Litli Bergþór - 01.07.2016, Blaðsíða 23
Litli-Bergþór 23
geta að oft hafi verið þungt að sinna gegningum, ekki
síst í hríðarbyljum og hefur örugglega oft mátt litlu
muna að menn næðu heim.
Gústaf, bróðir Kristjáns, var hjá honum vinnumaður
lengi. Voru þeir mjög samrýmdir bræður og sagði
Kristján seinna að hann hefði varla haldið út búskapinn
í Haukadal hefði hann ekki notið fulltingis Gústafs.
Guðbjörg og Kristján eignuðust alls 13 börn, fimm
syni og átta dætur en þrjú þeirra dóu í æsku. Þau sem
lifðu til fullorðinsára eru: Greipur (f. 1914 - d. 1988),
Sigurgeir (f. 1916 - d. 1993), Elín (f. 1917 - d. 2002),
Jóhanna (f. 1919 - d. 1986), Loftur (f. 1920 - d. 1982),
Sigríður (f. 1922), Ketill (f. 1924 - d. 2015), Auður
(f. 1932), Katrín (f. 1935 - d. 1987), Áslaug (f. 1936).
Árið 1927 hóf Sigurður Greipsson, bróðir Guðbjargar,
byggingu íþróttaskóla við Geysi, en hann réði yfir
hálfri Haukadalsjörðinni. Hann rak bú og taldi sig
vanta landrými. Kristjáni og Guðbjörgu leist ekki á
að búa lengur í Haukadal þar sem börnin voru orðin
átta talsins og skuldir höfðu aukist. Börnin voru líka
að komast á skólaaldur og þá var nýbúið að reisa
heimavistarskóla í Reykholti.
Það var því um vorið 1929 að þau seldu Sigurði
Greipssyni sinn hlut í jörðinni eftir 19 ára búskap
þar. Fluttu þau þá að jörðinni Felli sem er neðar í
sveitinni, ekki svo langt frá Reykholti þar sem nýi
barnaskólinn var risinn. Fell hafði gamall maður gefið
barnaskólanum til eignar og leigðu þau jörðina af
skólanefndinni til að byrja með.
Heimskreppan var að skella á, húsakostur var um
margt lélegur að Felli og þurfti endurnýjunar við og
tún voru í órækt og kargaþýfð. En jörðin var nokkuð
stór og vetrarbeit góð þó að slægjur væru rýrar.
Um 1940 rýmkaðist svo um hjá þeim hjónum að þau
gátu keypt jörðina. Árið 1952 tóku synir þeirra, Loftur
og Ketill við jörðinni en þau bjuggu samt áfram með
allmargt fé og nokkur hross. Það var svo árið 1963 að
Auður dóttir þeirra og Jóhann Vilhjálmur Vilbergsson
maður hennar tóku við af Lofti og Katli en Kristján og
Guðbjörg bjuggu á Felli til æviloka. Guðbjörg dó1973
en Kristján 1983.
Fell er enn í eigu ættarinnar en ekki er þar rekinn
búskapur lengur.
„Þetta var eitt af fyrstu húsunum í
Tungunum í þessum stíl og þótti flott á
sínum tíma. Tungnamenn kölluðu það
Hótel Fell, svo stórt fannst þeim það, þó
ekki þætti það stórt í dag. Þarna bjó stór
fjölskylda, það voru Kristján og Guðbjörg
og börnin þeirra 10 auk þess sem alltaf var
eitthvað um aukafólk. Það fylgdi þessum
stað mikill gestagangur. Ég man vel þegar
ég var barn í nýja húsinu á Felli að þar
var jafnan mikill gestagangur og eitt sinn
voru svo margir næturgestir að ég var látin
sofa í forstofunni ásamt bræðrum mínum.
Nafngiftin Hótel Fell hefur því oft átt vel
við á meðan búið var á jörðinni”.
Guðbjörg Jóhannsdóttir,
barnabarn Kristjáns Loftssonar.
Gamla húsið á Felli.