tamdi hann og gaf hann Jóni Jónssyni lögsagnara og umboðsmanni, sem alltaf var kallaður Jónson. Mósi varð afbragðs reiðhestur, og átti Jónson hann lengi. En þau urðu örlög Jónsons og Mósa hans, að báðir fórust - niður um vök á Þjórsá snemma vetrar árið 1842. „Mánuði eftir veturnætur“, segir sagan. En um þetta allt geta menn lesið í Sögunni af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum, því að þetta var einmitt á dögum Kambsránsmanna. Já, það eru ekki nema rúm hundrað ár síðan stóð gekk á Haukadalsheiði, þar sem nú er blásið land. Þetta er ekki lengi að breytast. Þetta er óhjákvæmilegur þáttur búskaparins -Var fjölbyggðara í Biskupstungum, þegar þú komst þangað til búsetu fyrir hálfum sjöunda áratug, en það er núna? -Nei, það held ég ekki. Að vísu er ekki alveg dæma- laust, að jarðir hafi farið í eyði á þessum tíma, en allar verulegar bújarðir, sem þá voru, eru enn í byggð. Það var mjög ánægjulegt að setjast að í þessari fallegu og búsældarlegu sveit, og sveitarbragurinn var líka mjög aðlaðandi. Þá voru í Biskupstungum margir bændur sem höfðu gaman af söng og gleðskap, og samkomur voru haldnar að vetrinum sem þó var ekki orðið alsiða í sveitum á þeim tíma. Nú eru flestir þessara gömlu bænda horfnir af sviðinu en afkomendur þeirra eru enn í Biskuptungum og, enn er þar gott fólk og skemmtilegir menn sem gaman er að hitta og deila geði við. -Búa menn við kýr eða sauðfé í Biskuptungum, eða kannski hvort tveggja? -Flestir eru með blandaðan búskap, en þó er til að menn haldi sig nær eingöngu við eina grein búskapar. -Það hlýtur að vera langt fyrir ykkur að reka á fjall? -Já, við erum á þriðja sólarhring, að minnsta kosti þeir sem búa í framsveitinni, en hinir sem nær eru afréttinum, eru degi fljótari. Það verður að reka hægt, þegar farið er svo langan veg með lambfé, en það venst eins og allt annað. Á haustin fara um þrjátíu menn til þess að smala í fyrsta safn, og þeir eru í sex daga, en réttin er á sjöunda deginum. Það eru því talsverðir erfiðleikar á því að koma fénu í heiðina á vorin og ná því þaðan aftur á haustin, en þetta er óhjákvæmilegur þáttur búskaparins, og þar af leiðandi eins og hver annar sjálfsagður hlutur. „Þegar ég tek á mig náðir að loknum degi..“ - Nú hefur þú, Kristján, átt heima í þessari sögufrægu sveit, Biskupstungum, í hálfan sjöunda áratug og rösklega þó. Hvernig er þér nú í hug, þegar þú lítur yfir þennan langa feril? -Ég hef ekki undan neinu að kvarta. Biskupstungur eru ágæt sveit og fólkið ekki síður. Mér hefur liðið vel þar, þótt aldrei hafi verið auður í búi hjá mér, sízt framan af árum. En ég komst þetta allt klakklaust, ég á tíu börn á lífi, og það er ekki lítill afrakstur einnar mannsævi. Ég komst á nítugasta árið, núna fyrir fáum dögum enda er ég nú að verða lélegur til vinnu, sem einhverja orku þarf við. En sjónin má heita góð og ég les eitthvað alla daga. - Ég held að ég hafi oftast gert eins og ég gat, og stundum var vinnudagurinn langur. Biskupstungur eru fyrir löngu orðnar hluti af sjálfum mér. Örlög mín tengdust þessari fögru sveit órjúfandi böndum, ég á þar margt skyldmenna og venzlafólks, sumt af því er enn í fullu fjöri, annað er komið undir græna torfu. Ég á þar meðal annars bæði eiginkonu og börn í jörðu, og hjá þeim vil ég vera þegar ég tek á mig náðir að loknum degi. -VS Svava Theodórsdóttir

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.