Litli Bergþór - 01.07.2016, Blaðsíða 34
34 Litli-Bergþór
Lambadalur er yngri deild leikskólans Álfaborgar og er ávallt gaman hjá okkur. Mestu máli skiptir að
börnunum líði vel og þau finni fyrir öryggi. Við veitum þeim hlýju, umhyggju og sýnum þeim festu.
Rík áhersla er lögð á vináttuna, að börnin sýni hvort öðru vinsemd í orðum og gjörðum. Frjálsi eða
sjálfsprottni leikurinn er í hávegum hafður hjá okkur og við gætum þess að leikefnið sé sem fjölbreyttast,
bæði fyrir ýmis konar borðvinnu (pinna, púsla, spila, teikna, leira o.s.frv.), leik á gólfinu (kubbar, lest,
bílar, dýr og fleira) og síðast en ekki síst hlutverkaleikurinn/dúkkó.
Á hverjum morgni fara börnin í ávaxta- og samverustund. Þar förum við yfir mætingalistann, hverjir
eru mættir og hverjir ekki (líkt og gert er í grunnskólanum), við förum yfir dagatalið og lærum ný
tákn, skoðum veðrið og sjáum þá hvers konar útifatnað við þurfum í útiverunni. Einnig eru söng- og
sögustundir á hverjum degi.
Vikulega í vetur hafa börnin farið í skemmtilegar faggreinar, tónlist, myndlist og íþróttir. Þar læra
þau meðal annars að vera í hóp, taka tillit til hvors annars og að fara eftir fyrirmælum. Í tónlistinni
hafa þau kynnst ýmsum hljóðfærum, þau læra alls konar texta (gamla og nýja), hlusta á fjölbreytta
tónlist sem og tónlistartengdar sögur. Í myndlistinni höfum við haft mánuðina þematengda og fléttað
árstíðirnar inn í það. Börnin fá að kynnast ólíkum efnivið og læra að ganga frá eftir sig, þ.e. þau þrífa
áhöldin sjálf. Í íþróttahúsinu fá börnin útrás fyrir hreyfiþörfina, þau fara í alls konar þrautabrautir og
leiki, fá að leika frjálst með bolta og fleira sem í boði er.
Við höfum mjög gaman af endurnýtanlegum efnivið, bæði í leik og sköpun, og tökum fagnandi á móti
ef þið lumið á einhverju.
Kveðja,
Eyrún Ósk, deildarstjóri Lambadals.
Lambadalur
er gaman
Við erum dugleg að nýta endurvinnanlegan efnivið.
Hér er verið að búa til sparibauka. Útileikur. F.v. Kristjana Karen, Bergur Páll og Hulda Sophia.
Í leikskóla