Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.09.2018, Blaðsíða 12
Ég held að engin okkar hafihugsað eitthvað sérstaklegaút í að þetta væri fyrsta mark
Íslands og ég man ekki hver átti
sendinguna á mig. Ég hlýt að hafa
skorað með skoti því að ég var ekki
þekkt fyrir að nota höfuðið.“
Þetta sagði Blikastúlkan Bryndís
Einarsdóttir í samtali við Morg-
unblaðið árið 2006, en hún gerði
fyrsta mark íslenska kvennalands-
liðsins í leik gegn Skotum á Boghead
Park í Dumbarton 20. september
1981. Skotar unnu leikinn, 3:2, og
gerði Ásta B. Gunnlaugsdóttir, einn-
ig úr Breiðabliki, seinna mark Ís-
lands.
Sigmundur Ó. Steinarsson fjallar
ítarlega um leikinn í bók sinni Stelp-
urnar okkar – saga knattspyrnu
kvenna á Íslandi frá 1914 sem kom
út í fyrra. Þar kemur meðal annars
fram að mikil bréfaskipti hafi átt sér
stað í aðdraganda leiksins, en fyrsta
bréfið sem KSÍ ritaði skoska knatt-
spyrnusambandinu týndist vegna
þess að ritari skosku kvenna-
nefndarinnar, sem það var stílað á,
var hættur störfum. Næsta bréf
komst í réttar hendur og kom þá í
ljós að Skotar voru meira en tilbúnir
að taka á móti íslenska liðinu. Óskaði
skoska sambandið eftir ýmsum upp-
lýsingum, meðal annars ljósmynd af
íslenska liðinu í fullum herklæðum.
Var slík mynd tekin sérstaklega af
því tilefni. „Það er ósk mín að þetta
verði gott upphaf að góðum sam-
skiptum þjóðanna,“ skrifaði Sig-
urður Hannesson, nefndarmaður í
kvennanefnd KSÍ, sem annaðist
skipulagningu fyrir hönd Íslands.
Þrátt fyrir þröngan fjárhag
Uppistaðan í landsliðinu var leik-
menn úr liði Breiðabliks, nýbakaðra
Íslandsmeistara, og Vals. „Hjá þess-
um félögum hafa stúlkurnar mikla
reynslu – hafa leikið knattspyrnu í
mörg ár,“ sagði Guðmundur Þórð-
arson landsliðsþjálfari á fyrstu
landsliðsæfingunni í viðtali við Vísi.
Skotar greiddu allan kostnað við
framkvæmd leiksins en gátu ekki
tekið þátt í ferðakostnaði og uppi-
haldi íslenska liðsins. Fyrir vikið rit-
aði kvennanefnd KSÍ stjórn sam-
bandsins svohljóðandi bréf: „Þar
sem við teljum útilokað að stúlk-
urnar geti einar staðið straum af
þessum kostnaði væntum við þess
eindregið að stjórn KSÍ sjái sér
fært, þrátt fyrir þröngan fjárhag, að
veita hugsanlega fyrsta kvenna-
landsliði Íslands fjárhagslegan
stuðning, sem næmi um helmingi af
kostnaði.“
Niðurstaðan var sú að KSÍ borg-
aði þriðjung af kostnaði ferðarinnar
en það sem upp á vantaði fékkst frá
innlendum fyrirtækjum, að því er
fram kemur í bók Sigmundar.
Lítið var vitað um skoska liðið en
það hafði þó meiri reynslu en það ís-
lenska; hafði samtals leikið 28 lands-
leiki frá árinu 1972.
Til stóð að leika þjóðsöng Íslands
fyrir leikinn, eins og tíðkast, og var
hann með í farteskinu á snældu.
Þegar á hólminn kom hljómaði bara
skoskur skottís og brá landsliðs-
konum nokkuð við þetta. Við eftir-
grennslan kom á daginn að ekkert
segulbandstæki var á vellinum, að-
eins grammófónn. Því fór sem fór.
Lengdur um 20 mínútur
Aðstæður voru erfiðar í Dumbarton
þennan haustdag; úrhellisrigning og
völlurinn þungur. Þá ákváðu Skot-
arnir að leiktími yrði 2x45 mínútur
en ekki 2x35 mínútur eins og tíðk-
aðist hér heima og kveðið var á um í
alþjóðlegum reglum.
Guðmundur þjálfari var raunar á
því að Ísland hefði unnið leikinn
hefði leiktíminn verið 70 mínútur.
Það rökstyður hann með þessum
orðum í bókinni Stelpurnar okkar:
„Skotarnir skoruðu öll mörk sín er
leiktími á Íslandi hefði verið úti –
fyrst í fyrri hálfleiknum og síðan í
þeim síðari.“
Skotar jöfnuðu leikinn á 84. mín-
útu og gerðu sigurmarkið mínútu
síðar.
Sjö leikmenn Breiðabliks hófu
leikinn og fyrir vikið var stuðst við
leikaðferðina sem gefist hafði Ís-
landsmeisturunum vel. Hverfðist
hún ekki síst um stungusendingar
inn fyrir vörn Skota á hina eldfljótu
framherja, Bryndísi og Ástu B.
