Litli Bergþór - 01.07.2016, Blaðsíða 41

Litli Bergþór - 01.07.2016, Blaðsíða 41
Litli-Bergþór 41 er allstórt, ég giska á svona 10-20 ha. Þar er nánast enginn gróður nema grámosi. Gras er ekki sjáanlegt nema í fáeinum uppgrónum gæsahreiðrum, nokkuð er af berum klöppum. Ekki veit ég hvað helst vakti athygli Sigurðar, hann kvaðst mundu vinna úr sínu efni og skrifa einhverja ritgerð um það, en hann svona glotti til mín og sagði: „Ekki er það nú beisið til beitar“. Þarna er ekki líklegt að nokkurntíman hafi verið fjárbeit sem neinu nemur og ef þetta eru þau horfnu landgæði, sem menn eru sífellt að harma, þá held ég þeim væri óhætt að þurrka sér um augun. Vestan við Fúlukvísl og norðan Hvítárvatns er mikið landsvæði, sem yfirleitt hefur sætt litlu beitarálagi. Þar er blómlegur gróður í skjólsælum fjallahlíðum á nokkrum stöðum, en meginsvæðið er gróðurlítið hrjóstur og þar eru rofabörð og sandfok þar sem einhver jarðvegur er á annað borð. Nú á seinni árum hefur umferð hestamanna um hálendið farið ört vaxandi, sem kunnugt er. Við höfum brugðist við því með því að færa náttstaði fyrir hestana út á gróðurlaust land og koma upp hesthúsum og girðingum að verulegum hluta með frjálsum framlögum fjárbænda og annarra áhugamanna um fjallaferðir. Við höfum haft til reiðu hey til að fóðra hestana og umsjónarmaður á vegum hreppsins hefur séð um það sem og aðra þjónustu á áningarstöðum. Nýtingu afréttarins munum við halda áfram meðan þess er nokkur kostur, það er þáttur í okkar atvinnu og okkar menningu. Í seinni tíð hefur nútíma samgöngutækni ásamt starfsfúsum sjálfboðaliðum auðveldað mjög smölun afréttarins og hafa endurbætur á veginum og uppbygging sæluhúsa í náttstöðum auðveldað mjög þá þróun. Fjallaferðir hafa verið mörgum sveitamanninum hin mesta upplyfting og gleðigjafi. Ef ég lifi elli í kör, Orðnar kaldar mundir Skal ég muna á fjöllum fjör Og fornar gleðistundir. Kvað einhver fyrir mörgum áratugum og er enn í fullu gildi. Að smala daglangt um töfraheim fjallanna og smáauka við hópinn, sem rennur niður með kvíslinni eða fjallshlíðinni og sjá einu sinni enn hvar lítill lækur sprettur út úr hlíðinni og vökvar blómareit í brekkurótum eða hvernig hlíðin roðnar við kvöldsól- inni ellegar tröllamyndir hraunhólanna og vinarbros lítillar berjalautar, setjast svo að kvöldi við söng og gleði. Þar geta allir tekið þátt í og notið sönggleðinnar, hvort sem hæfileikar eru meiri eða minni, því þar er engin gagnrýni. Fjallferðasögur eru alkunnar, þær eru oftast um mannraunir og hetjudáðir en þó er einstaka manni lagið að segja svo frá kímilegum smáatvikum að lengi er í minnum haft. Þar hafa líka margir hagyrðingar fengið lof fyrir list sína og stundum meira en verðugt var. Og enn telja bæði ungir og gamlir dagana til fjallferðar og ekki spillir að nú á tímum jafnréttis hefur kvenþjóðin líka haslað sér völl á þessum vettvangi. Ég hef nú sjálfsagt talað nógu lengi. Ég þakka fyrir áheyrnina og að fá að spjalla við ykkur þessa stund og ef ég lýk nú máli mínu í sama stíl og ég byrjaði: Geldingahnappur á grýttum mel með glóbjarta kollinn sinn og skemmtileg vísa sem skilar sér vel, það er skrautjurtagarðurinn minn. Jón Karlsson Ungmennafélag Biskupstungna óskar félögum sínum og öllum öðrum gleðilegs og gjöfuls sumars.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.