„Leikurinn reyndi mikið á okkur
þar sem aðstæður voru erfiðar –
völlurinn var blautur og þungur,“
rifjar Ásta B. Gunnlaugsdóttir upp í
bókinni. Auk lengri leiktíma voru
hornspyrnur teknar frá hornfána en
ekki frá vítateigshorninu, eins og
tíðkaðist hér heima. „Það var erfitt
að koma þungum knettinum fyrir
mark af svo löngu færi. Þegar á leik-
inn leið skorti okkur úthald og við
vorum orðnar þreyttar er við feng-
um á okkur tvö mörk undir lok
leiksins.“
Ásta sá líka spaugilegu hliðina á
aðstæðum. „Við vorum í hvítum
landsliðsbúningi og þegar treyj-
urnar blotnuðu veittu þær okkur
ekki mikla vernd – það sást allt í
gegn,“ segir hún og bætir við að gár-
ungarnir hafi talað um „blautbols-
keppni“.
Formaðurinn fór með
Ásta segir ferðina hafa verið mikið
ævintýri. „Við fengum allt sem við
þurftum – nýja æfingagalla og allan
búnað án þess að þurfa að hafa neitt
fyrir því. Okkur leið eins og drottn-
ingum. Stelpurnar sem voru með
handboltalandsliðinu á þessum tíma
þurftu að leggja mikið á sig og hafa
mikið fyrir hverjum leik. Okkur
þótti mikil upphefð í því að formaður
Knattspyrnusambands Íslands,
Ellert B. Schram, fór með okkur.“
Umfjöllun um leikinn var ekki
mikil og stúlkurnar fundu ekki staf
um hann í skoskum fjölmiðlum,
hvorki fyrir leik né eftir. Enda þótt
þær væru vanar lítilli umfjöllun hér
heima kom það á óvart. Síðar birtist
raunar lesandabréf frá fulltrúa
skoska knattspyrnusambandsins í
staðarblaði í Dumbarton, þar sem
forsvarsmönnum félagsins var þakk-
að fyrir afnotin af vellinum. Þar kom
fram að Skotar hefðu unnið leikinn.
„Það gleður mig að upplýsa að úr-
slitin urðu Skotland 3 Ísland 2.“
Það sætir því tíðindum að engar
heimildir eru til um leikinn hjá
skoska knattspyrnusambandinu en
Sigmundur Ó. Steinarsson lagði
mikið á sig til að afla upplýsinga við
gerð bókar sinnar. Leikurinn er
hreinlega ekki skráður þar ytra. Á
endanum gat Sigmundur frætt
skoska sambandið og þarlenda
blaðamenn mun meira um leikinn en
þeir hann. Hér er væntanlega um
handvömm að ræða af hálfu skoska
sambandsins.
Það breytir ekki því að leikurinn
fór fram og markaði upphafið að
vegferð íslenska kvennalandsliðsins.
„Okkur leið eins og drottningum“
Myndin sem send var út til Skotlands fyr-
ir landsleikinn 1981. Aftari röð frá
vinstri: Guðmundur Þórðarson lands-
liðsþjálfari, Kristín Reynisdóttir, Kristín
Aðalsteinsdóttir, Sigrún Blömsterberg,
Hildur Harðardóttir, Svava Tryggvadótt-
ir, Jónína Kristjánsdóttir, Bryndís Vals-
dóttir, Sigrún Cora Barker, Ásta B.
Gunnlaugsdóttir og kvennanefnd KSÍ,
Svanfríður María Guðjónsdóttir, Sig-
urður Hannesson og Gunnar Sigurðs-
son, formaður nefndarinnar. Fremri röð:
Eva Þórðardóttir, Brynja Guðjónsdóttir,
Magnea Helga Magnúsdóttir, Ragnheiður
Jónasdóttir, Guðríður Guðjónsdóttir,
Ásta María Reynisdóttir, Bryndís Einars-
dóttir, Ragnheiður Víkingsdóttir og Rósa
Áslaug Valdimarsdóttir fyrirliði.
Úr bókinni Stelpurnar okkar
Valsstelpurnar Bryndís Valsdóttir, Ragnheiður Víkingsdóttir og Sigrún Cora Bark-
er ásamt Svanfríði Maríu Guðjónsdóttur úr kvennanefnd KSÍ á æfingu í Glasgow.
Ásta B. Gunnlaugsdóttir var marka-
drottning af Guðs náð.
Aðstæður voru erfiðar, hellidemba, þungur völlur og leiktíminn 20 mínútum lengri en stelpurnar áttu að venjast. Íslenska kvenna-
landsliðið stóð þó rækilega í Skotum í fyrsta leik sínum sem fram fór ytra haustið 1981 og gat borið höfuðið hátt þrátt fyrir tap, 3:2.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
’Skotarnir skoruðu öllmörk sín er leiktími áÍslandi hefði verið úti –fyrst í fyrri hálfleiknum
og síðan í þeim síðari.
FÓTBOLTI
12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 2.9. 2018